Hervör Þorvaldsdóttir, forseti Landsréttar, greiddi atkvæði gegn bókun stjórnar dómstólasýslunnar þar sem kallað var eftir fjölgun dómara og öðrum aðgerðum til að skjóta traustari stoðum undir millidómstigið. Þetta staðfestir Ólöf Finnsdóttir, framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar, í svari við fyrirspurn Stundarinnar.
Benedikt Bogason hæstaréttardómari er formaður stjórnar dómstólasýslunnar, en auk þeirra Hervarar Þorvaldsdóttur sitja í stjórninni Kristín Haraldsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík, Íris Elma Guðmann dómritari og Halldór Björnsson héraðsdómari.
Bókun sem stjórn dómstólasýslunnar samþykkti fyrir helgi hefur vakið nokkra athygli, en þar er fullyrt að Landsréttur hafi mátt búa við óvissu allt frá því hann tók til starfa.
Nú sé sú staða komin upp, eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu, að „fjórir dómarar við réttinn geta að óbreyttu ekki tekið þátt í dómstörfum“. Því sé brýnt að dómsmálaráðuneytið hlutist til um lagabreytingu svo heimilt verði að fjölga dómurum við Landsrétt. „Án þess að gripið verði til þessa úrræðis mun álagið við réttinn aukast verulega með tilheyrandi drætti á meðferð mála,“ segir í bókuninni.
Athugasemdir