Hreiðar Eiríksson, lögfræðingur og fyrrverandi starfsmaður Útlendingastofnunar, segir að heildarlöggjöfin um útlendingamál sem Alþingi samþykkti árið 2016 hafi verið „Trójuhestur sem bar í sér „blauta drauma“ þeirra starfsmanna Útlendingastofnunar sem vilja beita afli stjórnvalda af fullum krafti til að „vernda“ Ísland fyrir útlendingum“.
Þetta segir hann í umræðum á Facebook þar sem fjallað er um túlkun útlendingalaga og reglugerðar um útlendinga.
Hreiðar starfaði um árabil sem forstöðumaður á leyfisviði Útlendingastofnunar.
Þegar Stundin hafði samband við Hreiðar sagði hann að þetta væri sín persónulega upplifun eftir að hafa fylgst með lagasetningunni á sínum tíma, lagabreytingunum sem byggðu á vinnu þverpólitískrar nefndar undir formennsku Óttars Proppé, þáverandi þingmanns Bjartrar framtíðar.
„Ég starfaði hjá Útlendingastofnun í tíð gömlu laganna, þekki andann þar á bæ og þau „göt” sem menn dreymdi um að loka. Það var gert með nýju lögunum,“ skrifar hann á Facebook.
Þá bendir hann á að með tilkomu kærunefndar útlendingamála hafi ábyrgðin færst frá ráðherra, með pólitíska ábyrgð, og til andlitslausrar stjórnsýslunefndar. Fyrir vikið sé hið pólitíska aðhald með framkvæmd útlendingalaga erfiðara.
„Kærunefnd útlendingamála var sett upp til að enginn þyrfti að bera pólitíska ábyrgð á harðneskjunni og lagaverkið sett þannig að nefndin gat ekki annað en tekið þátt í henni. Harðneskjan var fest í sessi og enginn þarf að standa pólitískt ábyrgur.“
Undanfarin ár hafa stjórnmálamenn flestra flokka hreykt sér af þverpólitískri sátt sem náðist með samþykkt útlendingalaga árið 2016. „Þessu var laumað til þingmanna í dulbúningi réttarbóta fyrir hælisleitendur, sem í raun voru ekki annað en staðfesting réttinda sem þeir þegar nutu,“ skrifar Hreiðar. „Síðan bætti Sigríður Andersen um betur og setti reglugerðir sem enn juku á möguleika til að beita innflytjendur ofríki. Allt þetta hefur svo Útlendingastofnun notað til að þjarma harkalega að fólki í krafti valds síns.“
Hann bendir á fleiri atriði, t.d. að Útlendingastofnun hafi stuttan opnunartíma og vonlítið sé að ná þar sambandi við nokkurn mann í síma. „Til að bæta gráu ofan á svart eru villandi upplýsingar gefnar á heimasíðu og stofnunin tekur sér 6 mánuði að lágmarki til að afgreiða mál, jafnvel einföld mál eins og skráningu aðstandenda EES ríkisborgara. Þeir þurfa ekki dvalarleyfi heldur hafa þeir dvalarrétt sem er hægt að fullvissa sig um á 1-3 mínútum (n.b. stofnunin auglýsir á ensku útgáfu heimasíðunnar að þetta fólk þurfi að sækja um dvalarleyfi þótt lögin segi að það þurfi aðeins að tilkynna dvöl sína og sækja um kort til staðfestingar á henni).“
Hávær umræða hefur farið fram um útlendingamál undanfarna daga vegna fyrirhugaðrar brottvísunar tveggja afganskra barnafjölskyldna til Grikklands. Fjölmenn mótmæli fóru fram í miðborg Reykjavíkur í gær þar sem krafist var mannúðar í útlendingamálum. Katrín Jakobsdóttir brást við umræðunni í viðtali á RÚV í dag þar sem hún sagði að auknum fjármunum yrði veitt til Útlendingastofnunar svo hægt væri að setja mál barnafólks í forgang.
Athugasemdir