Ég er barnslaus, á engin börn og veit ekki hvort mig langi í börn. Samfélagið vill að ég eigi barn og þó að lögin leyfi mér að ráða sjálf hvað ég geri við líkama minn þá minnir samfélagið mig stöðugt á að ég sé að vanrækja skyldu mína, tilgang minn í lífinu, móðureðlið.
„Hvenær á svo að henda í eitt?“ var ég spurð 23 ára hafandi verið í sambandi í 6 mánuði, eins og það væri jafn lítið mál og að henda í pönnsur, ég svaraði með vandræðalegum hlátri og eftir á grínuðust gestirnir í útskriftarveislunni aðeins í nýja parinu og svo var senan búin. Dæmigerð sena sem flestar konur hafa líklega lent í oftar en einu sinni. Það virðist vera fylgifiskur allra fjölskyldu samkomna að spyrja ungar konur hvenær þær ætli að eignast börn og konur yfir þrítugt hvers vegna þær séu ekki búnar að eignast börn. Þessar spurningar þykja mjög eðlilegar og spyrjendur virðast ekki skilgreina þær sem persónulegar heldur öllu fremur óhjákvæmilegar, eins og tilvera þeirra sé í uppnámi vegna barnsleysis annars fólks. Fyrir mér er þetta mjög hlaðin spurning, þegar ég heyri hana finnst mér eins og ég hafi allt í einu ekki áorkað neinu í lífinu bara vegna þess að ég á ekkert barn, ekkert annað skiptir máli. Ég get ekki ímyndað mér hvernig fólk sem langar í börn en á í erfiðleikum með að eignast þau líður þegar það fær þessa spurningu.
Nýverið hef ég byrjað að svara þessari spurningu af barnslegri hreinskilni „ég veit ekki hvort mig langar í börn“. Þetta svar stuðar engan vegna þess að enginn trúir því að ung kona muni ekki á endanum vilja uppfylla tilgang sinn í lífinu og verða móðir. Venjulega klappar einhver mér á bakið og segir uppörvandi „bíddu bara, það kemur“ og síðan „en bara ekki bíða of lengi“, því eins og hvert stúlkubarn veit er tíminn naumur og einn daginn verður það of seint. Þessar tímahótanir byrjuðu snemma hjá mér en ég var ennþá í menntaskóla þegar öldruð frænka mín minnti mig á að þrátt fyrir að afi minn hefði eignast barn 74 ára þá hefði ég bara hámark 35 ár til að láta verða af því.
Ég hef aldrei heyrt neinn spyrja „hvers vegna ætlar þú að eignast barn?“ Fólk virðist ekki þurfa neina ástæðu til að fjölga sér. Sjálf hef ég oft velt fyrir mér hinum eiginlega tilgangi með barneignum og eins og með tilgang hundahalds virðist hann augljós – taumlaus hamingja og skilyrðislaus ást, þangað til einn daginn stendur maður úti í rigningu með hund í bandi og kúk í poka og fer að velta þessu betur fyrir sér.
Niðurstöður vangaveltna minna um ástæður barneigna eru þríþættar og ekki byggðar á neinum rannsóknum eða almennt viðurkenndum rökum. Fyrsta ástæða þess að eignast barn að mínu mati væri æðri tilgangur; það að lifa fyrir einhvern annan og setja sjálfa sig í annað sæti, að færa heiminum nýtt líf. Þetta er mjög skiljanleg ástæða og virkar göfug en á tímum offjölgunar og hamfarahlýnunar hljómar hún meira eins og röklaus tilveruréttlæting og það væri mögulega betra að finna sér gagnlegt áhugamál. Önnur ástæðan er mjög freistandi en hún væri að ala upp betri útgáfu af sjálfri sér, næstu Gretu Thunberg, það eru bara engar líkur á að það heppnist. Það ætlar enginn að leyfa börnunum að borða nammi eða hanga í spjaldtölvunni en svo er klukkan sjö á sunnudagsmorgni og ómögulegt að taka skynsamlegar ákvarðanir, svo líklega verður afkvæmið bara önnur útgáfa af manni sjálfri. Þriðja ástæðan finnst mér persónulega vera hinum fremri en hún væri tryggingin um heimsókn á elliheimilið. Útskýrir sig sjálft.
Þessar ástæður eru misgóðar og gildar en í útreikningum niðurstaðna gleymdist að reikna kostnað þess að eiga börn, þá meina ég andlegan og heilsufarslegan kostnað, þrátt fyrir að það sé líka mjög dýrt að eiga börn. Viðamikil bresk rannsókn sem kom út á þessu ári sýndi fram á að foreldrar væru svefnvana fyrstu árin í lífi barna sinna og þá sérstaklega mæður sem misstu þrisvar sinnum meiri svefn á þrisvar sinnum lengri tíma en feðurnir. Einnig eykst streita meira hjá mæðrum sem og andleg vinna. Langvarandi áhrif barneigna á konur hafa lítið verið rannsökuð en fáir geta hunsað þann kostnað sem konur greiða við að koma börnum í heiminn. Meðganga og brjóstagjöf eru líklega ein svakalegasta þrekraun sem fyrirfinnst. Hár kostnaður fyrir heimsókn í ellinni.
Samkvæmt Paul Dovan, prófessors í atferlisfræði, benda nýjustu rannsóknir til þess að konur lifi bæði lengur og séu hamingjusamari hafi þær forðast barneignir og hjónaband, þveröfugt við karla.
Persónulega hef ég ekkert á móti börnum. Þau eru flest mun skemmtilegri en fullorðið fólk og leiðinlegu börnin eru allavega oftast mjög hreinskilin, sem er aðdáunarvert út af fyrir sig. Ég hef heldur ekkert út á barnafólk að setja. Það eina sem ég vil gagnrýna hér er sú staðlaða barneignapressa sem ásækir konur úr öllum áttum. Mér finnst spurningin „af hverju vilt þú eiga börn?“ eiga alveg jafn mikinn rétt á sér og hin mun vinsælli spurning, „af hverju vilt þú ekki eignast börn?“, en ákjósanlegast væri að fólk sleppti því að spyrja konur um tíma og ástæðu barneigna enda löngu búið að staðfesta að konur geti gert fleira en að framleiða börn.
Athugasemdir