Eliza Reid forsetafrú heimsótti moskuna í Reykjavík 23.mars síðastliðinn og segir sjálfsagt að sýna íslömskum vinum okkar samstöðu og stuðning.
Eliza fékk boð um að heimsækja moskuna í Reykjavík, nokkrum vikum fyrir hryðjuverkaárásirnar í Christchurch á Nýja Sjálandi. Að því leyti er tímasetning heimsóknarinnar tilviljun en í samtali við Stundina segir hún það sjálfsagt að sýna stuðning þegar ódæði á borð við þetta eru unnin. Eliza segir vart þurfa að taka fram að allir sem á móti henni tóku hafi verið afar vingjarnlegir og gestrisnir. Hún segir að stöðu sinni sem forsetafrú vegna reyni hún að verða við óskum þeirra samtaka og félaga sem bjóða henni að koma og kynnast starfsemi þeirra.
Elizu var boðið að heimsækja moskuna þegar verið var að kenna börnum íslensku og arabísku og þáði hún það með þökkum. Í heimsókn sinni hlýddi Eliza á ávörp, gekk um húsarkynnin, tók sjálf til máls um framlag innflytjenda til íslensks samfélags og bragðaði á „gómsætu myntute og allskyns kræsingum.“
„Þá rifjaðist upp fyrir mér allur sá hlýhugur sem ég naut á ferðalögum ein míns liðs um hin ýmsu lönd þar sem múslimar eru í miklum meirihluta,“ segir Eliza.
„Þá rifjaðist upp fyrir mér allur sá hlýhugur sem ég naut á ferðalögum ein míns liðs um hin ýmsu lönd þar sem múslimar eru í miklum meirihluta.“
Eliza segir kynþáttahatur og fordóma óþolandi í samfélaginu „Ég trúi því að langflestir landsmenn séu umburðarlyndir, skilningsríkir og brjóstgóðir. En eins og annars staðar má finna lítinn og háværan minnihluta sem deilir ekki þeim sjónarmiðum,“ segir Eliza.
Eliza telur tækifæri til lærdóms þegar fólk af ólíkum uppruna, ólíkri trú og ólíkum siðum skiptist á skoðunum. Með því að eiga í samtali telur hún að við getum unnið bug á ótta og tortryggni. „Antoine de Saint-Exupéry, sem skrifaði ævintýrið um Litla prinsinn, sagði eitthvað á þá leið að þú sért ólík mér en það að kynnast þér geri mig ekki að minni manneskju heldur meiri. Ég vil hafa þetta að leiðarljósi,“ segir Eliza.
„Ég trúi því að langflestir landsmenn séu umburðarlyndir, skilningsríkir og brjóstgóðir. En eins og annars staðar má finna lítinn og háværan minnihluta sem deilir ekki þeim sjónarmiðum.“
Athugasemdir