Þokist kjaraviðræður ekki á sáttafundi við Samtök atvinnulífsins á morgun munu stéttarfélögin sem vísað hafa deilu sinni til ríkissaksóknara íhuga að slíta viðræðum. Fréttablaðið greinir frá.
„Það hljóta allir að gera sér grein fyrir því að ef ekkert þokast í viðræðunum þá verðum við að gera eitthvað til að ýta þeim áfram,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Málum Verkalýðsfélags Akraness, VR, Eflingar og Verkalýðsfélags Grindavíkur hefur verið vísað til ríkissáttasemjara. Segir Ragnar að með hverjum mánuði sem viðræðurnar dragist verði launþegar af þremur til fjórum milljörðum miðað við samningsgerðir félaganna.
Aðspurður hvort komið gæti til verkfalla segir hann mikilvægt að fá hreyfingu í viðræðurnar. „Það eru engin átök í kortunum nema félagsmenn ákveði og samþykki að fara í slíkt. Það er ekki ákvörðun formanna eða samninganefnda. Við vinnum eftir kröfum sem félagsmenn samþykktu en enn sem komið er höfum við ekki fengið sýnileg viðbrögð. Það er til lítils að standa í einhverri störukeppni,“ segir Ragnar.
Athugasemdir