Á hverjum morgni lokast dyrnar að baki henni og dagsverkið tekur við. Að ganga um göturnar allan daginn, sama hvernig viðrar, sama hvernig henni líður, alltaf bíður gatan eftir henni.
Hún er veik en það er engin hjálp tiltæk.
Fyrir löngu síðan fæddi hún börn í þennan heim, hún átti fjölskyldu um tíma en það er langt síðan. Hún man varla lengur hvernig það er að eiga sitt eigið heimili, rúm til að sofa í. Hvernig það er að vera í kringum fólk sem stendur ekki á sama hvað um þig verður eftir að vinnudegi lýkur.
Það var áður en sjúkdómurinn tók völdin, raddirnar í höfðinu, þorstinn í brjóstinu, skjálftinn í höndunum, reiðin og uppgjöfin.
Þetta er saga margra kvenna.
Ísland er lítið land og við erum fámenn þjóð. Samt leituðu alls 107 konur í neyðarskýlið Konukot í fyrra til lengri eða skemmri tíma. Þetta eru konur á ólíkum aldri, allt frá tvítugu til sextugs. Þær eru settar út á morgnana meðan athvarfið er lokað en mæta aftur undir kvöld. Stundum eru þær veikar á geði, sumar eru í harðri neyslu. Ekki alltaf. Þær sem verða verst úti eru samt þær sem bæði stríða við fíkn og geðsjúkdóma. Þær fá hvergi inni.
„Það eru stór teymi að vinna í málinu en kerfin eru bara ekki að tala saman,“ segja embættismennirnir og lyfta höndum í uppgjöf. Teymi mega sín lítils þegar kerfi ná ekki að vinna saman og þess vegna mæla þær göturnar í dag og næsta dag og alla dagana þar á eftir.
Þetta er hlutskipti kvenna, barna og karla í þesssari stöðu, veikustu og mest ósjálfbjarga einstaklinganna í þjóðfélaginu öllu og það er ekkert nothæft úrræði. Lengi vel voru allar dyr lokaðar börnum í neyslu ef þau voru með alvarlega geðsjúkdóma. Þau voru því í raun borin út og urðu utangarðsfólk í samfélaginu.
Það eru ekki nema svona 10 ár síðan að fólk var í of mikilli neyslu fyrir geðdeildirnar og of geðveikt fyrir meðferðarstofnanir. Viðhorfin í heilbrigðiskerfinu hafa hins vegar verið að lagast smám saman en þá situr það uppi með fólkið af því það á í engin önnur hús að venda.
Stundum er þeim ýtt út á götu af yfirfullri geðdeild eða úr húsnæði hjá borginni þar sem þær greiða ekki leigu eða eru til vandræða í sameigninni. Þar bíða ofbeldismennirnir með útréttar hendur sem leiða þær inn af götunni, inn úr kuldanum. Til að nauðga þeim eða meiða. Það er hjálpræðið sem þeim stendur til boða.
Samfélagið ræður yfir um 20 búsetuúrræðum fyrir karla sem eru geðveikir og í neyslu en engin úrræði eru fyrir konurnar sem eru þó berskjaldaðri fyrir ofbeldi og geta auk þess orðið barnshafandi með allri þeirri áhættu sem því fylgir.
Nýlega skýrði yfirmaður á geðdeild Landspítalans frá því að á deildinni hefði legið kona í tvö og hálft ár vegna úrræðaleysis í kerfinu. Henni var kunnugt um aðrar konur sem verið höfðu sjúklingar á geðdeildinni sem hefðu orðið fórnarlömb mansals eða orðið fyrir miklu ofbeldi eftir útskrift.
Hvernig má það vera að fárveikar konur séu gerðar út í vændi eða misnotaðar vegna þess að ekki er hægt að koma þeim til hjálpar?
Þær þurfa fyrst og fremst öruggt húsnæði þar sem þær geta verið á sínum forsendum en allra helst heimili með stuðningi þar sem þeim stendur til boða sértæk heilbrigðisþjónusta og félagsleg þjónusta.
Er þetta að fara fram á of mikið?
Vandinn er ekki bundinn við eina ríkisstjórn eða eina borgar- eða bæjarstjórn fremur en aðra. Þetta var svona í fyrra og hitteðfyrra og líka fyrir 10 árum. Þetta var svona í gær og verður líka svona í dag. Það hafa verið gerðar rannsóknir og það hafa komið út skýrslur og fólk hefur fórnað höndum eða vöknað um augun. En alltaf eru fárveikar konur í borginni sem eiga ekkert annað athvarf en götuna og eru upp á náð og miskunn misindismanna komnar.
Þrátt fyrir háværa metoo-umræðu í samfélaginu þar sem lýst er inn í öll skúmaskot og leitað að öllu kynferðisofbeldi og áreiti sem finnst vitum við af þessum konum og tökum örlögum þeirra eins og sjálfsögðum hlut. Stundum verður eins konar þegjandi samkomulag um það í samfélaginu að einhver sé svo aumur að það hreinlega taki því ekki að koma honum til hjálpar. Kerfin tala ekki saman af því þau vilja ekki greiða reikninginn. Ríkið vill ekki borga og sveitarfélögin vilja ekki borga. Þegar allt kemur til alls koma peningarnir þó allir úr sama vasa.
Reykjavíkurborg ætlar loksins undir lok ársins að opna heimili þar sem verður pláss fyrir sex tvígreindar konur eða brotabrot af stóru myndinni. Það er þó meira en öll hin sveitarfélögin til samans. Þar eru engir fíklar með geðræn vandamál enda löngu búið að flytja lögheimili þeirra til Reykjavíkur, sem þrjóskast við að koma ábyrgðinni yfir á ríkið sem horfir ásakandi á borgina.
Það verður því engin bylting í málefnum þessara kvenna. Við getum áfram gengið að þeim vísum á götunni.
Ofbeldismennirnir líka.
Athugasemdir