Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, tilkynnir í aðsendri grein í Morgunblaðinu að hann hyggist sitja áfram á Alþingi. Bergþór fór í launalaust leyfi frá þingstörfum í byrjun desember eftir að Klaustursupptökurnar voru gerðar opinberar.
Í greininni segir Bergþór að hann hafi komið sjálfum sér illilega á óvart með orðum sínum sem tekin voru upp á hljóðupptöku á Klaustri bar. „Ég hef talað við áfengisráðgjafa og leitað aðstoðar sálfræðings og ég hef átt löng og hispurslaus samtöl við þá sem lengi hafa þekkt mig,“ skrifar Bergþór. „Ég er miður mín yfir mörgu sem ég sagði þetta kvöld og sérstaklega yfir því að orð mín hafi orðið til þess að særa fólk, sem ég hef aldrei viljað særa, en varð skiljanlega sárt þegar upptaka af samtalinu var spiluð fyrir alþjóð.“
Í greininni leggur Bergþór áherslu á að orð hans hafi ekki sært neinn fyrr en fjölmiðlar tóku að skrifa fréttir og birta upptökurnar. „Ég ber ábyrgð á eigin orðum og finnst virkilega leiðinlegt að hafa látið þau verstu þeirra falla. Í okkar fámenna hópi á veitingahúsinu voru þessi orð ósmekklegt en meiningarlaust raus yfir glasi, sem engan særði. Það var ekki okkar ákvörðun að þau skyldu borin á borð fyrir alla þjóðina,“ skrifar hann.
Þá beinir Bergþór spjótum sínum að fjölmiðlum og Báru Halldórsdóttur, uppljóstrara í málinu. „Margt kom illilega við mig í þessu. Mér fannst vond þróun að legið væri á hleri þegar annað fólk talar saman á veitingahúsum. Mér fannst vont að fjölmiðlar teldu sjálfsagt að birta slíkt drykkjuraus opinberlega og eiginlega enn verra hversu margir voru ánægðir með hvorttveggja. En verst af öllu fannst mér að heyra í sjálfum mér,“ skrifar Bergþór.
Segist hann hafa margt við upptökuna og viðbrögð við henni að athuga. „Mér finnst líka mjög athyglisvert hversu hart hefur verið barist gegn því að við, sem vorum hleruð, fáum aðgang að gögnum sem eru til og geta líklega sýnt hvernig var í raun staðið að því að hlera samtal okkar. En ekkert af þessu finnst mér þó eins slæmt og sumt af því sem ég sjálfur hef sagt þetta kvöld.
Upptakan var að vísu ólögmæt, hún virðist klippt saman og margt í fréttaflutningi af tali okkar og talsmáta hefur verið tekið úr samhengi, en í mínum huga er aðalatriðið að margt af því sem ég hef greinilega sagt þetta kvöld er að mínu mati til skammar, ekki aðeins sleggjudómar og fáránlegar hugleiðingar heldur einnig stundum með orðbragði sem kemur mér mjög illilega á óvart að ég hafi notað,“ skrifar Bergþór.
Athugasemdir