Tatjana Latinovic var í gær kjörin nýr formaður Kvenréttindafélags Íslands. Hún er fyrsti formaður Kvenréttindafélagsins af erlendum uppruna, en félagið var stofnað af Bríeti Bjarnhéðinsdóttur árið 1907.
„Kvenréttindafélag Íslands á sér 112 langa sögu í baráttu fyrir jafnrétti,“ sagði Tatjana í ávarpi á aðalfundi félagsins í gær. „Ég er stolt að fá tækifæri til að feta í fótspor kvenna sem hafa gegnt formennsku á undan mér og hlakka til að leggja mitt að mörkum að leiða það í áframhaldandi baráttu fyrir jafnrétti fyrir alla.“
Tatjana hefur setið sem varaformaður í stjórn félagsins frá 2015 og tekur nú við formennsku af Fríðu Rós Valdimarsdóttur. Í tilkynningu frá félaginu segir að hún hafi verið baráttukona fyrir kvenréttindum og réttindum innflytjenda síðan hún flutti til Íslands árið 1994. Hún er einn stofnenda W.O.M.E.N. in Iceland – Samtaka kvenna af erlendum uppruna, og sat í stjórn frá stofnári 2003 til 2012, þar af sem formaður 2004-2008. Hún sat einnig í stjórn Kvennaathvarfsins, frá 2004 til 2012. Tatjana er formaður Innflytjendaráðs og situr í Jafnréttisráði fyrir hönd Kvenréttindafélagsins.
Á fundinum voru fimm nýjar konur kosnar í stjórn, Bergljót Tulinius Gunnlaugsdóttir, Eva Huld Ívarsdóttir, Stefanía Sigurðardóttir, Helga Baldvins Bjargardóttir og Hjördís Guðný Guðmundsdóttir. Í stjórn sitja einnig áfram Ellen Calmon, Helga Dögg Björgvinsdóttir, Hildur Helga Gísladóttir og Steinunn Stefánsdóttir.
Athugasemdir