Münchausen-heilkenni kallast áráttukennd hneigð fólks til þess að gera sér upp veikindi. Ekki til að forðast vinnu eða neitt álíka, heldur af því sjúklingurinn hefur tekið ástfóstri við hlutverki sjúklingsins. Svo er tengt afbrigði af sjúkdómnum þar sem heilkenninu er þröngvað upp á aðra, oftast þannig að foreldrar sannfæra börnin sín um að þau séu veik.
Nú er ekki hægt að fullyrða neitt um að einhver persóna Drottningarinnar í Júpíter þjáist af akkúrat þessum kvilla, en einhvern veginn leitaði hugmyndin um þetta óvenjulega heilkenni ítrekað á mig við lesturinn. Eleanóra María Lísudóttir býr heima hjá Lísu mömmu sinni, sem glímir við alvarleg andleg veikindi og að virðist einhver líkamleg sömuleiðis. Við vitum svosem aldrei nákvæmlega hvað hrjáir hana – það er helst að það sé orðað þegar Nóra rifjar upp þegar Lísa yfirgaf heimabæinn Ísafjörð …
Athugasemdir