Í dag gerðist undarlegur hlutur. Sjálfstæðisflokkurinn hélt fund í Salnum í Kópavogi, snyrtilegt og huggulegt laugardagsspjall. Þegar hælisleitandi í áhorfendahópnum tók til máls og spurði dómsmálaráðherra, sem sat í panel, hvers vegna hún svaraði ekki fundarbeiðnum, fór fundurinn hraðleiðis norður og niður.
Karlar merktir Sjálfstæðisflokknum sögðu við hann að setjast og þegja, ellegar yrði hann dreginn út. „Við þurfum ekki að hringja í lögregluna,” sagði fundarstjóri og benti á karlana. „Við getum notað þessa.“
Og þá sagði maður merktur Sjálfstæðisflokknum: „Við erum lögreglan.“
Samtvinningur Sjálfstæðisflokksins og lögreglunnar á sér djúpar rætur á Íslandi, sem sést ekki greinilega nema sagan sé skoðuð í heild.
Í þessari grein verður sögð sagan af valdataflinu sem ól upp íslensku lögregluna. Hún spratt upp úr öryggisgæslu stórfyrirtækis og hefur uppfrá því verið nátengd flokki iðnjöfra og verslunar. Höfundar lögreglunnar og hugmyndafræðingar, varaliðar hennar og verndarar, hafa verið úr þeim flokki. Í honum má ekki bara finna efnahagslega elítu Íslands, pólitískt ættaróðal valdsins, heldur líka alla þá fordóma og þráhyggjur sem fylgja inngróinni drottnun — fordóma og ótta gagnvart fátæklingum, útlendingum og óhlýðni.
Þetta er saga sem endar á hríðskotabyssum, hælisleitendum og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur — og vofu sem sveimar um Borgartúnið, vofu kommúnismans. En hún byrjar á fyrsta góðæri Íslandssögunnar.
Stórfyrirtæki í Reykjavík
Á átjándu öld var blússandi gangur í Reykjavík. Skúli Magnússon og fjárfestar tengdir honum höfðu keypt stórar græjur, “Innréttingarnar”, til að vefa ull og vinna tau. Að sanníslenskum brag voru græjurnar passlega stórar fyrir tíu sinnum stærri þjóð og Innréttingarnar fóru fljótlega á hausinn. Í millitíðinni varð til dálítil siðmenning í Reykjavík, með þeirri drykkju, kynsjúkdómum og fátækt sem henni fylgja. Fólk sem stal sér til matar í harðæri var sent í þrælahald til Danmerkur, eða drepið af sýslumönnunum ef þeir tímdu ekki uppihaldi meðan beðið var eftir skipi.
Til að verjast flónsku, örbirgð og fíflaskap almennra borgara réðu forsvarsmenn Innréttinganna tvo öryggisverði. Þeir skyldu rölta um götur bæjarins á næturnar með gaddakylfur og yfirheyra alla sem þeir sáu, jafnvel sekta þá sem óvarlega fóru með ljóskerin sín. Þessi þungavopnaða öryggisgæsla stærsta fyrirtækis landsins var okkar fyrsta lögregla.
Vöktun borgarinnar þessi ár var flestum til ama nema verslunarmönnum, sem héldu henni stundum úti á eigin kostnað eftir að Innréttingarnar fóru á hausinn. Eftir því sem á leið tókst þó hægt og bítandi að pranga henni uppá hið opinbera, sem tók að innheimta skatta af ótrúlega óviljugum almenningi til að standa undir henni.
Lögreglumenn í Reykjavík voru fyrstu öldina flestir drykkjumenn, slæpingjar og skálkar. Einn þeirra bjó í „hneykslanlegri sambúð“ með maddömmu nokkurri Bagger, seldi áfengi í tráss við lög og hélt píuböll þar sem hann spilaði undir á flautu. Var hann að lokum rekinn. Annar átti það til að berja á föngunum sem hann hafði að atvinnu að gæta og endaði á að drepa einn þeirra með barsmíðum. Fangelsisstjórnin bað honum vægðar, enda þótti þetta ekki sérlega voðalegt, og hélt hann því starfinu.
Helstu störf lögreglunnar voru í þá tíð að vernda betri borgara og verslanir fyrir þjófum og eldi, passa að fólk væri ekki í Reykjavík án leyfis og að keyra ofdrukkna menn uppí svartholið í „drykkjumannakerrunni“. Þetta tók að breytast um aldamótin 1900 þegar íbúum bæjarins fjölgaði stórum. Sjávarútvegur tók kipp og stétt útgerðarmanna varð til. Hatrömm stéttabarátta var háð með tíðum verkföllum, þar sem lögreglan varði atvinnuveitendur gegn kröfum verkamanna. Kallaði hún oft til varalið, enda fámenn sjálf. Þegar lögreglumennirnir sjálfir kröfðust kjarabóta voru þeir iðulega reknir.
Brottvísun
Árið 1921 varð svo undarlegt uppbrot í þessari þróun. Ritstjóri Alþýðublaðsins hafði heimsótt Sovétríkin og komið heim með ættleiddan rússneskan strák. Þegar kom í ljós að strákurinn var með augnsjúkdóm sem gat smitast taldi yfirvaldið að honum væri best fyrir komið í öðru landi, og reyndi að fjarlægja hann frá Ólafi. Hann varðist með vinstrisinnuðum félögum sínum og hratt lögreglu á brott. Aftur var reynt með 65 manna varaliði sem tókst að brjótast í húsið og draga út strákinn, en í slagsmálum við varnarliðið náðist strákurinn inn í hús aftur.
Nú þótti lögreglustjóra nóg komið. Verslunarmönnum hafði þótt volæðislegt að horfa uppá veiklulega framgöngu lögreglunnar og hjálpuðu þeir að manna varalið sem tók undir sig Iðnó. Það taldi hálft þúsund manns. Lokað var á síma Ólafs. Liðið ruddist inn og handtók húsráðendur og strákinn. Honum var brottvísað og Ólafur settur í gæsluvarðhald.
Fjórir Gúttóslagir
Kreppan mikla tók sig svo upp á Íslandi um 1930. Atvinnulausum fjölgaði, en þeir fengu engar bætur og upphófust nokkrum sinnum slagir milli áhorfenda og lögreglu í fundarhúsi bæjarstjórnar um hvort bærinn ætti að bjóða atvinnulausum bótavinnu. Einn bæjarfulltrúanna sem stóð í vegi fyrir því var Jakob Möller.
Jakob Möller var ekki bara bæjarfulltrúi og alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, heldur líka eins manns Fjármálaeftirlit síns tíma. Hann var rekinn úr því embætti fyrir að gera “verra en ekki neitt” árið 1934. Það var á allra vitund að “Jakob var óhæfur í starfið og embættið stofnað sem bitlingur fyrir hann”, enda hafði hann “ekki einu sinni reynt að hafa eftirlit með bönkunum” og “í stærstu stofnunina, sem hann átti að endurskoða, Landsbankann, [hafði] hann ekki komið í 3 ár, samkvæmt frásögn sjálfs bankaráðsins.” Fyrir þetta hafði hann þegið frá ríkinu sautján þúsund krónur á ári, sem var meira en ráðherrakaup.
Meðan á fyrsta Gúttóslagnum stóð æpti Jakob yfir múginn að svona nokkuð myndi ekki hafa nein áhrif á afstöðu sína til bótamála. Slagirnir höfðu hins vegar mikil áhrif á lögreglustjórann, sem fór að draga sér varalið úr bænum til að vernda fundina, líkt og hann hafði gert í baráttunni gegn verkföllum. Fór söfnun varaliðsins þannig fram að yfirlögregluþjónn gekk um bæinn með félagatal Sjálfstæðisflokksins og bað Sjálfstæðismenn og Heimdellinga að berjast með sér gegn verkfallsliðum og atvinnuleysingjum. Hjálparsveinarnir fengu þá kylfur, armbönd og búninga, allt eftir því hvað var til í skápum löggunnar.
Slagirnir á bæjarstjórnarfundunum héldu áfram og náðist sumarið 1932 loks að knýja fram atvinnubótavinnu. Atvinnulausum fjölgaði þó stöðugt og í nóvember hugðist bæjarstjórnin lækka kaupið í vinnunni til að standa undir henni. Það þurfti auðvitað að vera hinn peningaplokkarinn Jakob Möller, af öllum mönnum, sem mæltist fyrir lækkun bótanna fyrir fullu húsi atvinnuleysingja og aktívista. Órói varð að slagsmálum og lögreglustjórinn, Hermann Jónasson, kallaði til alla lögregluþjóna bæjarins. Sjálfur stakk hann hins vegar af uppá skrifstofu að gegna öðrum störfum.
Nær allt lögreglulið bæjarins lá óvígt eftir slaginn. Ríkisstjórninni brá í brún. Hún borgaði sem snarast það sem borgina vantaði uppí atvinnubótavinnuna. Síðan var tekið til hendinni. Ólafur Thors sagði að nú ætti “að gera út um það” hvort ríkið ætti “að standa eða falla.” Byssur, hjálmar og táragas voru keypt fyrir lögregluna, öll vopn fjarlægð úr búðum bæjarins, forsprakkar mótmælanna dæmdir til sekta og fangelsis og fjárframlög til lögreglunnar aukin sem nam 13 manna kaupi. Bæjarstjórnarfundirnir voru eftir þetta haldnir á efstu hæð Eimskipafélagshússins, svo betur mætti verja þá. Andvirði nokkurhundruð milljóna nútímakróna var eytt í stórt varalögreglulið til tveggja ára.
Baráttan gegn ríkislögreglunni
Afdrif þessa varaliðs undirstrika hversu sterk tök Alþýðusambandið og verkalýðsfélögin höfðu á Reykjavík gegnum kreppuárin. Varaliðið taldi hundrað manns í hlutavinnu, sem þýddi að varalöggur voru uppá aðra vinnu komnar á milli átaka. Þetta nýttu verkalýðsfélögin sér. Allir sem voru í varalögreglu voru reknir út, og þeim bannað að koma í stéttarfélag aftur fyrr en þeir höfðu borgað sekt og undirritað afsökunarbeiðni. Í dæmigerðu bréfi frá 1933 biðst Guðmundur Hjálmarsson forlátlega afsökunar, “og lofa því að viðlögðum drengskap mínum, að ganga ekki í þann flokk aftur”. Hann hafði enst í sveitinni í þrjár vikur.
Dagsbrún, forveri Eflingar, gekk skrefinu lengra. Ekki nóg með að fólk mætti ekki taka starf í varalögreglunni, það mátti ekki vinna með þeim heldur! Hvítliðar voru hraktir úr störfum hvar sem þeir sáust. Þetta knésetti varalögregluna á skömmum tíma.
Sjálfstæðismenn duttu ekki af baki aftur. Þeir sögðu fólk þurfa að skilja að það þýddi ekkert að mótmæla ríkisvaldinu. Það þurfti einfaldlega að efla lögregluliðið að fagmennsku og stærð. Þegar Hermann Jónasson varð forsætis- og dómsmálaráðherra nokkrum árum síðar réð hann nýjan lögreglustjóra sérstaklega til að aga íslenska lögreglumenn og hefja njósnir gegn óvinum ríkisins. Ríkislögregla var sett á fót sömuleiðis.
Ríkið ætlaði ekki að standa berskjaldað gegn kröfum verkalýðsins aftur.
Ísland í NATO
Þann 30. mars árið 1949 átti Alþingi að samþykkja inngöngu Íslands í NATO, hvað sem almenningur tautaði og raulaði. Stór hópur fólks hittist við Miðbæjarskólann og gekk á Austurvöll til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Bjarni Benediktsson, sem sat innandyra, var ekki á þeim buxunum. Hann hafði skipað nasistann Sigurjón Sigurðsson í embætti lögreglustjóra í Reykjavík tveimur árum fyrr, og Sigurjón stóð nú vaktina. Hann hafði hlerað síma aktívista og sósíalista um allan bæ og hafði safnað Sjálfstæðismönnum í varalið gegn kröfugöngunni.
Þingið hafnaði beiðninni um þjóðaratkvæðagreiðslu og mótmælendur tóku að grýta þinghúsið. Lögreglumenn og varalið streymdu út með kylfur á lofti. Slagsmál upphófust, táragasi var skotið yfir Austurvöll og mótmælendur flæmdir burt frá þinghúsinu. Ísland gekk í NATO fimm dögum síðar.
Þrátt fyrir þessa velheppnuðu vörn gegn lýðræðinu óttuðust yfirvöld frekari uppreisnir og stofnuðu sérstaka öryggisdeild lögreglunnar til að njósna um óvini sína í röðum almennings. Safnaði Sigurjón miklum gögnum um þá, en brenndi megnið af þeim í götóttri olíutunnu vorið 1976 þegar hann taldi sig eiga betra embætti í vændum.
Ómerkilega fólkið
Eftir Þjóðarsáttina 1990 kulnaði stéttabarátta í nokkra áratugi, en mótmælahreyfingar urðu helsta viðfangsefni lögreglunnar í staðinn. Til dæmis öfgafriðsælu Falun Gong iðkendurnir. Þeir höfðu margir flúið Kína vegna ofsókna, en nýttu sér tækifærið þegar kínverskir alráðar fóru í heimsóknir til ríkja þar sem er leyfilegt að mótmæla.
Uppúr aldamótum héldu þeir að þetta land gæti verið Ísland. Davíð Oddsson bauð í heimsókn mönnum á borð við Jiang Zemin og Luo Gan (sem höfðu fjöldamorð, nauðganir og pyntingar á samviskunni). Davíð vissi að þeim myndi sárna gagnrýni, svo hann ákvað að Ísland ætti ekki að vera mannréttindaland rétt á meðan. Fólkið var tekið í einangrunarbúðir í skóla í Njarðvík, sorterað eftir kynþætti í Leifsstöð og vísað úr flugvélum Icelandair á grundvelli njósnalista sem kínverska ríkið sendi á dómsmálaráðuneytið. Stjórnandi þessara aðgerða og forsvarsmaður var Stefán Eiríksson, seinna lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.
Þegar umhverfisverndarsinnar reyndu að stöðva með berum höndum smíði Kárahnjúkavirkjunar nokkrum árum síðar brást lögreglan jafnvel stífar við. Mótmælendurnir voru eltir af lögreglu, óeirðalögreglu og sérsveit um allar trissur, handteknir gegndarlaust, lögreglan laug að þeim og um þá og öllum útlendingum í hópnum var hótað með brottvísun, þar af einni konunni fyrir að “ógna grundvallargildum samfélagsins”.
Það er hægt – ekki gefast upp
Allar þær aðgerðir voru barnaleikur miðað við veturinn 2008-9, þar sem mótmælt var af slíkum móð að lögreglan var nærri því knésett. Yfirmenn lögreglunnar höfðu snemma tekið ákvörðunum “mjúka nálgun”, fyrst og fremst því þeir áttu ekki mannafla og tæki til annars. Óþreyja almennra lögreglumanna þennan vetur var þó greinileg. Einn lögreglumaður sagði um vörubílamótmælin að lögreglan hefði örugglega bara verið grýtt uppá “sportið” og fólk “hafi ekki fattað hvað var í gangi” þegar hún vildi rýma svæðið. Stuttu eftir búsáhaldabyltinguna sagði annar: “Ég sá þetta fyrir mér eins og uppeldi á óþekkum krakka. Honum var alltaf hleypt einu skrefi lengra eins og litlir prakkarar gera.”
Um “mjúku nálgunina” var þó nokkuð almenn sátt meðal ráðherra, ríkislögreglustjóra og lögregluforingjanna – en ekki alveg alls staðar. Stjórnandi sérsveitar vildi að mun harðar yrði gengið fram gegn mótmælendum. Sá stjórnandi var Jón F. Bjartmarz. Eftir búsó-mótmælin hóf hann máls á því á opinberum vettvangi að vopn yrðu sett í lögreglubíla. Haustið 2014 varði hann svo þá ákvörðun lögreglunnar að flytja inn í leyni, án opinberrar umræðu, hundruð vélbyssa frá Noregi. Það virtist ekki draga úr honum að sérsveit hans sætti þá sérlegri athugun fyrir að hafa nýverið drepið almennan borgara í fyrsta skipti.
Eftir ótrúlega klaufskt vafstur í fjölmiðlum, þar sem aldrei komst á hreint hver hafði gefið leyfi fyrir byssukaupunum og hvort (eða hvað) átti að borga fyrir þær, var ákveðið að skila þeim “við fyrsta hentugleika”. Hvort það hafi nokkurntímann gerst er ósvöruð spurning. Lokaorð Jóns F. Bjartmarz í þessari flausturslegu fjölmiðlarimmu voru: “Þörf lögreglunnar á vopnum er óbreytt og hefur í reynd aukist,” reynt yrði að afla þeirra með öðrum og, að því er virtist, löglegri leiðum.
Þetta kann að hljóma eins og villt brjálæði sérsveitarforingjans, en þetta er einfaldlega sú stefna sem lögreglan og ríkið hafa unnið eftir frá upphafi. Eins og Ólafur Thors sagði eftir Gúttóslaginn, það þarf að búa svo um hnútana “að ríkisvaldið gæti haft í fullu tré við sérhvert árása- og ofbeldislið í landinu”. Með því var hann að tala um atvinnulausu fátæklingana 1932, rétt eins og Jón Bjartmarz hefur verið að hugsa um fólkið sem missti allt í hruninu og gerðist “ofbeldislið” gegn heyrnardaufu og spilltu þingi.
Verstu “ofbeldisseggirnir” fengu líka verstu útreiðina. Í áður leynilegri samantekt Geirs Jóns um lögregluaðgerðir í hruninu er því lýst hvernig fylgst var með anarkistum “maður á mann” og hvernig ákveðið var að “kippa þeim úr hópnum” í mótmælum. Stjórnmálaskoðanir þeirra og persónuleg samskipti voru rakin og þau elt að degi til af lögreglunni í langan tíma eftir hrun. Geir Jón varð hins vegar frambjóðandi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi. Árið 2011 réðust lögreglumenn á frívakt á tvo af nímenningunum á Laugavegi. Þegar hótað var að hringja í lögregluna svöruðu árásarmennirnir með hinum ódauðlega frasa: Við erum lögreglan.
Þau eru lögreglan
Greiðasta leiðin til að stoppa valdníðslu lögreglumanna er að fulltrúar almennings hafi eftirlit með henni. Á Íslandi hefur þetta verið túlkað á snilldarlegan hátt: Að fulltrúar Sjálfstæðisflokksinsfari með þetta eftirlit. Sá flokkur hefur oftast og lengst haldið um beisli dómsmálaráðuneytisins. Samtök ríkja gegn spillingu, GRECO, bentu í fyrra á að lögregla á Íslandi væri sérstaklega veik gegn áhrifavaldi pólitíkusa. Þetta er óheppilegur kokteill.
Það má auðvitað benda hér sérstaklega á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og hvernig hún reyndi árið 2013 að slátra orðspori flóttamanns með lygum til að geta brottvísað honum. En hin áratugagamla kerfisbundna kúgun er hið raunverulega mein. Undanfarin ár hafa nokkrir hælisleitendur drepið sjálfa sig vegna þeirrar móttöku sem yfirvöld gáfu þeim – yfirvöldin sem nú setja á sig byssur og kenna mönnum eins og þeim um hvað er hættulegt að vera Íslendingur í dag.
Og þegar hælisleitendurnir opna munninn á fundi Sjálfstæðismanna í Kópavogi, því enginn hlustaði á þá annarsstaðar, þá má einfaldlega segja þeim að setjast og þegja, því Sjálfstæðismennirnir eru líka lögreglan.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur um áratugaskeið verið breiðfylking sem rúmar íhaldsmenn, verslunarfólk og þjóðernissinna. En langflestir af afgangi þeirra sem lifa á Íslandi hafa einhverntímann verið í „árása- og ofbeldisliðinu“ sem Ólafur Thors sagði lögregluna vernda ríkið gegn. Í þá daga voru það svo til allir verkamenn. Hrunveturinn voru það manneskjur á borð við Sólveigu Önnu Jónsdóttur, ein nímenninganna sem áttu að fara í lífstíðarfangelsi fyrir mótmæli. Nú er hún formaður stéttarfélagsins sem knésetti varalið lögreglunnar á fjórða áratugnum, félags sem forðum daga gekk út á uppreisn gegn valdi og lögníðslu. Á sama tíma rísa hælisleitendur upp gegn kúgun Útlendingastofnunar og taka til máls gegn bákninu. Öreigar landsins eru að ræskja sig. Það er að koma sumar.
_______________________________
Um heimildir og lesefni:
-
Afmælisbæklingur lögreglunnar um eigin sögu er stutt og einföld yfirferð um þróun löggæslu frá alræði sýslumanna til ofríkis stóriðjunnar og þar frameftir götunum.
-
Aðgengilegasta heimild um upphafsár lögreglu í Reykjavík, stofnun ríkislögreglunnar og viðhorf stjórnmálamanna til hennar er ritgerðin Tengsl lögreglu og ríkisvalds á Íslandi 1921-1935 og stofnun íslenskrar ríkislögreglu. Aðrar heimildir um erjur verkamanna og lögreglu í kreppunni eru bækurnar Kommúnistar á Íslandi eftir Hannes H. Gissurarson og bæklingur Hermanns Jónassonar með tillögum að eflingu lögreglunnar í kjölfar Gúttóslagsins. Alþingistíðindi þessara ára eru líka fróðleg og viðamikil lesning.
-
Skemmtileg lítil lofgjörð um upphaf lögreglunnar í Reykjavík, sem gefur forvitnilegar svipmyndir af fyrstu mönnunum sem unnu hér við löggæslu, er Lögreglan í Reykjavík eftir Guðbrand Jónsson, útgefin 1938.
-
Ítarleg heimild um hreinsun Íslands af gyðingum fyrir stríð undir stjórn Hermanns Jónassonar og agameistara lögreglunnar, Agnars Kofoed-Hansen, er MA-ritgerðin Útlendingar og íslenskt samfélag 1900-1940 eftir Snorra G. Bergsson. Hér er stutt saga þess tíma í bloggfærslu.
-
Frekara lesefni um hina ótrúlegu meðferð sem Falun Gong liðar fengu við komuna til Íslands 2002 er að finna í fræðiritinu Arctic host, icy visit eftir Herman Salton. Samantekt hér, þingsályktunartillaga með ítarlegum upplýsingum hér.
-
Viðhorf lögreglumanna til mótmælenda í búsó má meðal annars finna í viðtalsritgerð aðstandanda lögreglumanns, Að baki skjaldborgarinnar. Saving Iceland hélt uppi viðamikilli greiningu og fréttamennsku á heimasíðunni sinni, meðal annars um njósnir, eftirför og áreiti lögreglunnar.
-
Viðbrögðum ASÍ og Dagsbrúnar við stofnun varaliðs lögreglunnar 1932 eru gerð góð skil í bók Þorleifs Friðrikssonar, Dagar vinnu og vona: Saga Verkamannafélagsins Dagsbrúnar í kreppu og köldu stríði.
Athugasemdir