Brynhildur Bolladóttir lögfræðingur telur að Ríkisskattstjóri hafi neitað mörgum um húsnæðisúrræði sem sett var á með „leiðréttingunni“ svokölluðu. Yfirskattanefnd úrskurðaði henni í vil í dag í kjölfar þess að hún kærði niðurstöðu Ríkisskattstjóra.
Brynhildur keypti sína fyrstu íbúð árið 2014 og gat notað séreignasparnaðinn sinn til að greiða inn á höfuðstól láns síns skattfrjálst samkvæmt „leiðréttingunni“. Árið 2017 voru sett lög um ný úrræði og þeim sem höfðu keypt sína fyrstu íbúð á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017 veitt heimild til þess að fara á milli úrræðanna.
Brynhildur seldi sína fyrstu eign í júlí 2017 og keypti nýja. „Ég taldi alveg ljóst skv. lögunum að ég myndi samt uppfylla skilyrði til að nýta mér úrræðið í 10 ár, þ.e. þótt ég hefði selt eignina - enda smá skrýtið að neyða fólk til að vera í sinni fyrstu eign í 10 ár til þess að nota skattfrjálsa peninga inn á höfuðstól,“ skrifar hún í færslu á Facebook.
Sótti hún um áframhald úrræðisins í desember 2017 og fékk synjun tæpu ári seinna, í nóvember 2018. „Ég kærði það til yfirskattanefndar og fékk niðurstöðu í dag - auðvitað átti ég rétt á því að halda áfram,“ skrifar hún. „Ég skil eiginlega ekki enn hvernig RSK fékk þá niðurstöðu að ég ætti ekki rétt á þessu, t.d. ef maður les bara þessar leiðbeiningar frá þeim sjálfum.“
Brynhildur segist ánægð með niðurstöðuna en hefur áhyggjur af þeim sem sóttu um á sama grundvelli og hún og var hafnað. „Ég veit um þónokkur dæmi þess að fólk hafi fengið synjun - a.m.k. ein kærði og fékk sömu niðurstöðu og ég,“ skrifar hún. „Ég vona innilega að Ríkisskattstjóri fari aftur yfir allar þessar umsóknir m.t.t. niðurstöðu yfirskattanefndar og leiðrétti þetta þar sem við á - ekki aðeins þeim sem kærðu.“
Athugasemdir