Samtök atvinnulífsins eru til tilbúin að sættast á að kjarasamningar verði afturvirkir með þeim hætti að þeir taki gildi frá og með síðustu áramótum. Á það verði þó aðeins sæst ef samningar náist fyrir lok þessa mánaðar, og að þeir verði í takt við það svigrúm sem atvinnulífið telur sig hafa til að veita launahækkanir.
Greint er frá þessu í Fréttablaðinu og vitnað í Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvædastjóra Samtaka atvinnulífsins. Þar er haft eftir Halldóri að tilboð samtakanna gildi einungis að umræddum skilmálum uppfylltum og verði viðræðum slitið og boðað til verkfalla falli tilboðið.
Verkalýðsforystan hefur lagt þunga áherslu á að kjarasamningar verði afturvirkir og segja VR, Efling og Verkalýðsfélag Akraness það ófrávíkjanlega kröfu að svo verði. Undir lok síðasta árs var haft eftir Vilhjálmi Birgissyni, formanni síðastnefnda félagsins, að sú krafa væri óháð því hvenær samningar myndu nást.
Athugasemdir