Meirihluti velferðarnefndar Alþingis fær harða útreið í staksteinum Morgunblaðsins í dag vegna stuðnings nefndarmanna við frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um þungunarrof.
Staksteinahöfundur, sem af stílbragðinu má ráða að sé Davíð Oddsson fyrrverandi forsætisráðherra, segir málið til marks um að fá þingmál ef nokkur séu „svo vafasöm eða fráleit að þau komist ekki í gegnum Alþingi ef vinstrimenn setja þau í faglegan búning og vefja í orðskrúð og aukaatriði“.
Kjarni málsins sé þá fljótur að týnast og „jafnvel þingmenn sem alla jafna ættu að geta séð hversu varasamt mál er á ferðinni annaðhvort missa af því í orðagjálfrinu eða missa fótanna af ótta við árásir ofsamanna á interneti eða annars staðar“.
Í frumvarpi heilbrigðisráðherra er lagt til að þungunarrof verði heimilað til loka 22. viku meðgöngu. Þetta er í samræmi við tillögur fagfólks, svo sem Félags íslenskra fæðingar- og kvensjúkdómalækna. Meirihluti velferðarnefndar útskýrir afstöðu sína með eftirfarandi hætti:
„Að mati meiri hlutans eru rökin fyrir því að heimila þungunarrof fram til loka 22. viku tvíþætt. Annars vegar geti ýmis alvarleg frávik komið í ljós við 20 vikna fósturskimun sem ekki sé hægt að greina á fyrri stigum þungunar. Hins vegar hafi konur sem búi við erfiðar félagslegar aðstæður ekki alltaf möguleika á því að átta sig á því að þær séu þungaðar fyrr en seint á meðgöngu. Því hafi þær konur takmarkaða möguleika á að leita hjálpar til að rjúfa þungun sína vegna félagslegra aðstæðna. (...) Þá bendir meiri hlutinn á að með því að takmarka heimild til þungunarrofs við lok 18. viku væri aðgengi kvenna að þungunarrofi takmarkað meira en gert er í gildandi lögum. Slík breyting eigi sér því ekki stoð í markmiði laganna um að auka sjálfsákvörðunarrétt kvenna.“
Staksteinahöfundur telur afstöðu nefndarmanna hneykslanlega. „Í fyrradag skilaði meirihluti velferðarnefndar (!) frá sér nefndaráliti um frumvarp heilbrigðisráðherra um fóstureyðingar, sem heita reyndar þungunarrof í frumvarpinu. Í stað þess að senda frumvarpið aftur inn í ráðuneytið kvittar meirihlutinn upp á allt sem þar er, fyrir utan orðalag á nokkrum stöðum til að reyna að réttlæta þinglega tilveru sína,“ segir í Morgunblaðinu.
„Í frumvarpinu er þannig ennþá gert ráð fyrir að leyfðar verði fóstureyðingar til 22. viku meðgöngu og að konan sem gengur með barnið hafi sjálfdæmi þar um en læknisfræðin ekki.“ Þá vitnar höfundur í þingræðu Ingu Sæland um málið sem telur efni frumvarpsins „siðferðilega rangt“ og að það hafi stungið hana í hjartað.
Athugasemdir