Lögmenn tveggja kvenna sem stóðu upp í flugvél Icelandair til að mótmæla ólöglegri brottvikningu hælisleitanda fengu ekki afrit af upptökum af skýrslutökum yfir vitnum málsins eins og venjan er. „Þetta er vægast sagt mjög sérstakt,“ segir Páll Bergþórsson, annar lögmanna kvennanna í samtali við Stundina. Hann bendir á að lögmenn eigi lögum samkvæmt að fá afrit af öllum skjölum málsins en í þessu tilfelli hafi það verið túlkað sem svo að afrit af upptökunum væru ekki eiginleg skjöl.
Lögmennirnir þurftu að fara niður á skrifstofu héraðssaksóknara til þess að hlusta á skýrslutökur yfir vitnum. Páll segir að þá hafi komið í ljós að lögreglumenn spurðu vitnin afar leiðandi spurninga, sérstaklega spurninga er vörðuð það hvort aðgerð kvennanna hefði með einhverjum hætti raskað öryggi vélarinnar. Páll gagnrýnir þetta og segir athygli vert hversu mikla áherslu lögreglan lagði á að spyrja vitnin út í þetta tiltekna atriði.
Í endurriti af skýrslutökunum sem finna má í málsgögnum er ítrekað haft eftir vitnum að þau telji að aðgerð kvennanna hafi raskað öryggi vélarinnar. Páll bendir á að þar sé hinsvegar algjörlega látið hjá líða að greina frá því að slíkar staðhæfingar hafi oftar en ekki komið fram sem svör við mjög svo leiðandi spurningum lögreglumanna þess efnis. Athygli vekur að konurnar eru meðal annars ákærðar fyrir að hafa raskað öryggi flugvélarinnar en allt að sex ára fangelsi liggur við brotinu.
Allt að sex ára fangelsi
Aðalmeðferð í máli héraðssaksóknara á hendur þeim Jórunni Eddu Helgadóttur og Ragnheiði Freyju Kristínardóttur fer fram í héraðsdómi Reykjavíkur á morgun, miðvikudag. Þær eru ákærðar fyrir að hafa staðið upp í flugvél Icelandair í maí 2016 og mótmælt brottvísun hælisleitandans Eze Okafor til Svíþjóðar, þaðan sem senda átti hann til Nígeríu. Þar hafði Eze ástæðu til að óttast um líf sitt.
Í ákæru héraðssaksóknara eru þær Jórunn Edda og Ragnheiður Freyja sakaðar um að hafa með hátterni sínu brotið gegn 106. og 168. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa annars vegar tálmað lögreglumönnum við skyldustörf og hinsvegar raskað öryggi flugvélarinnar. Þá eru þær einnig sakaðar um að hafa brotið gegn 141. gr. loftferðalaga með því að óhlýðnast fyrirmælum áhafnarinnar í vélinni.
Hámarksrefsing við broti gegn 106. grein almennra hegningarlaga er tveggja ára fangelsi en refsing við broti gegn 168. grein sömu laga getur verið allt að sex ára fangelsi. Þá liggur allt að fimm ára fangelsisdómur við broti gegn 141. grein loftferðalaga. Þær geta því átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsisdóm verði þær fundnar sekar.
Misræmi á milli upptaka og endurrits
Páll og kollegi hans af lögmannsstofunni Rétti, Auður Tinna Aðalbjarnadóttir, þurftu að gera sér ferð niður á skrifstofu héraðssaksóknara til þess að hlusta á upptökurnar af skýrslutökum lögreglu yfir vitnum. „Við á þessari stofu höfum tvisvar áður farið til Hæstaréttar með svona mál,“ segir Páll sem gagnrýnir að frumgögnum sé með þessum hætti haldið frá lögmönnum. „Það er alls ekki sjálfsagt að lögmenn geri sér ferð til að hlusta á upptökur í einhverju herbergi hjá saksóknara,“ segir Páll sem bætir við að það hafi sem betur fer verið gert í þessu tilviki, enda hafi ákveðið misræmi komið í ljós við nánari skoðun.
„Ef við fáum ekki upptökurnar þá eigum við að fá nákvæmt endurrit af þeim,“ segir Páll sem bætir við að svo hafi ekki verið í þessu tilviki. Á upptökunum megi heyra lögreglumenn spyrja afar leiðandi spurninga, sérstaklega þegar kemur að spurningum varðandi það hvort aðgerð kvennanna hafi með einhverjum hætti raskað öryggi vélarinnar. Í endurriti af skýrslutökunum sé hinsvegar engu líkara en að staðhæfingarnar hafi komið beint frá vitnunum sjálfum.
„Þá taldi [XXX] einnig að uppákoman hafi raskað öryggi flugvélarinnar,“ segir til dæmis á einum stað. Þá sagðist [XXX] telja að þetta hafi raskað öryggi flugvélarinnar á þessum tíma og eins hafi fólk verið mjög hrætt eftir á,“ er haft eftir öðru vitni. „Hann sagði þessa uppákomu hafa raskað öryggi um borð en konurnar hafi þó verið án tækja og tóla,“ er haft eftir þriðja vitninu. Á einum stað er spurning lögreglu látin fylgja með: „Aðspurð hvort hún telji þetta hafa raskað öryggi flugvélarinnar sagði [XXX] að hún telji það.“
Athugasemdir