BSRB leggst eindregið gegn hugmyndum Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um að einkavæða Íslandspóst. Þetta kemur fram í tilkynningu frá BSRB og bréfi sem sambandið hefur sent ráðherra. Haft var eftir Bjarna í Fréttablaðinu í morgun að til skoðunar væri að selja rekstur Íslandspósts þegar búið væri að koma lagaumgjörðinni í betra horf.
„Póstþjónusta er samfélagsþjónusta rétt eins og heilbrigðisþjónustan, löggæsla, samgöngur og fleira. Þar þarf fyrst og fremst að horfa til þess að almenningi um allt land sé tryggð góð þjónusta,“ segir Magnús Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BSRB, í bréfi til ráðherra. „Slíkt er ekki hægt nema almannaþjónustan sé í höndum hins opinbera sem skipuleggi, stýri og fjármagni hana með jafnan rétt almennings að leiðarljósi.“
Að mati BSRB hefur vandi Íslandspósts ekki verið eignarhald félagsins heldur skortur á stefnumótun. „Nú þegar endurskipulagning fyrirtækisins er framundan er fráleitt að mati bandalagsins að ætla sér að hefja undirbúning að einkavæðingu Íslandspósts. Einkavæðing póstþjónustu í Evrópu hefur ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt með bættri þjónustu og minni kostnaði. Þvert á móti hefur hún haft í för með sér verri þjónustu, sér í lagi í dreifbýli, hækkandi gjaldskrár og slæm áhrif á vinnuskilyrði og réttindi starfsfólks. Í öðrum heimshlutum hefur verið snúið af braut einkavæðingar, til dæmis í Argentínu þar sem reynslan af einkavæðingu póstþjónustunnar var hörmuleg.“
Athugasemdir