Forseti Landsréttar skiptir sér ekki af því að dómari við réttinn hafi sinnt launaðri hagsmunagæslu fyrir íslenska ríkið án þess að greina nefnd um dómarastörf frá því fyrirfram. „Verkefni því sem þú vísar til lauk áður en Davíð Þór Björgvinsson dómari hóf störf við réttinn 1. október 2018“, segir Björn L. Bergsson, skrifstofustjóri Landsréttar, í svari við fyrirspurn Stundarinnar.
Blaðið greindi frá því þann 22. mars síðastliðinn að Davíð Þór Björgvinsson dómari hefði fengið 1,5 milljónir fyrir lögfræðiráðgjöf sem hann veitti ríkislögmanni við ritun greinargerðar til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna Landsréttarmálsins. Á þeim tíma hafði Davíð Þór þegar verið skipaður dómari við Landsrétt. Samkvæmt 6. gr. reglna um aukastörf dómara er dómurum óheimilt að taka að sér málflutningsstörf sem og önnur hefðbundin lögmannsstörf ef endurgjald kemur fyrir. Þá hefur nefnd um dómarastörf túlkað dómstólalög með þeim hætti að „almennt verð[i] að telja að lögfræðileg ráðgjöf gegn endurgjaldi sé ekki heimil dómara“. Þetta eigi við allt frá þeim tíma sem dómari hefur verið skipaður í embætti.
„Það er rétt að nefnd um dómarastörf lítur svo á að 45. gr. dómstólalaga nr. 50/2016 og reglur nr. 1165/2017 eigi almennt við frá því að dómari er skipaður í embætti, til dæmis þó að hann eða hún sé í námsleyfi,“ segir Hjördís Hákonardóttir, formaður nefndar um dómarastörf, í svari við fyrirspurn Stundarinnar um málið. „Þetta kann þó að vera túlkunaratriði í hverju tilviki fyrir sig.“
Aðspurð hvort það sé æskilegt að skipaðir dómarar sinni öðru launuðu starfi fyrir ríkið segir Hjördís að nefnd um dómarastörf telji það almennt ekki æskilegt. „En við setningu laga nr. 50/2016 mildaði þingið afstöðu sína til þessa atriðis, frá því sem verið hafði í frumvarpi, og eru slík störf því heimil að vissu marki, t.d. vegna starfa við úrskurðarnefndir. Dómarar hafa lengi gegnt ýmsum nefndarstörfum á vegum framkvæmdavaldsins og eru skoðanir skiptar um ágæti þess. Nefndin lítur svo á að nú sé um nokkurs konar millibilsástand að ræða, á meðan dómarar ljúka þeim störfum sem þeir höfðu skipun til og heimild til að sinna þegar hin nýju dómstólalög tóku gildi, en að sú heimild verði endurskoðuð og túlkuð í ljósi laganna að þeim tíma liðnum.“
Athugasemdir