„Litið er á starfsfólk hótelsins eins og einnota gúmmíhanska sem hent er í ruslið,“ segir starfsmaður Grand Hótels í samtali við Stundina.
Greint var frá því í byrjun vikunnar að eins konar skammarlisti væri haldinn yfir þá starfsmenn hótelsins sem taka sér flesta veikindadaga. Eflingu stéttarfélagi var tilkynnt um málið og lögfræðingur hjá ASÍ sagði að um væri að ræða alvarlegt brot gegn persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Efling hefur nú sent Persónuvernd kvörtun vegna málsins.
Mannauðsstjóri Grand Hótels, sem er í eigu hótelkeðjunnar Íslandshótela, hefur haldið því fram í fjölmiðlum að listinn hafi einvörðungu legið „inni á skrifstofu yfirmanns“ og ekki hangið „neins staðar uppi“. Starfsmenn sem Stundin hefur rætt við segja þetta rangt; listinn hafi um tíma hangið með áberandi hætti í almennu rými starfsfólks.
Vekur alvarlegar spurningar um meðferð starfsfólks
„Forsvarsmenn Grand Hótel hafa brugðist við frásögnum af þessum lista með rangfærslum í fjölmiðlum. Þetta hefur vakið alvarlegar spurningar um starfsanda og meðferð starfsfólks á hótelinu,“ segir í tilkynningu sem Efling sendi frá sér í dag.
„Talsverður fjöldi starfsfólks, sum þeirra meðlimir Eflingar og önnur ekki, hafa sett sig í samband við stéttarfélagið eftir að fjölmiðlar tóku að fjalla um málið. Þau hafa lýst undrun yfir ummælum yfirmanna, sem mörg þeirra kannast ekkert við, um sínar eigin vinnuaðstæður.“
Fram kemur að viðmælendur Eflingar frá Grand Hótel vitni um að skammarlistinn hafi hangið uppi á vegg vikum saman. „Af þessum samtölum hefur orðið ljóst að skammarlistinn var aðeins eitt af mörgum atriðum sem hafa gert vinnustaðinn verulega óþægilegan fyrir lægst launaða starfsfólkið þar, sem flest er erlendis frá.“
Starfsmaður á Grand Hótel segir í samtali við Stundina að álagið á Grand Hótel sé gríðarlegt, yfirmenn sýni hörku og vinnuandann sé slæmur. „Ég er orðinn mjög þreyttur á því að mæta til vinnu þar sem allir eru ósáttir. Ég er orðinn þreyttur á því að sjá vinnufélaga mína gráta í vinnunni og ég er orðinn þreyttur á því að sjá vinnufélaga mína strunsa út og hætta,“ segir viðkomandi.
Efling segir starfsmenn niðurlægða
Í tilkynningu frá Eflingu er fullyrt að yfirmenn hafi ítrekað niðurlægt og auðmýkt starfsfólk, meðal annars með því að „rægja konu sem ætlaði að taka sér fæðingarorlof, krefjast þess að vera ávarpaðir með titli, baktala fólk sem fer frá vinnu til að fara í reglubundið íslenskunámskeið, og hóta starfsmanni brottrekstri fyrir að sýna sér ekki tilskilda virðingu“.
Þá er haft eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, að um sé að ræða kunnuglegt mynstur. „Þetta er eitthvað sem við sjáum á mörgum hótelum. Íslendingar fá forgang í allar stjórnunarstöður, meðan útlendingarnir eru fastir á gólfinu. Og þessi skil eru síðan notuð til að halda verst launaða fólkinu með verstu störfin niðri.“
Verkalýðshreyfingin skipuleggur nú umfangsmiklar verkfallsaðgerðir gegn hótelum og rútufyrirtækjum. Um er að ræða 25 hótel og tvö til þrjú rútufyrirtæki en rekstraraðilar hafa lýst þungum áhyggjum af áformunum.
Athugasemdir