Við getum haldið áfram eins og ekkert sé. Látið sem það komi okkur ekki við. Lifað okkar hversdagslífi án þess að velta því mikið fyrir okkur. Gleymt okkur í sumrinu, grillað og ferðast um landið með rjóða vanga í sólarblíðu, gripið börnin þegar þau ætla að vaða í lækinn en kennt þeim að hoppa í pollum, gera símaat og pota í rassinn á gömlum körlum með górillugrímur á höfðinu. Talað um hvað við verðum þreytt á fréttum af ótíðindum og afhjúpunum, afskrifað það sem neikvæðni og núning. Tuðað aðeins yfir því að hér breytist hvort eð er aldrei neitt, í uppgjöf vegna þess að við trúum því ekki lengur að við getum haft áhrif og höfum kannski aldrei trúað því að hér geti eitthvað breyst bara vegna þess að við krefjumst þess. Við getum því valið að láta sem ekkert sé, látið sem það snerti okkur ekki, hafi ekki áhrif á líf okkar og samfélag, en við vitum samt að það er blekking.
Réttast að hengja þá
Það tók íslensk stjórnvöld ekki langan tíma að veita erlendum aðilum heimild til að yfirheyra margdæmdan barnaníðing til þess að saksækja mann fyrir að birta upplýsingar sem sýndu fram á morð og mannréttindabrot bandarískra yfirvalda.
Þá skipti engu máli að það gæti sett íslenska blaðamenn í hættu gagnvart bandarískum yfirvöldum sem gera sífellt meira til að þrengja að blaðamönnum, „óvinum fólksins“, eins og forseti landsins hefur ítrekað úrskurðað þá sem flytja fólki fréttir af honum og hans fólki, með þeim afleiðingum að hótanir, svívirðingar og árásir eru nú hluti af daglegu starsfumhverfi blaðamana. Bandarískir blaðamenn hafa aldrei áður sætt jafn mörgum líflátshótunum eða þurft jafn oft að kaupa sér vernd. Í fyrra gekk maður sem hafði ítrekað tjáð hatur sitt á fjölmiðli inn á skrifstofur miðilsins og skaut fimm til bana. Annar var handtekinn eftir að hafa hótað blaðamönnum dauða vegna umfjöllunar um Trump. Fleiri hafa greint frá slíkum hótunum.
„Réttast væri að hengja þessa auðvirðilegu rógbera í hæsta gálga fyrir hádegi á morgun.“
„Réttast væri að hengja þessa auðvirðilegu rógbera í hæsta gálga fyrir hádegi á morgun.“ Með þesssum orðum deildi flokksbundinn íslenskur framhaldsskólakennari frétt þess efnis að blaðamenn Stundarinnar fyndu fyrir stuðningi almennings eftir að sýslumaður mætti fyrirvaralaust inn á ritstjórnarskrifstofurnar með fulltrúa fallins banka, sem krafðist lögbanns á fréttaflutnings um viðskipti forsætisráðherra, að fréttir yrðu fjarlægðar af vef fjölmiðilsins og gögn afhent.
Íslensku tjáningarfrelsisverðlaunin
Þá skipti ekki heldur neinu að Alþingi hefði samþykkt fyrir tæpum tíu árum síðan að Ísland yrði griðastaður fyrir upplýsingafrelsi, þar sem tryggja ætti vernd heimildarmanna og uppljóstrara. Í þingsályktunartillögu þess efnis var meðal annars lagt til að kannaðir yrðu möguleikar þess efnis að koma á fót fyrstu alþjóðaverðlaununum sem kennd yrðu við Ísland, Íslensku tjáningarfrelsisverðlaununum.
Andrúmsloft óttans
Það skipti ekki heldur máli að bandarísk yfirvöld hafa tekið upp hanskann fyrir sádi-arabíska krónprinsinn sem flest bendir til að hafi fyrirskipað morðið á blaðamanninum Jamal Khagshoggi í Tyrklandi. Enda ríkir ekki meiri skilningur á mikilvægi aðhalds blaðamennsku gegn valdinu en svo að ritstjóri fornfrægasta blaðs Íslands – og fyrrverandi forsætisráðherra – hæddist að umfjöllunum um morðið á blaðamanninum og taldi ljóst að hann hefði bara verið myrtur af stjórnmálalegum ástæðum, ekki vegna blaðamennsku.
Á árinu hafa 19 blaðamenn víðs vegar um heiminn verið myrtir við störf sín eða vegna starfa sinna. Í fyrra fór tala látinna upp í 94. Aðrir hafa sætt hótunum, líkamsmeiðingum og árásum. Sumir hafa þurft að flýja land, enn aðrir hafa horfið. Ráðist er inn á ritstjórnarskrifstofur og öllum aðferðum beitt til þess að þagga niður í fjölmiðlum. Í skýrslu um fjölmiðlafrelsi er talað um andrúmsloft óttans.
Samflokksmaður ritstjórans og íslenska dómsmálaráðherrans sem opnaði landið fyrir dómsmálaráðuneyti Trumps, til að nýta margdæmdan mann gegn þeim sem afhjúpaði brot stjórnvalda, taldi ljóst fyrir nokkru að íslenskir fjölmiðlar væru jú í ruslflokki. Annar talaði um fjölmiðil sem „endaþarm íslenskrar blaðamennsku“ af því að honum mislíkaði skoðanapistill sem birtist þar. Svívirðingarnar sem dundu á pistlahöfundi voru vægast sagt ógeðfelldar. Formaður flokksins sat athugasemdalaust undir aðdróttunum um nafngreinda blaðamenn, þar sem þeir voru meðal annars uppnefndir götustrákar og böðlar í sjónvarpsviðtali. Sjálfur hefur hann ítrekað orðið uppvís að því að leyna upplýsingum, veita villandi og misvísandi upplýsingar, gera lítið úr og grafa undan íslenskum fjölmiðlum.
Leynd yfir nauðgurum
Það er kaldhæðnislegt að íslensk stjórnvöld hjálpuðu þeim bandarísku að beita níföldum barnaníðingi gegn afhjúpandi blaðamennsku. Síðasta ríkisstjórn féll vegna þess að dómsmálaráðherra reyndi að leyna því að faðir forsætisráðherra hefði veitt dæmdum barnaníðingi meðmæli fyrir uppreist æru, og braut með því upplýsingalög, þrátt fyrir ákall þolenda eftir skýringum og jafnvel þótt blaðamaður stæði í anddyri ráðuneytis og biði þar eftir svörum. Fyrir nokkrum mánuðum reyndi sami dómsmálaráðherra síðan að koma í veg fyrir að fólk gæti frétt hverjir hefðu verið dæmdir fyrir nauðganir. Nú liggur fyrir frumvarp á Alþingi sem mun skerða frelsi fjölmiðla til þess að flytja fréttir úr dómsal.
Fréttafólk kallað á teppið
Við getum látið sem það skipti ekki máli að Ísland hafi hrapað niður lista yfir þær þjóðir þar sem fjölmiðlar búa við mesta frelsið. Fyrir áratug var fjölmiðlafrelsi einna mest á Íslandi í heiminum en nú erum við komin niður í 14. sætið, með langminnsta fjölmiðlafrelsi Norðurlandanna. Ástæðan er rakin til versnandi samskipta stjórnmála við fjölmiðla.
Fyrrverandi forsætisráðherra stundaði það að kalla útvarpsstjóra, ritstjóra og fréttafólk á teppið og hefur allt frá því að hann skrifaði fyrsta pistilinn eftir að hann tók við völdum haldið á lofti hinum ýmsu samsæriskenningum um fjölmiðla, nú síðast að fjölmiðlar hafi komið fyrir hlerunarbúnaði þegar hann var staðinn að því að státa af spillingu, kvenfyrirlitningu og fordómum. Í kosningabaráttunni notaði hann það sem áróðursbragð að hóta þremur fjölmiðlum málsóknum, þeim sem höfðu afhjúpað aflandseignir hans.
Áður krafðist aðstoðarmaður ráðherra fangelsisdóms yfir blaðamönnum vegna mistaka sem þeir leiðréttu samstundis og báðust opinberlega afsökunar á. Í rúmt ár höfðu þessir sömu blaðamenn leitað svara við því hver lak viðkvæmum trúnaðarupplýsingum um einstaklinga úr ráðuneytinu í pólitískum tilgangi. Ráðuneytið brást við með því að loka á frekari svör við fyrirspurnum þeirra.
Brotið á frelsi blaðamanna
Aftur og aftur hafa íslensk stjórnvöld verið fundin sek um að brjóta á tjáningarfrelsi blaðamanna. Ólögmætu lögbanni á umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra sem lagt var á í aðdraganda alþingiskosninga var ekki aflétt fyrr en eftir 522 daga þöggun, þar sem fjölmiðlafólk var ranglega dregið í gegnum réttarkerfið með tilheyrandi kostnaði fyrir fjölmiðlana og samfélagið. Jafnvel þótt málið hafi unnist fyrir dómstólum þá er aldrei hægt að líta á það sem sigur, þegar vegið var að rétti almennings til upplýsinga og frjálsum kosningum. Skaðinn var skeður.
Dómstólar sem þöggunartæki
Við getum látið sem ekkert sé þegar fjölmiðlar eru teknir yfir af óþekktum aðilum og enginn veit hver fjármagnar þá í raun eða hvaða hagsmunir liggja þar að baki. Yppt öxlum yfir því að auðmenn dæla peningum í fjölmiðla sem reknir eru með umtalsverðu tapi ár eftir ár, því það þjónar hagsmunum þeirra að halda ákveðnum áherslum að almenningi.
Við getum þagað þegar oddviti í borgarstjórn á hlut í fjölmiðli, sem birti reglulega fréttir af framboði hans til borgarstjóra, og var fjármagnaður með kúluláni frá stærsta útgerðarfyrirtæki landsins.
„Nú er verið að beina spjótunum að uppljóstrurum. Blaðamenn verða næstir.“
Eða litið undan yfir því að það sé svo auðvelt að draga blaðamenn fyrir dóm að auðmenn hafa komist upp á lag með að nota dómstóla sem stjórntæki til að þagga niður í og refsa blaðamönnum, hafa jafnvel bankað upp á heima hjá þeim á aðfangadag með stefnu. Af því að jafnvel þótt þeir vinni málin þá reynir á flest eðlilegt fólk að fara fyrir dómstóla og þurfa að svara þar fyrir störf sín. Hér var meira að segja gengið svo langt að blaðamanni var stefnt fyrir hatursáróður vegna fréttaflutnings af viðskiptafléttu áhrifamikilla auðmanna í íslensku samfélagi.
Jafnvel pistlahöfundar eru eltir uppi og dregnir fyrir dóm.
Bannað að tala um fréttir
Samhliða vaxandi árásum gegn fjölmiðlum hafa menn sem kærðir eru fyrir kynferðisbrot stundað í auknum mæli að kæra þolendur fyrir falskar ásakanir og stefna þeim fyrir meiðyrði sem tjá sig um ásakanirnar á hendur þeim.
Nú er líka bannað að ræða fréttir. Fyrr í vikunni voru tvær konur dæmdar til þess að greiða mönnum miskabætur vegna þess að þær tjáðu sig um fréttir af nauðgunarmáli með þeim skýringum að það þótti vega að æru þessara manna sem voru kærðir fyrir nauðgun. Ummæli þeirra byggðu annars vegar á fréttaflutningi og hins vegar á vonbrigðum með kerfi sem hefur ítrekað brugðist þolendum, og í einhverjum tilfellum sögð með fyrirvara. Merkilegt hvað æra manna er mikils metin, miðað við hvað það hefur reynst erfitt að kæra hótanir og áreitni, hvað konur mæta miklum vanmætti kerfisins gagnvart heimilisofbeldi og hvað það gengur erfiðlega að ná fram sakfellingum í nauðgunarmálum.
Nýtir þjóðfélagsþegnar
Dómarinn sem dæmdi í málum kvennanna hafði áður tjáð sig um uppreist æru barnaníðings: „Þegar öllu er á botninn hvolft, þá snýst þetta um það hvers konar samfélagi við viljum búa í. Viljum við geta veitt fólki nýtt tækifæri og fyrirgefið eða viljum við halda áfram að brennimerkja fólk og knýja það til þess að vera um aldur og ævi utangarðs, viljum við standa í vegi fyrir því að fólk sem hefur bætt ráð sitt geti orðið nýtir samfélagsþegnar?“ Alveg eins og tölvuhakkarinn sem braut gegn níu drengjum virðist nýtast bandarískum stjórnvöldum í sakamálarannsókn gegn þeim sem afhjúpuðu árásir þeirra á óbreytta borgara.
Blaðamenn verða næstir
Í dag stendur íslenskur blaðamaður frammi fyrir því að nánasti samstarfsmaður hans á yfir höfði sér allt að 175 ára fangelsi verði hann framseldur til Bandaríkjanna. Ákæran á hendur honum byggir meðal annars á njósnalöggjöf frá árinu 1917. Í tíu ár hafa þeir verið til rannsóknar, íslenski blaðamaðurinn á allt eins von á því að ákæra verði einnig gefin út á hendur honum, enda hluti af þessari rannsókn. Tölvupóstar hans hafa meðal annars verið afhentir FBI. „Við sögðum alltaf á þessum tíma: Nú er verið að beina spjótunum að uppljóstrurum. Blaðamenn verða næstir. Menn bara hlógu að þessu, þetta væri einhver vænisýki,“ segir hann í viðtali við Stundina. Nú er komið að þeim.
Áður en hann hóf störf hjá Wikileaks var hann að vinna við fréttaskýringaþátt hér á Íslandi. Þátturinn var skyndilega lagður af þegar til stóð að fjalla um mál sem varðaði eiganda miðilsins, ritstjórninni gert að hætta strax og fréttin fór aldrei í loftið.
Fleiri fjölmiðlar hafa verið drepnir. Umfjallanir hafa verið drepnar. Blaðamenn hafa verið hraknir úr starfi. Tímarit var tekið úr verslunum eftir rannsóknargrein sem snerti vin eiganda verslunarkeðjunnar illa, með þeim afleiðingum að tímaritið missti rekstrargrundvöll sinn og var lagt af. Dagblað var yfirtekið af óþekktum hagsmunaaðilum sem réðu ritstjóra sem lét ritstjórnina vita að þaðan í frá yrði ekki liðin rannsóknarblaðamennska eins og sú sem afhjúpaði lekamálið. Sérstakur viðskiptaritstjóri var settur yfir eina viðskiptablaðamanninn, sem hafði verið leiðandi í uppgjöri við hrunið. Áður hafði auðmaður reynt í tvígang að kaupa miðilinn til þess að leggja hann niður, því honum mislíkaði umfjöllun um sjálfan sig.
Upplýsingar sem uppspretta valds
Jú, við getum auðvitað haldið áfram og látið sem ekkert sé, en við eigum betra skilið. Við eigum skilið að fá upplýsingar sem eru ómengaðar af hagsmunum og pólitík. Af því að upplýsingar eru uppspretta valds og lýðræðis, gjöfuls lífs og samfélags. Þannig sýnir ný bandarísk rannsókn fram á fylgni milli hækkunar vaxtakostnaðar sveitarfélaga og að síðasta héraðsdagblaðið leggi upp laupana. Fleiri rannsóknir hafa leitt í ljós samfélagslegt gildi sterkrar blaðamennsku, bæði efnahagslegt og lýðræðislegt, sem nú á undir högg að sækja.
Athugasemdir