Tæp 68 prósent aðspurðra eru ánægðir með frammistöðu Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Aðeins 10 prósent segjast óánægðir með hana.
Enginn annar ráðherra nýtur viðlíka vinsælda, en næst á eftir Lilju kemur Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra dómsmála, ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunar. Segjast 43 prósent ánægð með störf hennar.
Fleiri segjast ánægð en óánægð með störf fimm ráðherra, þeirra Lilju og Þórdísar, Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Sigríður Andersen er óvinsælasti ráðherrann samkvæmt könnuninni, sem var tekin skömmu eftir að hún sagði af sér sem dómsmálaráðherra í kjölfar niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu. Tæp 14 prósent sögðust ánægð með frammistöðu hennar, en tæp 66 prósent óánægð.
Þá er meira en helmingur aðspurðra óánægður með frammistöðu Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, en aðeins fjórðungur ánægður.
„Kynjamunur er á viðhorfi til fjögurra ráðherra,“ segir í kynningu Maskínu. „Karlar eru ánægðari með frammistöðu Bjarna Benediktssonar en konur en konur eru ánægðari með frammistöðu Svandísar Svavarsdóttur, Kristjáns Þórs Júlíussonar og Guðmundar Inga Guðbrandssonar.“
Þá er almennt meiri ánægja með störf ráðherra nú en í lok árs 2018. „Háskólamenntaðir eru ánægðari en aðrir með störf Katrínar Jakobsdóttur, Lilju Daggar Alfreðsdóttur og Guðmundar Inga Guðbrandssonar. Jafnframt eru háskólamenntaðir óánægðari en aðrir með störf Sigríðar Á. Andersen.“
Svarendur voru 848 talsins og fór könnunin fram á netinu dagana 15. til 27. mars.
Athugasemdir