Miðlæg deild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur málefni bílaleigunnar Procar til skoðunar. Þetta staðfestir Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn í samtali við Stundina. Lögreglunni hafa borist gögn varðandi fyrirtækið í tengslum við fréttaflutning af því hvernig kílómetramælum bíla þess hefur verið breytt og staða þeirra fölsuð.
„Við fengum ákveðin gögn í hendurnar tengd þessu sem við erum bara að byrja að rýna. Það er á algjöru frumstigi, skoðun á málinu. Við höfum auðvitað fylgst með fréttaflutningi af málinu og munum skoða það,“ segir Karl Steinar.
Jón Trausti Ólafsson, formaður Bílgreinasambandsins sem hefur innan sinna vébanda bílasölur, segir mál Procar alvarlegt. „Það þarf að skoða þetta ofan í kjölinn og við lítum þetta mjög alvarlegum augum. Þarna er verið að beita aðferðum sem standast ekki eðlilega viðskiptahætti og eru óréttmætar.“
„Ég vonast til að þetta sé einstakt tilvik“
Spurður hvort ástæða sé til að óttast að aðferðir Procar séu ekki einsdæmi og tíðkist hjá öðrum bílaleigum segist Jón Trausti vona að svo sé ekki. „Ég vonast til að þetta sé einstakt tilvik. Ég veit að í bílaleigustarfseminni er mikð af heiðarlegu og góðu fólki og ég trúi því að þetta sé ekki viðtekin venja annars staðar. Við hjá Bílgreinasambandinu munum fylgjast vel með málinu og sjá hvernig það þróast.“
Bílaleigunefnd Samtaka ferðaþjónustunnar fundaði í dag vegna málsins, en bílaleigur starfa undir hatti samtakanna. Gunnar Valur Sveinsson, verkefnastjóri hjá samtökunum, sagði þegar Stundin náði tali af honum á fjórða tímanum að verið væri að vinna úr þeim upplýsingum sem fram hefðu komið á fundinum og búast mætti við tilkynningu síðar í dag. Aðspurður hvers efnis sú tilkynning yrði vildi Gunnar Valur ekkert gefa frekar upp um það.
Athugasemdir