Fjölskylda Jónu Elísabetu Ottesen safnar fyrir endurhæfingu hennar vegna mænuskaða sem hún hlaut í bílslysi með dóttur sinni. Henni er nú haldið sofandi í öndunarvél á meðan bólgur hjaðna, en „kraftaverki líkast“ þykir að fimm ára gömul dóttir hennar slapp vel.
Mæðgurnar voru á leið frá því að halda upp á 40 ára afmæli Steingríms Inga Stefánssonar, unnusta Jónu og föður Uglu. „Jóna liggur nú á gjörgæslunni, þar sem hún fær bestu mögulegu aðhlynningu sem hægt er að fá,“ skrifar Ása Ottesen, systir Jónu, á Facebook. „Fyrst eftir slysið var hún með fullri meðvitund og gerði sér grein fyrir aðstæðum. Í gær var tekin ákvörðun um að setja hana í öndunarvél og halda henni sofandi, á meðan bólgur hjaðna. Ugla slapp með minniháttar skrámur, sem er kraftaverki líkast.“
Vegna mænuskaða sem Jóna varð fyrir bíður hennar endurhæfing. „Við erum öll staðráðin í að tækla það með jákvæðum baráttuhug í anda Jónu,“ skrifar Ása. „Hún er nefnilega algjör nagli, ef þið vissuð það ekki nú þegar.“
Fjölskyldan hefur ákveðið að opna styrktarreikning fyrir Jónu. „Allt sem fer inn á þann reikning fer beinustu leið í að styrkja Jónu og byggja hana upp á ný, þegar sá tími kemur,“ skrifar Ása. „Eftir slysið höfum við fjölskyldan fengið óendanlega mikið af skilaboðum, símtölum og baráttukveðjum úr öllum áttum, enda þykir öllum vænt um Jónu sem henni hafa kynnst. Við getum ekki lýst því hvað það hjálpar okkur mikið og hvetur okkur áfram.“
Númer reikningsins er 528-14-401998 og kennitala 701111-1410.
Athugasemdir