Að tala fyrir mannréttindum og jafnrétti er mjög auðvelt. Að iðka þessi stóru fínu hugtök í verki er mun vandasamara. Það krefst bæði þekkingar á sérstakri stöðu jaðarsettra hópa í samfélaginu og stöðugrar æfingar í að vinna markvisst og meðvitað gegn öllu sem viðheldur kúgun þeirra. Kúgun sem getur verið þér algjörlega hulin eftir því hversu mikil forréttindi þín eru.
Hér hefur verið byggt upp samfélag og menning út frá þörfum þeirra sem mest hafa völdin og farið hafa með völdin öldum saman. Þarfir annarra eru einmitt það, þarfir annars fólks sem gjarnan telst annars flokks, minna virði eða ekki jafn mikilvægt. Gott dæmi um þetta er hversu auðvelt er að afnema veiðigjöld hinna valdamiklu sjávarútvegsfyrirtækja en á sama tíma erfitt að afnema þau mannréttindabrot sem felast í krónu á móti krónu skerðingu hjá öryrkjum.
Karlremba, kvenfyrirlitning, fötlunarfyrirlitning, gagnkynhneigðarhyggja, stéttahroki, aldursremba, kynþáttafordómar og önnur form kúgunar eru alltumlykjandi í okkar menningu. Það þýðir að við höfum við öll innbyrt neikvæðar skoðanir, fordóma og staðalímyndir um þessa hópa. Þessi innræting hefst í bernsku þegar við getum ekki greint sannleika frá staðalímyndum og áður en við lærum að bera kennsl á rangar upplýsingar eða iðka gagnrýna hugsun. Þótt þetta sé ekki okkur að kenna berum við ábyrgð á að endurskoða það sem við höfum lært og vinna gegn þessari kúgun.
„Þessi menning kemur í veg fyrir að við hlustum þegar okkur er bent á að við höfum sært aðra með orðum eða gjörðum“
Það er ekki hægt nema hlusta á raddir þeirra sem hafa aðra upplifun af jaðarsetningu og mismunun en við sjálf. Það krefst þess jafnframt að við skorum á hina ofur einfölduðu heimsmynd um að fólk skiptist bara í tvo hópa. Vont fólk sem beitir ofbeldi og gott fólk sem gerir það ekki. Slík skipting er hluti af skrímslavæðingunni og verður til þess að við tölum um ofbeldisverknaðinn sem eitthvað sem við „erum“ í staðinn fyrir eitthvað sem við „gerum“ en þá er ekkert rými til að misstíga sig og biðjast afsökunar. Þessi menning kemur í veg fyrir að við hlustum þegar okkur er bent á að við höfum sært aðra með orðum eða gjörðum því öll orkan okkar fer í að reyna sanna að við séum góðar manneskjur.
Að hoppa í vörn, afneita upplifuninni, nota gaslýsingu eða segja viðkomandi vera að misskilja, koma með ásökun á móti um að upplifa upplifun viðkomandi sem árás eða ofbeldi, jafnvel ganga svo langt að kreista fram tár. Þetta eru allt gjörþekktar aðferðir sem karlmenn nota á konur þegar um ofbeldissamband er að ræða og reynt er að gera þá ábyrga. Þetta heitir andlegt ofbeldi.
Við gerum þetta öll að einhverju leyti eftir því hversu mikla meðvitund við höfum um kúgun hversdagsins og hversu vel við höfum þjálfað vöðva gagnrýninnar sjálfsskoðunar. Viðbrögð þingmannanna í klaustursmálinu eru gott dæmi. Þingmenn náðust á upptöku viðhafa orðalag kúgunar gagnvart konum, hinsegin fólki og útlendingum. Lilja Alfreðsdóttir sem varð fyrir hvað rætnustu kvenfyrirlitningunni kallaði þingmennina ofbeldismenn. Í stað þess að hlusta á hvaða afleiðingar þessi orð höfðu á Lilju stökk Sigmundur Davíð í hina klassísku vörn og fannst hann vera mesta fórnarlambið í því að vera málaður sem vondur maður. Hann gekk meira að segja svo langt að taka eitt gaslýsingar símtal á Freyju þar sem hann reyndi að kenna einhverjum stól eða hjóli um þá fötlunarfyrirlitningu sem viðhöfð var um kvöldið.
Hugsið ykkur byltinguna sem yrði í samfélaginu ef við gætum gagnrýnt gjörðir fólks án þess að vega að virðingu fyrir mannlegri reisn þess. Hugsið ykkur byltinguna sem yrði í samfélaginu ef algengustu viðbrögð við ábendingum eða ásökunum um ofbeldi, áreitni eða mismunun væru að hlusta, axla ábyrgð og einsetja sér að gera betur. Engin EF-sökun eða að þykja það leitt „ef“ maður kynni að hafa sært einhvern. Engar útskýringar. Engar réttlætingar. Bara full meðvitund um að afleiðingar spyrja ekki um ásetning. Sama hversu vel þú meintir orð þín eða gjörðir. Ef það talar inn í kúgandi menningu gagnvart jaðarsettum hópum þá er hún bæði særandi og meiðandi. Ábending um að þú hafir tekið þátt í slíku er óþægileg, en hún er ekki ofbeldi. Að verjast slíkri ásökun með kjafti og klóm er andlegt ofbeldi. Ofbeldið sem viðheldur kúgun hversdagsins.
Athugasemdir