Guðrún Línberg Guðjónsdóttir hefur verið áreitt með nafnlausum smáskilaboðum um margra ára skeið og gagnrýnir að fyrirtæki bjóði upp á sms-sendingar án þess að krefjast auðkenningar.
„Af hverju þarf hið sjálfgefna að vera að það sé opið fyrir áreitni og einelti eftir þessari leið?“ spyr hún. „Kemur þetta einhverjum að gagni nú til dags? Öðrum en þeim sem vilja eltihrella, leggja í einelti og áreita?“
Guðrún fjallar um málið í stöðuuppfærslu á Facebook og segist reglulega hafa fengið nafnlaus skilaboð af netinu síðustu þrettán árin, í seinni tíð aðeins af Nova.is.
Áður var einnig hægt að senda nafnlaus skilaboð af Já.is, en árið 2012 var gerð sú breyting að krafist var auðkenningar. Fram kom í tilkynningu frá fyrirtækinu að brögð hefðu verið að því í gegnum tíðina að þjónustan væri notuð til að senda nafnlaus skilaboð í farsíma fólks.
Guðrún tekur dæmi um skilaboð sem henni hafa borist. „Í febrúar voru skilaboðin eftirfarandi: „Hvernig líður þér með lygarnar þínar þegar kona sem þú þekktir var drepin í heimilisofbeldi?“ Núna um helgina var í nafnlausu skilaboðunum löng þvæla sem átti sennilega að fá mig til að óttast um líf barnsföður míns, ýjað var að því að hann væri í sjálfsvígshættu sem mætti rekja til illsku minnar.“
Hún segir að skilaboðin setji ekki líf sitt á hliðina og nýlega hafi hún frétt að hægt væri að hafa samband við fyrirtækið og láta loka fyrir móttöku nafnlausra skilaboða. „En ég verð hugsi yfir þessu í hvert sinn. Af hverju er hægt að senda þessi skilaboð af vef Nova án þess að skrá sig inn eða auðkenna sig með öðrum hætti? Af hverju býður Nova enn upp á þetta en öll önnur fyrirtæki hafa hætt þessu? Af hverju ætti ég að þurfa að biðja sérstaklega um að láta loka fyrir þetta? Af hverju þarf hið sjálfgefna að vera að það sé opið fyrir áreitni og einelti eftir þessari leið?“
Vitnað er í stöðuuppfærsluna með leyfi höfundar. Haft var samband við Nova við vinnslu fréttarinnar og verður hún uppfærð með viðbrögðum ef þau berast.
Uppfært: Nova hefur brugðist við og ákveðið að loka fyrir þjónustuna.
Athugasemdir