Formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar segir Ágúst Ólaf Ágústsson þingmann hafa sagt innsta kjarna flokksins ósatt um tilkynningu sem hann sendi út á föstudaginn. Sagði hann tilkynninguna senda út í samráði við brotaþola. Fréttablaðið greinir frá.
Á föstudag sendi Ágúst frá sér tilkynningu um að hann hyggðist taka sér tveggja mánaða leyfi frá þingstörfum og leita sér hjálpar eftir að trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar komst að þeirri niðurstöðu að veita honum áminningu fyrir að áreita konu. Í gær kom svo í ljós að konan sem um ræddi væri Bára Huld Beck, starfsmaður fjölmiðilsins Kjarnans. Var Ágúst áður í eigendahópi miðilsins. Sagði Bára tilkynninguna ekki hafa verið senda út í samráði við sig.
Inga Björk Bjarnadóttir, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, segist taka afstöðu með brotaþolanum. „Ég trúði því að Ágúst Ólafur hefði sent út þessa yfirlýsingu í samráði við þolanda og það var það sem mér var sagt þegar ég frétti af þessu rétt áður en yfirlýsingin var send út. Auðvitað hryggir það mig mjög að svo hafi ekki verið,“ segir hún. „Auðvitað brýtur Ágúst Ólafur mitt traust sem formanns framkvæmdastjórnar, þegar mér er sagt að tilkynningin hafi verið send út í samráði við þolanda.“
Athugasemdir