„Málþóf á ekkert skylt við málfrelsi, ekki frekar en nauðgun við kynfrelsi,“ sagði Helgi Bernóduson, skrifstofustjóri Alþingis, í ræðu sem hann hélt á hátíð Jóns Sigurðssonar sem haldin var í Jónshúsi í Kaupmannahöfn í gær.
Ummælin hafa vakið hörð viðbrögð, en Hildur Lilliendahl sagði þau til marks um skilningsleysi á reynsluheimi kvenna.
Þá hefur einnig verið gagnrýnt að engin kona var á meðal ræðumanna. Þórhildur Sunna, þingmaður Pírata, vakti athygli á því hver karllæg dagskrá hátíðarinnar væri og sagði: „Þetta er frekar leiðinlegt trend hjá forseta og skrifstofu forseta, sem ítrekað verða uppvís af því að hafa konur ekki með í sinni dagskrá.“ Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, svaraði því til að það væri hrein tilviljun. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu.
Í ræðu Helga talaði hann um málþóf í þingsölum Alþingis sem draug bæri að kveða niður með því að „rota hann í einu höggi“. Helgi segist hafa þurft áratugum saman að sitja yfir þeim draugagangi sem málþófið er. Hann telur málþóf vera yfirgang sem er „niðurlægjandi fyrir þingmenn og hina virðulegu stofnun, tilraun til að lama þingið, óbærilegur“.
Ummælin hafa vakið athygli á samfélagsmiðlum en Hildur Lilliendahl ritar um þau færslu á facebook:
„Þetta er niðurlægjandi og ógeðslegt“
„Helgi Bernódusson var einn af körlunum sem þarna komu fram. Og honum þótti við hæfi, í miðju þessu pulsupartíi, að láta þessi orð falla í ræðu sinni: „Málþóf á ekkert skylt við málfrelsi, ekki frekar en nauðgun við kynfrelsi.“
Mig langar ekki að samfélaginu mínu sé stýrt af körlum sem hafa nægilega takmarkaðan skilning á reynsluheimi kvenna til þess að þeir finni sig í því að líkja nauðgunum við málþóf. Þetta er niðurlægjandi og ógeðslegt.“
Sóley Tómasdóttir deildi einnig fréttum af ræðunni á Twitter þar sem hún telur Helga tala um nauðganir af léttúð:
„Halló Helgi. 1970 var að hringja og vill fá orðræðuna sína til baka. Þá þótti nefnilega í lagi að tala um nauðganir af léttúð.“
Athugasemdir