Alls gæti útsvarstekjutap Reykjavíkurborgar vegna skattfrjálsrar greiðslu séreignarsparnaðar inn á fasteignalán numið um fimm milljörðum króna á gildistíma úrræðisins, frá 1. júlí 2014 til 30. júní 2021.
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur metið kostnað sveitarfélaga vegna úrræðisins á 2 milljarða á ári, en þar af má gera ráð fyrir að borgin verði af útsvarstekjum sem nema um 700 til 750 milljónum króna. Þetta kemur fram í umsögn fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.
Séreignarsparnaðarleiðin – heimild til að ráðstafa séreignarsparnaði skattfrjálst til að lækka höfuðstól húsnæðislána – var kynnt haustið 2013 sem hluti af skuldaleiðréttingunni svokölluðu. Þrátt fyrir að sérfræðingahópur og stýrihópur á vegum núverandi ríkisstjórnar hafi gagnrýnt leiðina og sagt hana einkum nýtast þeim tekjuhærri hefur ríkisstjórnin ákveðið að framlengja gildistíma úrræðisins til ársins 2021. Mun þetta rýra útsvarstekjustofn borgarinnar næstu árin.
Birgir Björn Sigurjónsson, fjármálastjóri Reykjavíkurborgar, bendir á að með séreignarsparnaðarleiðinni hafi ríkið velt talsverðum kostnaði vegna húsnæðisstuðnings yfir á sveitarfélögin.
„Árið 2017 fékk Reykjavíkurborg 244 m.kr. sérstakt framlag úr Jöfnunarsjóði til sveitarfélaga til að bæta borgarsjóði þá tekjuskerðingu sem þau urðu fyrir þegar lög nr. 40/2014 um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána voru samþykkt á árinu 2014. Þetta sérstaka framlag bætti þó aðeins lítinn hluta af útsvarstekjustapi Reykjavíkurborgar, þ.e. 244 mkr af um 5.000 mkr,“ skrifar hann. „Gerð er krafa um það að Reykjavíkurborg og öðrum sveitarfélögum verði bætt það útsvarstekjutap að fullu sem hefur hlotist af ákvörðun Alþingis um skattfrjálsa ráðstöfun séreignarsparnaðar.“
Athugasemdir