Lýðræði á það til að valda okkur vonbrigðum. Margir kannast vafalaust við að skilja ekki hvernig úrslit kosninga gátu farið á þann veg sem þau fóru. Ætluðu ekki allir í kringum mann að kjósa eins og maður sjálfur? Hvaða fólk er þetta sem mætti á kjörstað? Svo getur það verið ákaflega skrítið hvernig mál sem virðast ætla að valda straumhvörfum í stjórnmálalífi landsins eiga það til að deyja niður jafn skjótt og þau risu upp. Kjörnir fulltrúar sem virðast hljóta að þurfa að segja af sér sitja sem fastast í gegnum mótmæli og málefnalega umræðu. Og styrkja jafnvel á endanum stöðu sína þar sem tiltrúin í harðasta kjarna stuðningsmanna jókst bara í gegnum orrahríðina. Allt þetta fær okkur til að finnast eins og valdið sé komið langt frá okkur, við förum að sjá ofsjónum yfir valdi kjörinna fulltrúa (eða jafnvel embættismanna) og viljum fá hluta af stjórnartaumunum til baka.
Þetta eru kannski ekki einu ástæðurnar fyrir því að lýðræði á í vanda í samtímanum – vandi sem er býsna víðtækur ef marka má þann fjölda bóka sem gefinn hefur verið út um efnið á undanförnum árum um allan heim. Því er kennt um mörg vandamál samfélagsins og leitað er leiða til að umbylta því fyrirkomulagi sem við þekkjum. Í lýðræðisgagnrýni er bæði vísað til beins orsakasamhengis þar sem lýðræði er kennt um það sem úrskeiðis hefur farið og óbeins þar sem það er gagnrýnt fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir ákveðna hluti. Óánægja fólks með hagrænan veruleika sinn er þar mjög áberandi. Frjálslyndu lýðræði er kennt um misskiptingu auðs í samtímanum. Hraðar samfélagsbreytingar eru einnig nefndar þar sem hefðbundin gildi og viðmið hafa skolast til. Aukin alþjóðavæðing og fjölmenning eru í margra augum neikvæðar afleiðingar lýðræðislegra stjórnarhátta. Að lokum má svo nefna að fjölmargar birtingarmyndir lýðskrums og lýðhyggju eru að margra áliti óhjákvæmileg afleiðing lýðræðis og þar af leiðandi ástæða til að leita annars konar stjórnarfyrirkomulags.
Snýst lýðræði um kosningar?
Allt eru þetta mikilvæg umræðuefni. En það er önnur spurning hvort slíkar áhyggjur virki vel sem rök gegn mikilvægi þess að hlúa að hefðbundnum lýðræðislegum stjórnarháttum og gegn því að við eigum að leitast við að styrkja lýðræðislega innviði. Eitt af því sem mér finnst umræðan hafa einkennst af er hvernig lýðræði er samsamað kosningum. Tillögur í umræðunni snúast næstum því alltaf um hvernig við ættum að breyta kosningafyrirkomulaginu. Og tónninn er oftar en ekki sá að eitthvað djúpstætt sé að fulltrúalýðræðinu. Flokkakerfið sé úr sér gengið og að valdið þurfi að komast úr bakherbergjum og aftur til fólksins.
„Íslenskt lýðræði byggist á svo mörgum öðrum þáttum en pólitísku landslagi“
Það kann að vera rétt að stjórnmálaflokkar eigi í vanda. Fulltrúalýðræði byggist á öflugu flokksstarfi þar sem stefnumótun fer fram og vissulega hefur það margvíslegar afleiðingar ef starfið er í molum. Þetta sést ágætlega í íslensku samfélagi. En íslenskt lýðræði byggist á svo mörgum öðrum þáttum en pólitísku landslagi, persónulegum metnaði einstakra stjórnmálamanna og úrslitum kosninga. Spurningin sem vaknar er hvort við eigum það til að leggja of takmarkaðan skilning í lýðræðishugtakið og hlúum þar af leiðandi ekki að öllu því sem við ættum að einbeita okkur að.
Nýverið kom út bókin Íslenskt lýðræði, starfsvenjur, gildi og skilningur í ritstjórn minnar og Vilhjálms Árnasonar. Það sem ég skrifa hér eru hvorki orð meðritstjóra míns eða meðhöfunda. Það eina sem vakir fyrir mér er að skoða sum þau stef sem komu fram í huga mér við vinnu bókarinnar til að velta því upp hvað mér finnast vera næstu verkefni íslensks lýðræðis. Hvernig getum við styrkt það og skerpt án þess að umbylta? Hvaða þræðir eru það sem okkur ber að einbeita okkur að? Hver eru áhyggjuefnin?
Vettvangur lýðræðis
Fyrst er gott að skýra hvað átt er við með að skilningur margra á lýðræði sé of kosningamiðaður. Lýðræði er leið til að haga sameiginlegum málum okkar á þann veg að einn eða fáir einstaklingar geti ekki tekið gerræðislegar ákvarðanir fyrir hönd almennings. Kosningar eru vissulega mikilvægur hluti þessa en þó verður að hafa í huga að það þarf stöðugt að taka mikilvægar ákvarðanir í flóknum samfélögum samtímans. Fulltrúalýðræði og þrískipting ríkisvalds eru meðal þeirra leiða sem flest lýðræðisríki hafa valið sér til að mæta þeirri áskorun. Kosningar snúast þá ekki um einstök mál heldur um ólíkar stefnur sem ættu að segja til um hvernig ákvarðanir verða teknar í framhaldinu. Hér er mikilvægt að hafa í huga að svið stjórnmálanna er einungis hluti hins lýðræðislega vettvangs. Aðrir hlutar eru til dæmis öflugt menntakerfi og virkir fjölmiðlar. Raunar er lýðræði meira en tiltekinn vettvangur. Jafn hversdagslegur (en mögulega sjaldgæfur) hlutur og tillitssemi er birtingarmynd lýðræðis eins og raunar allar tilraunir til að finna leiðir til að koma til móts við ólíka hagsmuni.
„Eitt helsta vandamál íslensks lýðræðis er sú ríka tilhneiging í samfélaginu að standa á rétti sínum og gefa ekkert eftir nema fá eitthvað í staðinn“
Eitt helsta vandamál íslensks lýðræðis er sú ríka tilhneiging í samfélaginu að standa á rétti sínum og gefa ekkert eftir nema fá eitthvað í staðinn. Líkingarmál þeirra sem hneigjast til svokallaðs rökræðumiðaðs lýðræðis er að lýðræðissamfélag sé eins og gatnamót þar sem tvær greinar sameinast. Væntanlega á önnur akstursgreinin réttinn í einhverjum skilningi en við vitum að umferðin gengur best fyrir sig ef einhvers konar fléttufyrirkomulag kemst á þar sem fólk gefur séns með ákveðnu millibili. Í sumum samfélögum gengur slíkt vel fyrir sig og er aldrei vandamál, í öðrum á fólk erfiðara með slíkt. Mig grunar að dýpt lýðræðisvanda samfélaga speglist nokkuð í þessu.
Þetta er allt saman gott og blessað kann einhver að segja en hvað hefur þetta að segja fyrir stjórnmálalífið og kosningar sem hlýtur eftir sem áður að vera nokkurs konar kjarni hins lýðræðislega gangverks? Þar held ég raunar að hið sama eigi einmitt við. Við skulum taka sem dæmi nýleg mál þar sem kallað hefur verið eftir afsögnum kjörinna fulltrúa. Viðbrögðin þar sem fulltrúarnir hafa ekki hugleitt afsögn og sjá ekki ástæðu til þess hafa einkennst af tvennu. Annars vegar er að þeim beri ekki að segja af sér samkvæmt lögum. Þeir hafi, með öðrum orðum, rétt til þess að sitja áfram fram að næstu kosningum. Seinna atriðið sem ber fyrir augu er sú hugmynd að enn beri einhver traust til þeirra og að þeim hafi borist stuðningur úr innsta hring. En það felast nú varla mikil tíðindi í þessu seinna atriði. Maður getur alltaf fundið einhvern sem ber traust til manns til alls konar verka. Börnunum mínum finnst ég örugglega vera trúverðugur kandídat til alls milli himins og jarðar – en sem ég ætti að láta vera. Að einhver beri traust til manns þýðir ekki að maður sé rétti aðilinn til að leysa verk eða hlutverk að hendi. Spurningin er hvort maður býr almennt yfir trúverðugleika á hinum lýðræðislega vettvangi.
„Markmiðið með afsögn er að öðlast og viðhalda trúverðugleika í augum almennings en ekki í augum þröngs hóps“
Nú er það svo að afsagnir kjörinna fulltrúa mega ekki vera markmið í sjálfu sér. Þær kunna jú að vera það í pólitískum hráskinnaleik, og í því ljósi verður að skoða sum áköll um afsagnir. Markmiðið á ekki að vera að koma einum eða neinum frá heldur miklu fremur að tryggja að í orðum og athöfnum kjörinna fulltrúa komi fram skilningur á lýðræðislegu hlutverki sínu. Markmiðið með afsögn er að öðlast og viðhalda trúverðugleika í augum almennings en ekki í augum þröngs hóps. Hlutverk kjörinna fulltrúa snýst eingöngu um að sinna þörfum og væntingum samfélagsins. Í því samhengi skiptir persóna hins kjörna fulltrúa í raun engu máli. Hann kann að hafa rétt til að sitja áfram en í augum flestra eru ríkir lýðræðislegir hagsmunir fólgnir í því að stíga til hliðar.
Lýðræði sem tillitssemi
Hver veit nema það hljómi í besta falli kjánalega í eyrum einhvers að gefa í skyn að lýðræði geti styrkst við meiri tillitssemi, hógværð og auðmýkt fyrir hlutverkinu – að frekja og yfirgangur séu merki um lýðræðislegar blindgötur sem leiða samfélög frá lausnum og til forherðingar. Ég held hins vegar að það sé hægt að túlka einn mikilverðasta skilning á Vesturlöndum á lýðræði á þennan veg – þann sem ég kallaði „rökræðumiðaðan“ hér að framan. Vissulega er of flókið í stuttri grein að gera fullnægjandi grein fyrir því hvernig þetta smellur allt saman þannig að örfá orð verða að duga í bili.
„Vandi lýðræðis á Vesturlöndum – og þar með talið á Íslandi – felst í skorti á trausti á þeim sem fara með völdin“
Vandi lýðræðis á Vesturlöndum – og þar með talið á Íslandi – felst í skorti á trausti á þeim sem fara með völdin. Traust verður til við að einhver virðist trúverðugur til að leysa ákveðin verkefni af hendi, verkefni sem felast í tilteknu hlutverki. Með kjörnum fulltrúum og stjórnsýslu höfum við skapað vettvang til að gæta almannahagsmuna þar sem bæði stefnumótun fer fram sem og lýðræðisleg ákvarðanataka. Mér virðist sem vandamálið sé að fólki finnist þessi vettvangur ekki vera lýðræðislegur.
En hvað merkir „að gæta almannahagsmuna“? Hér kemur tengingin við það sem rakið var hér að framan. Almannahagsmunir eru ekki tilteknir hagsmunir, eitthvað sem við getum borið kennsl á. Það er aðeins í undantekningartilfellum sem við blasir og auðvelt er að skilgreina hvaða hagsmunir koma öllum vel. Að gæta almannahagsmuna felur það í sér að þeir ólíku hagsmunir sem alltaf eru uppi í frjálslyndu og opnu samfélagi fái allir að koma fram í opinni umræðu. Sú umræða verður svo að einkennast af skilningi á því að ólíkir aðilar verði að gefa eftir af sínum ítrustu kröfum þegar kemur að stefnumótun og ákvarðanatöku. Það skapar lýðræðisvanda að líta svo á að hin hliðin á málinu megi ekki komast að.
Hvernig getum við þá endurreist íslenskt lýðræði, hvað þarf að einkenna hina nýju útgáfu? Að mínu mati liggur lausnin ekki í því að fleiri eða færri fái kosningarétt eða kosið sé oftar eða sjaldnar (hvort sem það er um málefni eða fulltrúa). Lausnin liggur í því hvernig við nálgumst þau sameiginlegu mál sem við þurfum að leita lausna á. Til að mynda þurfum við að temja okkur þá hugsun að það sé ólýðræðislegt að draga upp skrípamyndir af andstæðum skoðunum. Vissulega er það sameiginlegt verkefni okkar að bera kennsl á þá hagsmuni og þær skoðanir sem eiga svo sannarlega ekki heima í samfélagi okkar. En hið lýðræðislega verkefni er svo sannarlega ekki að gera öll þau sem eru ósammála okkur eða hafa annan bakgrunn tortryggileg. Flest erum við á sama báti þótt lífsskoðanir kunna að vera ólíkar. Hvort sem við erum þeirrar skoðunar að okkur beri að nýta eða njóta náttúru, hvort sem hlutskipti okkar er að leita að eða skapa atvinnu, er tillit til andstæðra sjónarmiða og leit að málefnalegri niðurstöðu það eina sem stendur okkur til boða ef lýðræði á að ná sér á strik að nýju.
Fleiri verkefni bíða okkar sem tengjast því að lýðræði er eitthvað sem við þurfum öll að leggja stund á milli kosninga og í öllum okkar störfum. Verkefnið er að kunna að fara með réttindi okkar í samfélagi sem við viljum að byggi á samtryggingu og að við kunnum að fara með takmarkaða ábyrgð í samfélagi sem býður upp á samábyrgð. Þessi tvö atriði eru kjarni lýðræðislegrar samveru og verða ekki að veruleika nema tvennt komi til: Að við gerum okkur grein fyrir samfélagslegum skyldum okkar (og göngumst við þeim) og að við sættum okkur við að lýðræði leiðir til þess að við getum ekki fengið öllu því framgengt sem við viljum.
Athugasemdir