Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, hefur lagt fram fyrirspurn til Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um hvers vegna Ísland sat hjá þann 15. mars síðastliðinn þegar mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna ályktaði um að fylgja skyldi alþjóðlegum mannúðar- og mannréttindalögum á hernumdu svæðunum í Palestínu og rétta yfir þeim sem brjóta þau.
Jafnframt spyr hún: „Samræmist þessi hjáseta ályktun um viðurkenningu Íslands á Palestínu sem sjálfstæðs og fullvalda ríkis innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið 1967? Er um stefnubreytingu af hálfu Íslands að ræða þegar kemur að málefnum Palestínu og hernumdu svæðanna?“
Stundin fjallaði um málið þann 7. apríl síðastliðinn. Í umfjöllun blaðsins kom fram að Danmörk, Ítalía og Bretland hefðu einnig setið hjá við afgreiðslu tillögunnar, Spánn greitt atkvæði með henni og Austurríki gegn. Ályktunin var samþykkt með 23 atkvæðum gegn átta þann ásamt þremur öðrum ályktunum um Palestínu og mannréttindavernd Palestínumanna.
Í ályktuninni sem Ísland studdi ekki voru hernaðaraðgerðir gegn óbreyttum borgurum, svo sem börnum, heilbrigðisstarfsmönnum og fötluðum, fordæmdar sem og hvers kyns hótanir og þvinganir gagnvart mannréttinda- og hjálparsamtökum sem starfa á hernumdu svæðunum. Þá var lagt fyrir Sameinuðu þjóðirnar að fjölga starfsmönnum sem annast eftirlit með og skráningu brota gegn alþjóðalögum í Palestínu. Kappkostað yrði að draga þá sem bera ábyrgð á brotum gegn alþjóðlegum mannúðarlögum og mannréttindalögum til ábyrgðar með viðeigandi hætti fyrir óvilhöllum og sjálfstæðum dómstólum.
Athugasemdir