Dómsmálaráðuneytið sendi öllum lögreglustjórum á Íslandi bréf þann 20. maí síðastliðinn vegna ítrekaðra stöðuveitinga innan lögreglu án auglýsingar.
Í bréfinu, sem ritað er fyrir hönd Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur dómsmálaráðherra, er brýnt fyrir lögreglustjórum að huga að þeirri meginreglu starfsmannalaga að laus embætti skuli auglýst í Lögbirtingablaðinu.
Þá er bent á að 36. gr. starfsmannalaga um flutning milli embætta eigi fyrst og fremst við þegar um varanlega ráðstöfun er að ræða og að almennt eigi ekki að flytja starfsfólk milli starfstiga án auglýsingar nema uppi séu sérstakar ástæður sem réttlæti það.
Tilefni bréfsins er athugun umboðsmanns Alþingis á máli þar sem ríkislögreglustjóri réði í starf yfirmanns fjarskiptamiðstöðvar embættisins án auglýsingar. Var lögreglufulltrúi færður til í starfi og látinn kynna sér starfsemi fjarskiptamiðstöðvarinnar frá og með 1. apríl 2019 með það fyrir augum að hann tæki síðan við starfi yfirmanns þegar núverandi aðstoðaryfirlögregluþjónn lætur af störfum í lok ársins.
Að því er fram kemur í bréfi sem umboðsmaður sendi dómsmálaráðuneytinu þann 8. apríl síðastliðinn hafa fleiri lögreglumenn leitað til hans undanfarin ár vegna stöðuveitinga án auglýsingar. Nýlega lauk umboðsmaður máli þar sem kvartað hafði verið undan því að sett væri í fjórar stöður aðalvarðstjóra í flugstöðvardeild lögreglustjórans á Suðurnesjum án þess að auglýst væri í samræmi við reglur um auglýsingaskyldu. Umboðsmaður taldi ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þetta í ljósi skýringa sem fengust frá embættinu.
Lögreglustjóri sagði auglýsingar skapa óróa
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, sendi starfsmönnum tölvupóst í vor þar sem fram kom að ýmsar breytingar væru í farvatninu að því er varðar yfirmannsstöður hjá lögreglu. „Eins og þið þekkið eru breytingar og auglýsingar á yfirmannastöðum sérstaklega vel til þess fallnar að stuðla að óróleika hjá embættinu,“ skrifaði hún og bætti því við að yfirstjórnin hefði „ákveðið að bíða með að festa stöður og setja frekar eða flytja í samræmi við starfsmannalög þar sem vantar tímabundið að losa álag, vinna betur með hverja einingu og fá reynslu á hvort viðkomandi breytingar skili þeim árangri sem að er stefnt“. Haft var eftir Sigríði í Morgunblaðinu þann 3. apríl að með þessu fengju fleiri „tækifæri til að spreyta sig“ í ýmsum störfum.
„Eins og þið þekkið eru breytingar og auglýsingar á yfirmannastöðum sérstaklega vel til þess fallnar að stuðla að óróleika hjá embættinu“
Þetta er í takt við þá þróun sem orðið hefur hjá lögreglunni eftir að Sigríður Björk var flutt frá lögregluembættinu á Suðurnesjum til Reykjavíkur og skipuð lögreglustjóri án auglýsingar. Í kjölfarið var ráðist í miklar skipulagsbreytingar. Aðstoðarlögreglustjórar til margra ára voru færðir til og umfangsmikil starfsmannaskipti hófust milli Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóra. Í því fólst að ráðið var beint í stöður sem undir öðrum kringumstæðum hefði þurft að auglýsa lausar til umsóknar.
Stundin ræddi við starfsfólk lögreglu á sínum tíma sem upplifði breytingarnar með þeim hætti að markvisst væri gengið fram hjá reyndu fólki, bæði konum og körlum, sem sett væri „í verkefni sem hreinlega eru niðurlægjandi þegar litið er til fyrri starfa, reynslu og orðspors“. Sumarið 2015 innleiddi lögreglan svo nýtt skipurit sem felur í sér að aðstoðarlögreglustjórar voru færðir niður á sama stig og yfirlögregluþjónar. Skipað var í stöður yfirlögregluþjóns og aðstoðaryfirlögregluþjóns án auglýsingar auk þess sem gerðar voru breytingar á hlutverkum og verkefnum fyrri yfirstjórnenda.
Ógerlegt að svara þinginu um tilfærslur starfsmanna
Þær tilfærslur lögreglumanna í starfi sem hafa átt sér stað síðan nýr lögreglustjóri tók við árið 2014 eru svo margar að dómsmálaráðuneytið og lögregla hafa ekki séð sér fært að veita Alþingi umbeðnar upplýsingar um þær.
„Hvað varðar tilfærslur í starfi, þá geta þær farið fram á grundvelli 2. mgr. 7. gr., 19. gr., og 36. gr. starfsmannalaga, nr. 70/1996, ýmist tímabundið eða varanlega, og væri því afar umfangsmikið að greina allar tilfærslur sem hafa átt sér stað. Ógerlegt er að svara þeim hluta fyrirspurnarinnar í stuttu máli, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis,“ segir í nýlegu svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Söru Elísu Þórðardóttur, varaþingkonu Pírata, um málefni lögreglu.
Sviptingar í gömlu fíkniefnadeildinni
Árið 2016 fjallaði Stundin með ítarlegum hætti um sviptingar í gömlu fíkniefnadeild lögreglu sem nú heyrir undir hina miðlægu rannsóknardeild. Innanríkisráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu sumarið 2016 að lögreglustjóri hefði brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar þegar lögreglufulltrúa úr deildinni var vikið frá störfum í kjölfar þungra ásakana sem hann var síðar hreinsaður af.
Sama ár stefndi Aldís Hilmarsdóttir, fyrrverandi yfirmaður deildarinnar, ríkinu vegna meints eineltis Sigríðar Bjarkar í sinn garð. Samskiptaörðugleikarnir milli Aldísar og Sigríðar vörðuðu mál lögreglufulltrúans með beinum hætti, en Aldís tók afstöðu með manninum og taldi ekkert hafa komið fram sem benti til að hann hefði brotið af sér. Aldís vann málið fyrir Hæstarétti þann 11. október 2018, ákvörðun lögreglustjóra um breytingar á starfsskyldum Aldísar var felld úr gildi og ríkinu gert að greiða henni 1,5 milljónir í miskabætur og 2,5 milljónir í málskostnað.
Mál Aldísar og lögreglufulltrúans sem var ranglega sakaður um óeðlileg samskipti við brotamenn hafði miklar afleiðingar innan fíkniefnadeildarinnar. Um helmingur þeirra lögreglumanna sem sökuðu lögreglufulltrúann ranglega um lögbrot var hækkaður í tign eða hlaut framgang í starfi eftir að lögreglufulltrúanum var vikið úr deildinni en nokkrir lögreglumenn sem höfðu lýst efasemdum um ásakanirnar eða gagnrýnt framgönguna gegn lögreglufulltrúanum voru reknir af vettvangi fíkniefnarannsókna.
Athugasemdir