Stundum ber kappið fegurðina ofurliði þegar kemur að því að verja málstað. Stundum eru hugsjónir eða hugmyndir teknar herfangi af hópum fólks sem er svo mikið niðri fyrir að jafnvel bestu hugmyndir snúast upp í andhverfu sína.
Þá veit maður ekki hvernig maður á að snúa í tilverunni.
Þessa dagana skiptist íslenska þjóðin upp í tvo hópa, rasista og landráðamenn, og af virðingu fyrir einstaklingsfrelsinu er okkur heimskum almúganum leyft náðarsamlegast að velja hvorum hópnum við viljum tilheyra.
Þessu er öllu saman pakkað inn í laufléttar neytendaumbúðir til að auðvelda okkur valið og hér skal gripið niður í leiðbeiningarnar.
Landráðamenn vilja flytja inn hrátt kjöt og skola því niður með léttvíni sem þeir kaupa í matvörubúðum. Þeir hafa komið til Tene og London og Parísar, New York og Bene og vita hvernig þetta er í útlöndum. Þeir láta ekki auðveldlega plata sig.
Á sama tíma skála þeir fyrir róttækum aðgerðum í loftslagsmálum.
Rasistar eru sammála um að banna innflutning á kjöti en vilja fljúga á sama tíma til Kína með lambaskrokka sem ríkið er búið að niðurgreiða. Þeim finnst lítill fórnarkostnaður að greiða meira fyrir matinn en aðrar þjóðir á byggðu bóli. Til að leggja áherslu á sjálfstæði sitt hafa þeir líka ákveðið að leyfa hvalveiðar og helst í nágrenni hvalaskoðunarbáta sem eru fullir af túristum að skoða villta íslenska náttúru. Allt þetta til að fóðra nokkra frystigáma í ókunnum hafnarborgum með frosnu hvalkjöti enda láta sannir víkingar ekki kúga sig. Þeir eru margir hverjir sáttir við að auðmannaklíka hafi að mestu slegið eign sinni á fiskinn í landhelgi okkar og braski með hana að vild en eru að ganga af göflunum yfir því að orkan fari sömu leið.
Þeir sem ekki leggja blessun sína yfir þetta eru landráðamenn.
Nú hafa rasistar og landráðamenn fundið bein sem báðir vilja naga, nefnilega orkupakka 3. Annar helmingurinn á pantað far til helvítis ef hann verður samþykktur en hinn ef hann verður ekki samþykktur.
Sauðsvartur almúginn á því um tvennt að velja, að fara til helvítis með þjóðrembunum og æpa landráð, eða fara til helvítis með landráðamönnunum sem segja okkkur að óttast eigi. Framhaldið sé í höndum Alþingis sem ætli að samþykkja fyrirvara við samninginn. Við vitum öll að þjóðin ber enga virðingu fyrir þinginu og treystir þingmönnum ekki fyrir horn. Og það er ástæða fyrir því.
Landráðamenn eru óvanalega heppnir með andstæðinga sína, rasista sem tala yfirleitt á innsoginu eins og við séum öll að farast á næsta flóði. Það er bara um tvennt að velja, að grípa fyrir eyrun eða skolast burtu með flóðinu. Flestir grípa fyrir eyrun því það er enginn samræðugrundvöllur í þessu skringilega bandalagi.
Þar haldast hönd í hönd menn sem hafa málefnalegar áhyggjur af einkavæðingu og markaðsbraski með orku, náttúruverndarsinnar og þeir sem hafa hæst og skeyta ekkert um náttúruvernd og eru almennt á móti því að orkufyrirtækin séu í samfélagslegri eigu en telja það óskoraðan fæðingarrétt íslenskra auðmanna að einoka, kúga og græða á samborgurum sínum og allt annað séu landráð.
Eitt voru rasistar og landráðamenn þó að mestu sammála um. Það var að svíkja íslensku þjóðina um nýju stjórnarskrána sem hún ákvað að setja eftir hrun, þar átti meðal annars að tryggja sameign okkar á auðlindunum.
Landráðamennirnir eru meira hip og kúl en rasistarnir, þeir hafa sér helgisvip frjálslyndis og tala til okkar í sama yfirlætistón og þegar HS Orka var einkavædd og síðar seld erlendum auðmanni í gegnum skúffufyrirtæki í Svíþjóð. Þá var því haldið fram að áhyggjur af eignarhaldinu væri fjandskapur í garð útlendinga og þjóðernishyggja. Þeir benda stöðugt á að orkupakki 3 sé meinlaus og feli ekki í sér sæstreng sem tengi okkur við orkumarkað Evrópu og stórhækki verðið til neytenda hér. Alþingi ætlar jú að hafa fyrirvara við þann hluta samningsins sem kveður á um að hver sem er, hérlendis eða erlendis, geti lagt sæstreng frá Íslandi og braskað með orkuna.
Samt viðurkenna þeir að þeim finnist sæstrengur mjög sniðug hugmynd og það ætti að leggja hann strax. Við hin botnum ekki í því hvaðan orkan í slíkan streng á að koma, hún er að miklu leyti bundin í stóriðju langt inn í framtíðina. Til að slíkur strengur yrði hagkvæmur þyrfti að ráðast í virkjunarframkvæmdir sem engin sátt er um og þar eru margir þegar búnir að raða sér á jötuna.
Við vitum hins vegar af biturri reynslu að Alþingi verður engin fyrirstaða þegar upp er staðið.
Það er erfitt að velja hvorum hópnum maður vill helst verða samferða til helvítis. Orkupakki 3 hefur megnað að draga fram kunnuglegar átakalínur í samfélaginu. Við vorum þarna fyrir hrun. Í öðrum hópnum voru þeir sem töldu að bara sumir auðmenn ættu að fá að græða, í hinum hópnum þeir sem töldu að allir auðmenn ættu að fá að græða. Almúginn fékk að græða svolítið til málamynda og keypti sér flatskjá og bíl og hús á ódýrum lánum. Síðan var allt tapið skrifað á hann þegar spilaborgin hrundi.
Og svo er kannski það alvarlegasta sem þetta mál dregur fram. Við Íslendingar höfðum hrósað okkur af því að vera ekki eldsmatur popúlista eins og frændþjóðir okkar á öðrum Norðurlöndum en þessi litli orkupakki hefur skapað undiröldu í samfélaginu sem gæti breytt landslaginu svo um munar. Þar er uppskriftin alveg ómenguð, annars vegar upphrópanir, rækilega sósaðar af þjóðrembu og yfirlætistón sjálfskipaðrar elítu sem virkar eins og olía á eldinn.
Sannleikurinn er einhvers staðar þarna mitt á milli.
Athugasemdir