„Um leið og viðurkennt skal að sannarlega fylgi opinber kostnaður eftirliti samkvæmt raforkulögum líkt og öðrum lögum þá telur HS Orka rétt á að benda á að hækkunin er umtalsverð og viðbúið að hún skili sér í verði á raforku og muni á endanum leggjast á notendur raforku, bæði heimili og fyrirtæki.“
Þetta kemur fram í umsögn HS Orku, þriðja stærsta orkufyrirtæki Íslands sem á meðal annars 30 prósenta hlut í Bláa lóninu, um innleiðingu þriðja orkupakkans í íslenskan rétt. Um er að ræða sams konar athugasemd og birtist í umsögn Samorku, samtaka orkufyrirtækja, sem Stundin fjallaði um fyrr í dag.
Innleiðingu þriðja orkupakkans fylgja lagabreytingar er varða sjálfstæði Orkustofnunar og auknar valdheimildir við framkvæmd raforkueftirlits. Þannig fær stofnunin heimild til að áminna rekstraraðila og leggja á stjórnvaldssektir auk þess sem gjaldið sem stendur undir kostnaði við raforkueftirlit er hækkað, meðal annars vegna kostnaðar af þátttöku í ACER, hinni samevrópsku Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði.
HS Orka telur þær breytingar sem innleiddar hafa verið á Íslandi allt frá setningu raforkulaga nr. 65 árið 2003 á grundvelli fyrri orkupakka ESB hafa verið til framfara og hagsbóta fyrir íslenskt samfélag. Þær hafi leitt af sér framþróun, aukna samkeppni og verðlækkun raforku á Íslandi. Líkt og Samorka gerir þó HS Orka athugasemdir við hækkun eftirlitsgjaldsins og telur sektarheimildir ekki nægilega skýrar.
Athugasemdir