Héraðsdómarar á Íslandi voru látnir undirrita drengskaparheit allt til ársins 2010 þar sem þeir hétu því að vera stjórnvöldum landsins trúir og hlýðnir. 17 dómarar sem nú starfa við héraðsdómstólana hafa svarið slíkan eið og telur Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir dómsmálaráðherra óþarft að leysa þá undan honum.
Þrígreining ríkisvalds, sjálfstæði dómstóla og eftirlitshlutverk þeirra gagnvart öðrum valdþáttum er á meðal grundvallarreglna íslenskrar stjórnskipunar. Dómarar skera úr um hvort athafnir stjórnvalda samrýmist lögum og hvort lög sem Alþingi setur standist stjórnarskrá. Þá dæma þeir í refsimálum sem framkvæmdarvaldið höfðar á hendur sakborningum. Hin sérstaka staða dómara innan stjórnkerfisins hefur verið talin kalla á að þeir njóti hárra tekna, eða eins og kjararáð orðaði það í launaákvörðun árið 2015, „að kjör dómara verði ávallt meðal hinna bestu sem ríkisvaldið getur veitt“.
Þrátt fyrir þetta liggur nú fyrir að allt til ársins 2010 voru nýskipaðir héraðsdómarar látnir undirrita drengskaparheit þar sem þeir skuldbundu sig skriflega til að hlýða stjórnvöldum, handhöfum framkvæmdarvaldsins. Þetta kemur fram í svörum dómsmálaráðherra við fyrirspurn Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata.
Hollustuskylda hæstaréttardómara afnumin fyrr
Orðrétt hljóðaði drengskaparheitið svo: „Ég undirrituð/undirritaður, sem skipuð/skipaður hefur verið héraðsdómari, heiti því að vera stjórnvöldum landsins trú/r og hlýðin/n, halda stjórnskipunarlög ríkisins og gegna af árvekni og samviskusemi skyldum þeim, er starf mitt og skipunarbréf leggja mér á herðar.“
Hæstaréttardómarar undirrituðu sams konar eið til ársins 1994, en þá var hollustuskyldan gagnvart stjórnvöldum felld brott. Í dag eru drengskaparheit héraðsdómara, hæstaréttardómara og landsréttardómara samhljóða og kveða einungis á um að þeir fylgi stjórnarskrá og gegni skyldum sínum af árvekni og samviskusemi.
Athugasemdir