Gríðarlegrar óánægju gætir innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna starfshátta Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur lögreglustjóra og Öldu Hrannar Jóhannsdóttur aðallögfræðings embættisins. Á meðal þess sem veldur starfsmönnum embættisins vanlíðan eru umdeildir stjórnunarhættir lögreglustjórans, en í þessu samhengi nefna lögreglumenn bræðisköst, undirróður, niðurlægjandi framkomu og samráðsleysi. „Ég myndi ekki ganga svo langt að kalla það einelti, en þarna er samt ákveðið mynstur sem hlýtur að falla undir eineltistilburði,“ segir einn af heimildarmönnum Stundarinnar en nokkrir starfsmenn hyggjast leita til Vinnueftirlitsins ef ástandið batnar ekki.
Um tuttugu starfsmenn lögreglunnar hafa leitað til Landssambands lögreglumanna auk þess sem sjö starfsmenn, meðal annars stjórnendur, hafa kvartað til innanríkisráðherra og fundað í ráðuneytinu um stöðu mála. Jafnframt hefur landssambandið sent umboðsmanni Alþingis bréf þar sem hann er beðinn um að rannsaka hvort ítrekaðar stöðuveitingar án auglýsinga standist lög og samræmist vönduðum stjórnsýsluháttum.
Innan ákærudeildar lögreglu beinist óánægjan ekki síst að Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, aðallögfræðingi sem var aðstoðarlögreglustjóri um tíma. Því er meðal annars haldið fram að hún skipti sér meira af störfum ákærusviða og einstökum málum en eðlilegt geti talist í ljósi þess að hún fer ekki lengur með eiginlegt ákæruvald samkvæmt sakamálalögum.
Athugasemdir