Sumarnóttin er björt, hlý og þögul. Hátt grasið svignar undan fótum þeirra tveggja og einhvers staðar, aðeins ofar í hlíðinni, heyrist í lækjarsprænu. Borgin liggur í firðinum fyrir aftan þau en á þessum fallegu dögum virðist hún ekki sofna, yfir henni liggur þessi yndislega ró. Eins og hún sé á pásu. Við botninn á firðinum lá hafið, grátt, súrt og líflaust. Gunnhildur lítur af borginni á Jón Gabríel sem er að laga festingu á stórum bakpoka sem hann ber, eins og hann sitji ekki vel á bakinu.
„Þau segja að við séum heppin.“
„Heppin? Hvernig þá?“ spyr Gunnhildur.
Þau höfðu bæði ætlað að klæða sig í svart til að felast en það er reyndar til lítils að ætla að sveipa sig nóttinni þegar bjart er allan sólarhringinn. En í staðinn er Gunnhildur bara í gallabuxum og gönguskóm. Klædd fyrir stefnumót sem felur í sér fjallgöngu og eitthvað aðeins dularfullt og mögulega hættulegt. Jón Gabríel sagði henni engin smáatriði. Gunnhildur var auk þess ekki viss hvað henni fannst um hann eða hvort þetta væri ekki eitthvað allt annað en stefnumót í hans augum. Það heillaði hana hvað hann var alltaf alvörugefinn og öðruvísi en það gerði það líka að verkum að hún vissi ekki alveg hvers eðlis þessi för þeirra var. Auk þess laðast hún ekki að honum, þannig.
„Við erum svo fá og kvótinn tók svo lítið mið af íbúafjölda landanna. Við vorum langt undir öllum viðmiðum og þurftum ekki að breyta neinu. Lífið hélt bara áfram eins og ekkert hefði í skorist. Eða, þú veist …“ Kvóti. Orð sem eitt sinn snérist um fisk en snérist nú um útblástur. Hann horfir út á kyrrlátt hafið. „Þannig.“
„Hefurðu farið hérna yfir áður?“ spurði Gunnhildur.
Gönguskórnir pössuðu henni vel en gallabuxurnar voru aðeins of þröngar og jakkinn var aðeins of stór. Eitthvað af pabba hennar sem hann notaði ekki.
„Já. Þetta er frábær gönguleið, synd að hún sé ekki meira notuð. En það kemur sér reyndar vel fyrir okkur að hún sé ekki vinsæl, það tekur því ekki að vera með öryggisráðstafanir fyrir einhverju sem gerist kannski einu sinni á tveggja ára fresti og það þá óvart.“
„Nei, ég meina, ratarðu alveg?“
Jón Gabríel stoppaði og leit til baka á Gunnhildi. „Rata ég? Það er ekkert að rata.“
Hann leit upp hlíðina og benti. „Upp, beint yfir heiðina, niður.“
„Nei, já. Ég veit það. Ég meina, veistu hvar þetta er? Þetta er ekki í Maps er það nokkuð?“
„Nei. Fáránlegt. Fyrsta og eina skiptið sem ríkisstjórnin notaði vald sitt til að afmá eitthvað úr Maps. Hvað, eins og við séum Kína?“
Hún laðaðist að þessu í fari hans. Aðeins þessu, annars væru þau mögulega eitthvað annað en bara vinir. En þessi hárbeitta vitneskja hans var ekki bara eitthvað sem var hægt að lesa á netinu og muna, hann tengdi hlutina saman og sá eitthvað meira úr þeim. Í partýi fannst honum allir vera óáhugaverðir og sagði síðan eitthvað um hvað Japanir væru að kaupa mikið af gullbirgðum, hvort við hefðum í alvöru engar áhyggjur af því. Sem enginn gerði, auðvitað. Hvað var unglingum í partýi á Akureyri ekki sama um gullbirgðir Japana? Hann var klár. Beittur hnífur í leit að einhverju til að stinga.
„Hvað gerum við ef við, þú veist, stígum í gjótu og
ökklabrotnum?“ spurði hún.
Jón Gabríel svaraði henni ekki.
„Og af hverju mátti ég ekki taka símann minn með?“
Henni leið eins og fávita um leið og hún spurði. Auðvitað var Google að fylgjast með ferðum allra sem eiga síma. Ríkisstjórnin fengi aðvörun ef hreyfingar þegna stingju skyndilega í stúf eða eitthvað. Hún mundi ekki alveg hvað það var sem Jón Gabríel hafði sagt í partýinu síðustu helgi.
Þau höfðu talað aðeins um Norður Kóreu og um allt flóttafólkið í Norður Afríku. Þetta hafði verið furðulegt kvöld; hann var eins og drukknandi maður og þessi litla athygli hennar eins og súrefni. Loksins einhver sem heyrði það sem hann var að segja.
„Minn er nú reyndar í bílnum hans Gústa.“
„Ha?“ Gunnhildur hafði verið að rifja kvöldið upp.
Kvöldið þar sem hann stakk upp á að þau færu saman í göngu og hún heyrði ekki alveg hvað hann hafði sagt.
„Síminn minn, í bílnum hans Gústa. Ef einhver fer að skoða eitthvað er eins og ég hafi verið með honum á rúntinum.“
Þau gengu áfram í þögn í svolitla stund. Aðeins ofar stóð kind með tvö lömb og horfði á þau. Steinhissa, eins og í hvert skipti öll þessi hundrað ár sem kind sá fólk. Alltaf var mannfólkið eitthvað að þvælast. Gunnhildur hugsaði að kannski væru þau síðasta frjálsa fólkið í heimi. Í flestum stórborgum sveif net dróna yfir hausamótunum á öllum og skannaði og skannaði, í leit að glæpamönnum, skuldurum, flóttamönnum og öðru „óæskilegu fólki“. Stundum var eins og Ísland væri hallærislega lítið; það tók því aldrei að setja upp neitt af þeirri stærðargráðu og gert var erlendis.
„Vann pabbi þinn ekki á togara?“ spurði Gunnhildur. Þau voru nú komin vel upp hlíðina og borgin lá og svaf hinum megin í firðinum. Hún sá eftir að hafa ekki farið í almennilegar buxur en það var lítið við því að gera núna. Snjólaus fjöllin stóðu vörð fyrir aftan þau, virtust halda hinum raunverulega heimi frá. Henni fannst hún vera í leikriti.
„Jú. Hann var vélstjóri.“
„Okei. Hvað er hann þá að gera núna? Eftir, þú veist.“
„Hann er heima soldið mikið bara. Fer stundum með túristabátunum, ef vélarnar í þeim eru eitthvað lélegar. Eða í eldri bátum sem eru ekki rafdrifnir.“
„Voruð þið þá oft með fisk í matinn?“ spurði hún og fannst spurningin strax heimskuleg. Vissi ekki alveg hvernig hún átti að tala við hann.
„Já. Kannski tvisvar, þrisvar í viku. Þegar pabbi nennti að elda.“
„Ég hugsa stundum að maður hefði kannski átt að borða oftar fisk. Áður en, þú veist.“ Hún leit í átt að hafinu. Fannst eins og hún ætti að skammast sín fyrir hönd mannkyns en fannst um leið eins og þetta væri ekki henni að kenna. Þau bjuggu nú í heimi sem var eins og eftirköst bílslyss. En þeirra kynslóð hafði aldrei fengið að keyra og nú var bíllinn ónýtur. „En ...“ hélt hún áfram, „hefði ég ekki bara flýtt vandamálinu með því að borða meiri fisk?“
„Nei,“ svaraði Jón Gabríel án þess að snúa sér að henni. „Ofveiðar voru ekkert vandamál. Sjórinn er bara orðinn alltof hlýr og súr. Fiskurinn er bara … farinn.“
Gunnhildur horfði til baka, niður í átt að Akureyri. Í smástund fannst henni eins og hún væri að sjá borgina í fyrsta skipti. Henni fannst þetta ekki heimili sitt, ekki staðurinn þar sem hún hafði fæðst og alist upp. Hún velti því fyrir sér hver andstæðan við heimþrá væri en skyndilega var hún haldin þrá, ekki bara til að vera annars staðar heldur til að vera alls staðar annars staðar. Að búa samstundis í New York, Shanghai, Melbourne og Delhi. Að vera ekki ein manneskja heldur allar hinar, að endurtaka síðustu átján ár í líkama allra hinna sem fæddust 2034, sjá allt sem þau sáu og upplifa allt sem þau upplifðu.
Henni fannst hún svo lítil og ómerkileg að hún varð að líta undan, leit upp hlíðina á bakið á Jóni Gabríel, á kindurnar og kvöldbirtuna og hún klökknaði. Skyndilega heltekin af þeirri hugmynd eða þeirri vitneskju að heimurinn væri í alvöru að farast eins og svo margir töluðu um.
„Jón ...“ byrjaði hún en hljóðið festist í hálsinum. Hún ræskti sig. „Jón Gabríel?“
„Já?“
„Hvering heldur þú að heimurinn verði eftir fimmtíu ár?“
„Fimmtíu ár?“
„Já.“
Það kom eitthvað fát á hann. Eins og hann vissi eitthvað sem hún ekki vissi. Eins og hann þekkti framtíðina og skammaðist sín fyrir hana. Hann hélt áfram göngunni upp hlíðina. „Það veit ég ekki,“ svaraði hann. Henni fannst eins og hann segði síðan „Skiptir ekki máli,“ en hún var ekki viss.
Undir fótum þeirra var gömul og yfirvaxin slóð sem þau fylgdu. Hún hlykkjaðist upp fjallið eins og risasnákur úr möl hefði haft hamskipti þarna í hlíðinni og grasið væri nú að reyna að ná til sín. Eina hljóðið var í mölinni undir gönguskónum og andardrætti þeirra sem nú var farinn að þyngjast aðeins.
„Við erum að verða komin upp,“ sagði Jón Gabríel síðan. Hann stoppaði og leysti af sér bakpokann og lagði niður. Hann losaði festar og leysti bönd sem lokuðu honum. Úr bakpokanum dró hann síðan tvær grímur. Þær voru úr plasti sem var á litinn eins og vatn í glasi sem áður hafði verið drukkin mjólk úr. Svört efnisþynna var yfir augunum. „Hérna,“ sagði hann og rétti Gunnhildi aðra.
„Til … til hvers er þetta?“
„Það kemur að því að drónar fljúgi yfir. Það er örugglega langt í það sko, en ég vil ekki að þú þekkist. Að við þekkjumst.“
„Hvaða lykt er þetta?“ spurði Gunnhildur. Gríman olli henni minna hugarangri en lyktin sem slapp úr bakpokanum.
„Lykt?“
„Já.“
Lyktin var kunnuleg. Einhver iðnaðarlykt sem hún kom ekki fyrir sig.
„Það veit ég ekki,“ sagði hann, frekar flóttalegur. „Alla vega.“
Henni fannst að hún ætti að snúa við. Hún hristi af sér hroll og setti á sig grímuna. Ef þetta var stefnumót væri það strax það furðulegsta sem hún hefði farið á.
„Það er ansi flott steinbrú hérna uppi á heiðinni. Reist fyrir tvö hundruð árum eða eitthvað. Alveg ótrúlegt í rauninni.“
„Brú?“ spurði Gunnhildur. „Uppi á fjalli?“
„Heiði,“ leiðrétti Jón Gabríel.
„Já, heiði. En brú? Alvöru brú? Af hverju er brú hérna?“
Jón Gabríel leit á hana. Hann var búinn að setja upp grímuna og hún sá ekki svipbrigði. Nú var eins og hann væri úr gleri, hálfgagnsæ, sviplaus postulínsbrúða.
„Þetta var einu sinni besta leiðin til að koma vörum á milli staða. Upp þessa leið, yfir heiðina, yfir brúna og niður hinum megin.“
„Áður en göngin komu, meinarðu?“ spurði Gunnhildur.
„Nei, göngin eru bara þrjátíu ára, ég er að meina fyrir tvö hundruð árum.“
Þetta furðulega lag hans á að láta hana virka svo vitlausa. Pirrandi og heillandi bæði í senn.
Eftir um klukkutíma göngu í viðbót komu þau að steinbrúnni. Hún var í rauninni meira eins og lágreistur steinveggur eða stífla. Öðru megin hafði safnast saman vatn úr læknum og myndaði lítið stöðuvatn, hinum megin rann lækurinn áfram niður hlíðina. Brúin sjálf var frekar breið, þau gátu auðveldlega gengið yfir hana hlið við hlið. Gunnhildur mundi ekki eftir að hafa séð annað eins. Hún var bara búin til úr hlöðnum steinum. Eina hljóðið sem heyrðist var lágt gutlið í læknum.
„Jón Gabríel,“ sagði hún en vissi ekki hvað hún gæti sagt meira. Þetta var ótrúlegur staður. Ósjálfrátt leitaði höndin að símanum til að taka mynd, í raun einu viðbrögðin sem hún þekkti við einhverju af þessu tagi en nú var það ekki í boði. Hún gat ekki tekið mynd og deilt í von um að aðrir segðu henni hvernig hún ætti að upplifa þessa stund.
„Þessi brú ...“ og eitthvað innra með henni breyttist. Tilfinningar að finna sér nýjan farveg. Fréttamyndir af veggjum sem risu um heim allan; fólk að svelta og drepast úr hita á stöðum sem hún myndi aldrei heimsækja; sjórinn sem eitt sinn var uppspretta lífs en lá nú ógnandi grár og líflaus um allan heim; uppþotin í Kaíró, hungrið og stríðin í Suður-Ameríku og þessi gleymda steinbrú á Íslandi. Henni fannst hún vera að skilja eitthvað en var ekki viss hvað.
„… af hverju vissi ég ekki að þessi brú væri hérna?“
„Það veit það enginn,“ sagði Jón Gabríel. „Það veit enginn neitt lengur. Og það þýðir ekkert að segja fólki neitt heldur, það heyrir enginn neitt. Öllum finnst þeir hafa nóg bara að hugsa um sig og sína en skeyta ekki um aðra.“
Það var einhver skerpa í því hvernig hann talaði. Eins og hann væri búinn að brýna raddböndin og ætlaði að segja eitthvað beitt. Eins og það væri hættulegt að hlusta á hann.
„Veistu hvað er mikill matur í geymslu í Bandaríkjunum? Veistu hvað er mikill matur í geymslu hér? Við gætum gefið tveimur milljónum að borða, auðveldlega. En við erum ekkert betri en hinir. Verri ef eitthvað er. Ofdekraða yngsta systkinið.“
Gunnhildur vissi að þetta tengdist brúnni ekkert, það var eins og þetta væri æft hjá Jóni Gabríel. Eins og hann væri að segja eitthvað sem hann hafði sagt oft áður.
Gunnhildur var um borð í lest sem hún gat ekki stoppað.
Hún leit á Jón Gabríel. Hann stóð með hendur beinar niður og kreppti hnefana og opnaði, kreppti og opnaði. Afmyndaður af grímunni, klæddur í fölbrúnan jakka, svartar buxur og svarta klossa. Böndin á bakpokanum aflöguðu jakkann þar sem hann hékk á bakinu.
„Komdu, flýtum okkur,“ sagði Jón Gabríel.
Gunnhildi langaði til að staldra við. Jón Gabríel, jafnvel þó hann stæði kyrr, var einhvern veginn hættulega rólegur. Eins og handsprengja.
Hún vissi alveg hvað var hinum megin við heiðina eða hafði heyrt nógu mikið til að geta gert sér hugmynd um það hvert þau voru að fara. Jón Gabríel ætlaði eflaust að gefa þeim mat og láta handtaka sig eða eitthvað. Svona táknræn handtaka til þess eins og koma skilaboðum á framfæri.
Þau gengu af stað. Gunnhildi fannst hún vera að skilja eitthvað meira eftir þarna en bara steinbrúna en hún myndi átta sig betur á því, seinna. Gamla líf hennar lá nú þarna og gutlaði með læknum. Hún hefði getað snúið við. En hún hélt áfram. Hennar ákvörðun.
„Þeir vissu þetta fyrir hundrað árum,“ sagði Jón Gabríel. Þau gengu nú niður í móti. Það tók svolítið á lærin, Gunnhildur var ekki vön að ganga svona, það var ekki þægilegt að anda með grímuna og henni leið orðið eins og asna í þessum gallabuxum.
„Vissu hvað?“ spurði hún. Henni fannst orðin hljóma furðulega. Kramin undan grímunni.
„Loftslagsbreytingarnar. Exxon og einhver olíufyrirtæki vissu þetta fyrir hundrað árum. Hundrað fokking árum, og enginn gerði neitt.“
„Hundrað árum?“
„Já, eða þú veist. Nógu nálægt hundrað árum til að skipta ekki alveg. Vissu þetta og héldu leyndu. Drápu plánetuna. Til að geta haldið áfram að selja bensín á bíla.“
„En,“ spurði hún þá, „vissi fólk þetta þá ekki líka?“
„Við erum öll svo fokking vitlaust. Það vissu allir hvernig var í Norður Kóreu. Öll heimsbyggðin horfði á Ísrael eyða Palestínu í slow-motion og enginn gerði rassgat. Það gerir aldrei neinn neitt.“
Núna fyrst rann eitthvað upp fyrir Gunnhildi. Henni fannst hún vera að falla, missa fótanna. Eins og hugmyndin hefði fallið af himnum ofan á ógnarhraða og skollið á henni. Hana svimaði og hjartað hamaðist.
„Jón Gabríel?“
„Já?“
„Hvað ertu að fara að gera?“
Hann stoppaði og snéri sér að henni. Súrrealísk sýn. Jón Gabríel, klæddur eins og túristi, hálfnaður niður fjall með risastóran bakpoka og hálfgegnsæja grímu fyrir vitunum. Fyrir aftan hann lýsti sumarsólin upp fagurgrænar hlíðar. Kyrrðin var algjör. Síðan heyrði hún í drónunum.
„Ég á vin á næsta bæ,“ sagði Jón Gabríel. „Hann er tilbúinn að senda út. Hérna.“ Hann kastaði til hennar síma. „Þú þarft bara að taka upp. Yfirlýsingin ætti að vera farin út núna og þar kemur fram að þú vissir ekkert hvað ég var að fara að gera.“
„Hvað ertu að fara að gera?“
Jón Gabríel leit upp á drónana tvo sem svifu nú aðeins nokkrum metrum fyrir ofan þau. „Komdu. Flýtum okkur.“
Hann tók á rás niður hlíðina. Gunnhildur leit upp á drónana. Annar fylgdi Jóni Gabríel eftir, hinn hékk í loftinu fyrir ofan hana. Ef ekki væri fyrir hina algjöru þögn sem ríkir í íslenskri náttúru á sumrin, þessari tæru og ljúfu þögn, myndi hún eflaust ekkert heyra í honum. En þarna sveif hann á meðan litlir þyrluspaðarnir tættu í sig loftið. Hún hljóp af stað niður hlíðina.
Adrenalínið þaut um æðarnar eins og fljót að vori, blóðið var ískalt jökulhlaup úr hjartanu.
Hún hljóp. Gunnhildur óttaðist að hrasa og rúlla niður hlíðina en hún náði að halda fótunum sem hún fann þó ekki fyrir lengur. Hún gæti allt eins hangið í bandi úr drónanum sem fylgdi henni eftir, það var engu líkara en hún svifi niður.
„Jón Gabríel, hvað er þarna?“ kallaði hún til hans. Hún vissi það samt alveg.
„Byrjaðu að taka upp,“ kallaði hann til baka. „Kóðinn er einn …“ en hún heyrði ekki restina. Orðin voru óskýr og hjartað hamaðist í eyrunum.
„Segðu þetta aftur,“ kallaði hún. Gunnhildur stoppaði og skoðaði símann sem hann hafði látið hana fá. Þetta var eins og hver annar sími, kannski aðeins þyngri. Hún sló létt á skjáinn með fingri og hann hrökk við í höndunum á henni. Á skjánum birtist talnaborð.
„Nítján-átta-fjórir!“ kallaði Jón Gabríel sem var nú kominn að girðingu. Hinum megin var stórt hús, sveitabær en við bæinn voru óvenju margar hlöður. Drapplitaðar hlöður, reyndar ansi stórar. Margar í röð. En í þeim voru ekki dýr, bara fólk sem komið var fram við eins og dýr. Hátt grindverkið var tvöfalt, með gaddavír á milli.
Hún sló kóðann inn og hljóp að Jóni Gabríel.
„Hvað er að gerast Jón? Hvaða bær er þetta og af hverju er gaddavírsgirðing hérna?“ Hún spurði spurningar sem hún vissi alveg svarið við, bara til að segja eitthvað. Gunnhildi fannst eins og hún væri komin út í á, dregin áfram niður með straumnum í átt að einhverju sem hún vissi að myndi breyta lífi hennar. Samt ekki viss um að hún vildi komast upp á bakkann.
„Taktu bara upp!“ svaraði Jón Gabríel.
Gunnhildur sá næstu mínútu í gegnum skjáinn á símanum. Stundum hélt hún að þetta hafi verið eitthvað plat, að hún hafi verið að horfa á upptöku en ekki að taka upp sjálf. Jón Gabríel með girðinguna og bæinn fyrir aftan sig, hendur á böndum bakpokans, fæturnir glenntir sundur. Pétur Pan með plastgrímu, reiður út í fullorðna fólkið sem dó og skildi næstu kynslóð eftir í skítnum.
„My name is Jón Gabríel Smith. Today is the eleventh of June 2052. I stand in front of a secret Icelandic camp for climate change refugees. The Icelandic Government hides these people in contradiction to international law and then sends them back to their deaths. The people of Iceland and the world needs to know about this.“
Í einni andrá sveiflaði hann bakpokanum á jörðina og opnaði. Nú svifu fimm drónar yfir þeim og Gunnhildur sá verði koma hlaupandi. Þeir voru samt of langt í burtu, virtust hreyfa sig eins og þeir væru í vatni upp að mitti.
Úr bakpokanum tók Jón Gabríel stóran rauðan plastbrúsa.
„Before I close my eyes, I plead to the president, and the people of Iceland, to take a mind of compassion to the people of the world, who are only fleeing the death of a climate made mad by greed. Ég loka nú augum mínum. Opnið þið ykkar.“
Jón Gabríel tók tappann af brúsanum, leit á Gunnhildi, lokaði augunum og hellti einhverju yfir sig. Síðan tók hann kveikjara úr vasanum og kveikti í. Brátt stóð grár reykurinn af Jóni Gabríel.
Gunnhildur stóð grafkyrr, þorði ekki að hreyfa sig. Sagði ekkert. Eins og hún myndi gera þennan hrylling raunverulegan með því að hreyfa sig eða tala, eins og á meðan hún horfði bara á í gegnum símann væri þetta bara einhver brella. En brátt tók lyktin allan vafa af.
Gunnhildur vissi ekki að hún væri að öskra fyrr en hún sá upptökuna sjálf, seinna. Jón Gabríel sagði ekki orð á meðan.
Athugasemdir