Nefndarmenn forsætisnefndar Alþingis virðast ekki hafa metið hæfi sitt með tilliti til hæfisreglna stjórnsýsluréttar þegar erindi Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata, um aksturskostnað Ásmundar Friðrikssonar og annarra þingmanna var afgreitt í haust og vísað frá.
Forseti og varaforsetar Alþingis tilkynntu í gær að þeir hefðu ákveðið að segja sig frá umfjöllun um Klaustursmálið vegna vanhæfis, meðal annars vegna ummæla sem þau höfðu áður látið falla um framgöngu þingmanna Miðflokksins.
Telja nefndarmennirnir sig þurfa að fylgja hæfisreglum stjórnsýsluréttar við afgreiðslu Klaustursmáls, meðal annars reglunni um sérstakt hæfi, og beygja sig undir sambærilegar kröfur og gerðar eru til úrskurðarnefnda í stjórnsýslu.
Að mati þingforseta leiðir þetta óhjákvæmilega af fyrirmælum 17. gr. siðareglna þingmanna um að forsætisnefnd skuli „gæta þess að málsmeðferð siðareglumála sé í samræmi við meginreglur um óhlutdrægni og vandaða og réttláta málsmeðferð“.
Athygli vekur að þingmenn sem tjáðu sig frjálslega um aksturskostnað og tengd málefni, t.d. Brynjar Níelsson 2. varaforseti sem kom Ásmundi Friðrikssyni til varnar á Facebook í febrúar, töldu ekki ástæðu til að segja sig frá afgreiðslu málsins í forsætisnefnd. Nú í Klaustursmálinu telja þingmenn hins vegar tilefni til að beygja sig undir strangar hæfiskröfur hliðstæðar þeim sem gilda um úrskurðarnefndir í stjórnsýslu.
Í upphaflegu erindi Björns Levís til forsætisnefndar, sem hann sendi þann 21. febrúar 2018, óskaði hann þess sérstaklega að forsætisnefnd tæki rökstudda afstöðu til hæfis nefndarmanna. Í svari Steingríms J. Sigfússonar þingforseta var hvergi vikið að hæfisreglum stjórnsýsluréttar en bent á að Alþingi hefði falið forsætisnefnd það hlutverk að fjalla um mál sem varða siðareglur alþingismanna, framkvæmda þeirra og brot á þeim, sbr. 2. mgr. 88. gr. þingskapa.
„Auk þessa gera lög um þingfararkaup og þingfararkostnað sérstaklega ráð fyrir því að forsætisnefnd úrskurði um ágreiningsmál sem upp kunna að koma við framkvæmd endurgreiðslna þingfararkostnaðar, þ.m.t. ferðakostnaðar. Nefndarmenn í forsætisnefnd verða því almennt ekki útilokaðir frá því að fjalla um einstök álitamál tengd siðareglunum, né um meint brot einstakra þingmanna á þeim,“ segir í svarinu frá 8. maí 2018 þar sem erindi Björns Levís var vísað frá. „Af almennum reglum leiðir hins vegar að varði mál nefndarmann sérstaklega, víkur hann úr sæti annaðhvort af eigin frumkvæði eða að undangengnum úrskurði forsætisnefndar.“
„Nefndarmenn í forsætisnefnd verða því
almennt ekki útilokaðir frá því að fjalla
um einstök álitamál tengd siðareglunum“
Björn Leví segir í samtali við Stundina að samkvæmt þeim nýju viðmiðum sem forsætisnefnd beygir sig undir í Klaustursmálinu hljóti þingmennirnir að hafa einnig verið vanhæfir til umfjöllunar um erindi hans um akstursgreiðslur.
Athugasemdir