Tæplega 70 prósent Íslendinga hafa miklar áhyggjur af hlýnun jarðar. Aðeins 11 prósent segjast hafa litlar áhyggjur, samkvæmt nýrri könnun MMR.
Í niðurstöðunum kemur fram að 35 prósent aðspurðra segjast hafa mjög miklar áhyggjur af hlýnun jarðar, en 33 prósent sögðu áhyggjur sínar frekar miklar. Konur hafa meiri áhyggjur af hlýnun en karlar. 76 prósent kvenna hafa miklar áhyggjur, samanborið við 60 prósent karla.
Yngstu og elstu aldurshóparnir hafa mestar áhyggjur af vandanum. 77 prósent aðspurðra á aldrinum 18 til 29 ára hafa miklar áhyggjur og 70 prósent þeirra sem eru 68 ára og eldri. Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru líklegri til að hafa mjög miklar áhyggjur af hlýnun jarðar. 40 prósent þeirra hafa mjög miklar áhyggjur, miðað við 26 prósent íbúa á landsbyggðinni.
Stuðningsfólk Samfylkingarinnar hefur mestar áhyggjur af hlýnun jarðar, en á eftir fylgir stuðningsfólk Vinstri grænna. Af stuðningsfólki Miðflokksins kveðst 39 prósent hafa miklar áhyggjur, en 36 prósent litlar áhyggjur.
Könnunin var framkvæmd 23. til 29. maí og voru svarendur 932 talsins.
Athugasemdir