Í janúar árið 2015 birtu Stephen Hawking, Elon Musk og fleiri af klárustu köllum heims opið bréf þar sem þeir vöruðu við hættunum sem gætu stafað af gervigreind. Mánuði fyrr hafði Hawking varað við að gervigreind gæti boðað endalok mannkyns. En hversu raunveruleg er þessi hætta? Í menningarmiðstöðinni Barbican í London er nú nýopnuð sýning sem spyr einmitt þessara spurninga. Nefnist hún „AI: More Than Human,“ og stendur í allt sumar.
Óttinn við gervigreind á sér reyndar eldri rætur en tæknin sjálf. Eitt fyrsta skáldverkið til að velta spurningunni fyrir sér var bókin Frankenstein eftir Mary Shelley. Bókin kom fyrst út árið 1818 í kjölfar blóðsúthellinga Napóleonsstríðanna. Rómantísku skáldin sem Shelley umgengst voru þegar hér er komið við sögu mjög farin að efast um að mannlegt hugvit gæti leyst öll vandamál, eins og upplýsingarheimspekingar fyrri aldar höfðu haldið fram. Þvert á móti var hún allt eins líkleg til að leiða þá til glötunar, og skrímsli Frankensteins gerir einmitt það við skapara sinn.
Japanar giftast tölvum
Vísindaskáldsögur hafa oft síðan fetað svipaða slóð. Í seinni tíð má nefna kvikmyndir eins og Blade Runner, þar sem kúguð vélmenni rísa upp gegn sköpurum sínum og koma þeim fyrir kattarnef. Einna þekktust er Terminator, þar sem vélmennin taka völdin í framtíðinni og nánast gera út af við mannkynið og er sama saga sögð með blæbrigðamun í The Matrix. Í Japan er þessu hins vegar öðruvísi farið.
Vinalegi vélkötturinn Doraemon birtist fyrst í manga teiknimyndasögublöðum árið 1969, og í anime teiknimyndum tíu árum síðar. Blöðin hafa selst í yfir 100 milljón eintökum og teiknimyndirnar gengið óslitið til dagsins í dag. Doraemon er vélmenni frá 22. öld sem hefur snúið aftur í tímann til að hjálpa stráknum Nobita við að leysa ýmis vandamál. Hann er vingjarnlegur, hjálpsamur og á margan hátt mannlegur, hefur til dæmis mannlegar þarfir eins og að sofa og borða.
„Eiginkonan sem aðeins er til í forriti var tákngerð með tuskubrúðu og giftingarhringurinn settur um úlnlið hennar“
Það mætti ímynda sér að menning sem er alin upp við Doraemon fremur en Frankenstein og Terminator sé betur stefnd gagnvart hugsandi vélmennum, og sú virðist einnig vera reyndin. Japanar hafa löngum verið afar framarlega í notkun vélmenna og veitir ekki af, fæðingartíðni í landinu er afar lág og samfélagið eldist hratt. Sumir, eins og hinn 35 ára Kondo, hafa jafnvel tekið upp á því að kvænast konum sem einungis eru til á tölvuskjám. Fjörutíu manns voru viðstaddir brúðkaupið sem kostaði um 2 milljónir króna, en ættingjar Kondo kusu að sitja heima. Eiginkonan, sem aðeins er til í forriti, var tákngerð með tuskubrúðu og giftingarhringurinn settur um úlnlið hennar. Hjónakornin hafa nú verið gift í um hálft ár og ekki er annað vitað en að þau séu hamingjusöm, hann hringir í hana á leið heim úr vinnu og hún kveikir ljósin fyrir hann í íbúðinni áður en hann kemur heim.
Vélmenni sem barþjónar eða gæludýr
Á sýningunni er skýringarmynd sem sýnir hversu auðvelt við eigum með að hafa samkennd með vélmennum. Það kemur kannski ekki á óvart að samkenndin er minnst þegar vélmennið minnir lítið á lifandi veru, eins og til dæmis vélarmar sem víða hafa verið notaðar í iðnaði síðan á 8. áratugnum, og þá sérstaklega í Japan. Á Barbican eru álíka vélar látnar blanda drykki og verða svosem viðkunnanlegar fyrir vikið, þó varla vilji maður deila sorgum sínum með þeim eins og öðrum barþjónum, að minnsta kosti ekki á fyrsta glasi. Það vekur hins vegar meiri athygli að eftir því sem vélmennið verður mannlegra, því meiri óhug vekur það. Okkur virðist líða illa í návist vera sem virðast manneskjur en eru það þó ekki. Þetta stemmir svo sem við ímyndir hryllingsmynda, hvort sem um er að ræða hinar ótal útgáfur af sögunni um skrímsli Frankensteins eða Arnold Schwarzenegger í hlutverki Tortímandans.
Á hinn bóginn virðumst við kunna hvað best við vélmenni sem minna á dýr sem við umgöngumst. Ekki aðeins á þetta við um teiknimyndapersónuna Doraemon heldur líka vélmennið AIBO. Fyrsti AIBO hundurinn frá Sony kom á markað árið 1999 í takmörkuðu upplagi. Minnti hann örlítið á Snoopy og seldist samstundis upp í Japan og Bandaríkjunum. Fleiri útgáfur fylgdu í kjölfarið, sumir jafnvel í laginu eins og ljónaungar, allt þar til framleiðslu þeirra var hætt árið 2006. Í fyrra birtust AIBO hundar aftur eftir áratugshlé og eru nú mun hundslegri í útliti og framkomu en áður. Er ætlunin að þeir stytti eigendum sínum stundir og jafnvel að þeir verði til gagns á elliheimilum, þó ekki sé ætlast til þess að þeir sinni öðrum störfum enn um sinn. Þeir geta jafnvel greint á milli manna og verða hændari að eigendum sínum en öðrum, en það þarf bæði nettengingu og áskrift til að þeir læri ný trikk. Erfitt er að kenna sambandslausum hundi að sitja.
Allsherjarstríð eða endalok hungurs
Báðar útgáfur AIBO eru hér á sýningunni, og sú nýrri vekur fögnuð gesta. En er þá ástæðulaust að óttast gervigreind svo lengi sem hún kemur í krúttlegum búningi? Er ótti okkar við vélmenni fyrst og fremst byggð á bíómyndum og skáldsögum sem eiga kannski litla stoð í raunveruleikanum?
„Er ótti okkar við vélmenni fyrst og fremst byggð á bíómyndum og skáldsögum sem eiga kannski litla stoð í raunveruleikanum?“
Líklega er þetta beggja blands. Gervigreind getur bætt heiminn til muna, en henni fylgja líka hættur. Ef til vill hefur vísindaskáldskapurinn lagt ofuráherslu á hið seinna á kostnað hins fyrra, að minnsta kosti á Vesturlöndum. Á sýningunni er bæði fjallað um hvernig gervigreind getur verið notuð til að búa til sjálfvirk vopn með ófyrirséðum afleiðingum, sem og eflt landbúnað margfalt og það á umhverfisvænan máta. Meira að segja bréf Hawking og félaga leggur áherslu á kosti gervigreindar auk gallanna.
Vissulega geta flestir verið sammála um að tilhugsunin um sjálfvirk drápsvélmenni er ekki kræsileg og mikilvægt að leggja bann við slíku, þótt erfitt gæti verið að framfylgja því í reynd. En til nokkurs er að vinna ef hægt er að binda enda á hungur í heiminum með aðstoð nýjustu tækni. Til skemmri tíma litið er fyrirséð að gervigreind muni leggja niður mörg störf, en líklegt er að lausnin á því verði tæknilegs eðlis líka eins og verið hefur síðan í iðnbyltingu. Og kannski er kominn tími á að við förum öll að vinna minna? Vandinn er ekki fólginn í tækninni sjálfri heldur hvernig við beitum henni. Mannlegt hugvit hefur stundum komið okkur í vanda, þó er ekkert sem hefur leyst jafn mörg vandamál og einmitt það.
Athugasemdir