Póst- og fjarskiptastofnun heimilaði ekki Íslandspósti að niðurgreiða samkeppnisrekstur innan alþjónustu með tekjum af einkaréttarþjónustu umfram það sem getið er um í yfirliti vegna bókhaldslegs aðskilnaðar Íslandspósts árið 2016. Þetta kemur fram í svari stofnunarinnar við fyrirspurn Stundarinnar um málið. „Nei, en rétt er að taka fram í þessu samhengi að það er ekki hlutverk póstregluverksins að greina hvort fjármunir úr einkarétti séu notaðir til að niðurgreiða samkeppnisþjónustu, fyrir utan þann þátt sem snýr að alþjónustubyrðinni. Slíkt mat er í höndum Samkeppniseftirlitsins,“ segir í svari frá stofnuninni sem Stundinni barst fyrir jól.
Póst- og fjarskiptastofnun vísar sérstaklega til ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2017 sem ber yfirskriftina „Aðgerðir til að styrkja samkeppnisaðstæður á póstmarkaði“ og byggir á tvíhliða sátt milli Samkeppniseftirlitsins og Íslandspósts. Athygli vekur að í umræddri sátt er að finna texta sem gengur þvert gegn túlkun Póst- og fjarskiptastofnunar á lögum um póstþjónustu. Orðrétt segir í sáttinni: „Í samræmi við lög um póstþjónustu fylgist PFS m.a. með því hvort Íslandspóstur niðurgreiði samkeppnisstarfsemi sína með afkomu einkaréttarstarfseminnar. Í þessu sambandi horfir PFS einkum til samkeppnisstarfsemi í heild innan alþjónustu annars vegar og samkeppni í heild utan alþjónustu hins vegar.“ Að mati Póst- og fjarskiptastofnunar er þetta hlutverk á hendi Samkeppniseftirlitsins.
Eins og Stundin fjallaði um í haust hefur Íslandspóstur hagnast umtalsvert á einkaréttarstarfsemi undanfarin ár. Afkoman í einkaréttinum var 497 milljónir króna árið 2016 og um 400 milljónir árið 2017 umfram raunkostnað og að viðbættum hæfilegum hagnaði, en hæfilegur hagnaður er skilgreindur út frá sögulegum rekstrarkostnaði þar sem ávöxtunarkrafa miðast við vegið meðaltal fjármagnskostnaðar. Handbært fé Íslandspósts dróst saman um tæpar 200 milljónir árin 2016 og 2017 og þrátt fyrir gríðarlegan hagnað af einkaréttarþjónustu undanfarin ár glímir nú fyrirtækið við alvarlegan lausafjárvanda og hefur þurft á neyðarlánum að halda frá ríkinu.
Íslandspóstur hefur sætt rannsóknum Samkeppniseftirlitsins og legið undir harðri gagnrýni undanfarin ár vegna umsvifa fyrirtækisins á samkeppnismörkuðum. Af bókhaldsupplýsingum má ráða að fjárhagsvandinn sé að miklu leyti til kominn vegna samkeppnisrekstrar. Samkvæmt 6. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu er Íslandspósti óheimilt að nota tekjur af þjónustu í einkarétti til að greiða niður þjónustugjöld í alþjónustu sem ekki fellur undir einkarétt nema ef sýnt hefur verið fram á að slíkt sé beinlínis nauðsynlegt til að verða við sérstökum alþjónustukvöðum.
Af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar hefur komið skýrt fram að gjaldskrá Íslandspósts innan einkaréttarins sé ekki ætlað að standa undir öllum rekstri fyrirtækisins. Upplýsingar sem fram koma í ársreikningum og bókhaldsyfirlitum Íslandspósts benda þó til þess að fyrirtækið hafi gengið langt í að nýta það svigrúm sem skapast vegna umframhagnaðar í einkarétti til að niðurgreiða samkeppnisrekstur. Afkoman af samkeppnisrekstri innan alþjónustu var neikvæð um 566 milljónir króna árið 2015 og neikvæð um 790 milljónir króna árið 2016 eftir að tekið er tillit til þess kostnaðar sem einkarétti er heimilt að greiða niður vegna alþjónustu sem ekki fellur undir einkaréttarlega rekstrarhlutann. Tapið var svo 692 milljónir árið 2017 samkvæmt ársskýrslu Íslandspósts.
Póst- og fjarskiptastofnun hefur, samkvæmt þeim lögum sem gilda um stofnunina, eftirlit með starfsemi fjarskiptafyrirtækja og póstrekenda, þar með talið fjárhagsstöðu þeirra, og skal fylgjast með því að starfsemi þeirra sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur, skilyrði eða ákvarðanir sem um starfsemina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti.
Athugasemdir