Morgunblaðið birti í morgun frétt á forsíðu um að hælisleitandi í Reykjanessbæ hafi safnað rafgeymasýru í brúsa. Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, vekur athygli á fréttinni, bendir á að hælisleitandinn hafi ekki gert neitt ólöglegt og telur að gefið sé í skyn með fréttinni hver ætlun hans hafi verið.
Í fréttinni kemur fram að hælisleitandinn hafi verið í búsetuúrræði Útlendingastofnunar á Ásbrú í Reykjanesbæ. Öryggisvörður á svæðinu hafi fundið sýru úr rafgeymum bifreiða á manninum, en hún hafi verið geymd í brúsa. Lögreglu hafi verið gert viðvart, en ekki sé vitað í hvaða tilgangi sýrunni var safnað. „Þá mun hælisleitandanum, samkvæmt heimildum blaðsins, hafa verið vísað úr landi um leið og endanleg niðurstaða lá fyrir í hælisumsókn hans,“ segir að lokum í fréttinni.
Þórður Snær hefur verið gagnrýninn á ritstjórnarpistla og fréttaval Morgunblaðsins á Twitter síðu sinni. „Forsíðufrétt Mbl í dag,“ skrifar Þórður Snær á Twitter. „Hælisleitendi safnar rafmagnssýru á brúsa (skrýtið en ekki ólöglegt). Ekki er vitað af hverju (en samt gefið í skyn með framsetningu). Tiltekið að honum hafi verið vísað úr landi eftir að umsókn var hafnað (sem er gert við alla).“
Haukur Már Helgason rithöfundur skrifar einnig um málið á Facebook. Var hann hluti af hópi aðgerðarsinna sem mótmæltu brottvísun tveggja hælisleitenda í Leifsstöð í morgun. „Um þessa yfirstandandi rassíu lögreglunnar sé ég hvergi frétt,“ skrifar Haukur Már. „RÚV og Morgunblaðið fluttu hins vegar áróður nú í morgun, sé ég, frá heimildamanni innan lögreglunnar. Fréttina er engin leið að sannreyna en enginn mun heldur hrekja hana, um ónafngreindan mann sem aðeins kemur fram að sé horfinn, hafi verið brottvísað. Lesendum er augljóslega ætlað að draga þá ályktun að það sé eins gott að við brjótum rétt á þessu fólki, hver veit hvað gæti leynst í bakpokunum þeirra.“
Athugasemdir