Dómararnir fjórir í Landsrétti sem Sigríður Andersen skipaði í trássi við mat hæfnisnefndar sumarið 2017 munu ekki fá úthlutuð ný mál þegar Landsréttur tekur aftur til starfa. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins.
Fimmtán dómarar starfa við Landsrétt, en eftir niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu er ljóst að dómstóllinn telur það stangast við mannréttindasáttmála Evrópu að borgarar séu dæmdir af fjórmenningunum. Fjórmenningarnir þurfa því að ákveða hvort þeir segi sig frá málum sem þeir hafa þegar fengið úthlutuð. Forseti Landsréttar úthlutar málum til dómaranna og því hans að ákveða hvort þeir fái ný mál.
Einnig er heimilt samkvæmt dómstólalögum að setja fjóra nýja dómara tímabundið í brýnni nauðsyn. Nýr ráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, mundi þá setja þá dómara að fenginni tillögu hæfnisnefndar. Auglýsa þarf embættin fyrir lengra tímabil en sex mánuði. Ef Ísland áfrýjar niðurstöðu Mannréttindadómstólsins gæti ferlið tekið meira en ár.
Athugasemdir