Skúli Mogensen, stofandi og eigandi Wow air, fundaði með starfsfólki í höfuðstöðvum flugfélagsins í morgun eftir að rekstur flugfélagsins var skyndilega stöðvaður. Uppnám er í höfuðstöðvum Wow air. Starfsfólk hefur í morgun yfirgefið höfuðstöðvarnar, sumt hvert grátandi.
„Mér þykir ákaflega leitt að setja ykkur í þessa stöðu,“ sagði Skúli í morgun í bréfi til starfsfólks. „Ég mun aldrei geta fyrirgefið sjálfum mér fyrir að hafa ekki gripið til aðgerða fyrr þar sem það er augljóst að WOW var ótrúlegt flugfélag og við vorum á réttri leið að gera frábæra hluti aftur,“ skrifaði hann.
WOW air tapaði um 22 milljörðum króna á síðasta ári. Flugferðir voru til sölu hjá félaginu allt þar til í morgun, þegar leigusalar gerðu vélar Wow air upptækar í Bandaríkjunum og Kanada. Það virðist hafa komið mörgum í opna skjöldu. Allt að fjögur þúsund manns, sem keyptu miða með WOW, eru strandaglópar vegna stöðvunar félagsins.
Starfsfólk ósátt við nærveru fjölmiðlafólks
Starfsfólk lýsti óánægju sinni með nærveru fjölmiðla í höfuðstöðvunum í morgun. „Hvað er að?“ spurði starfsmaður fjölmiðlafólk áður en hún lokaði dyrunum. Mikil samstaða hefur verið hjá starfsfólkinu í aðdragandanum að rekstrarstöðvun félagsins. Að sögn Skúla Mogensen bauðst starfsfólk til þess að gefa hluta launa sinna til að tryggja áframhaldandi rekstur. Þá sendi stéttarfélag flugmanna WOW air frá sér beiðni til Blaðamannafélags Íslands um að rannsókn yrði hafin á blaðamönnum, vegna „óvæginnar umfjöllunar íslenskra fréttamiðla“ um stöðu WOW air.
„Þetta er bara hræðilegt“
„Ég held ég þurfi smá tíma til að melta þetta. Þetta er bara hræðilegt,“ sagði einn starfsmaðurinn, Anna Gréta Oddsdóttir.
Bjartsýni hefur einkennt viðmót Skúla Mogensen undanfarna daga. Í viðtali við Vísi á þriðjudag kom hann fram og greindi frá því að staðan væri góð. „Bókanir inn á apríl og annan ársfjórðung hafa líka gengið vel. Ég held að það sýni þann mikla stuðning og traust sem við höfum notið,“ sagði Skúli. „Ég segi með miklu öryggi, við vitum nákvæmlega hvað við erum að gera og hvert við erum að fara og við sjáum árangurinn nú þegar skila sér.“
Ekki var unnt að fá viðtal við forstjóra félagsins í morgun. Skúli hafði opinberlega sagst vera „mjög ánægður“ og bjartsýnn allt fram að skyndilegri stöðvun rekstrarins. Í bréfi sínu í morgun sagðist hann þakklátur starfsfólki og farþegum.
„Síðast en ekki síst vil ég þakka ykkur, mínir kæru vinir, fyrir stórkostlegasta ferðalag lífs míns. Við munum alltaf vera WOW og ég mun aldrei gleyma ykkur. Ég vona og treysti því að þið munið aldrei gleyma WOW-andanum og að þið takið hann með ykkur í ykkar næsta ævintýri. Takk.“
Athugasemdir