Laxeldisfyrirtækið Arnarlax vill ekki svara spurningum um norska eldislaxa sem veiddust í Fífustaðadalsá í Arnarfirði í október síðastliðinn, undir lok stangveiðitímabilsins. Arnarlax er stærsta laxeldisfyrirtæki á Íslandi og stundar meðal annars laxeldi í Arnarfirði og í Tálknafirði á suðvestanverðum Vestfjörðum. Með þessum tveimur eldislöxum fór fjöldi veiddra eldislaxa á Íslandi í sumar upp í sex, það er að segja fjöldi eldislaxa sem af einhverjum ástæðum hafa veiðst í íslenskum ám.
Eins og tímaritið Iceland Review greindi frá fyrir helgi hefur Matís komist að þeirri niðurstöðu í kjölfar DNA-greininga að laxarnir tveir hafi verið eldislaxar af norsku kyni. Ekki hefur verið staðfest að umræddir eldislaxar hafi sloppið úr sjókvíum Arnarlax en fyrsta tilgáta um uppruna þeirra væri á þá leið sökum þess að Arnarlax stundar laxeldi í Arnarfirði.
Slysaslepping á eldislöxum átti sér stað hjá Arnarlaxi í sumar þegar göt mynduðust á eldiskví. Eins og Stundin hefur greint frá er ekki hægt að staðfesta nákvæman fjölda eldislaxa sem sluppu úr þeirri kví, hvort 5 laxar eða jafnvel nærri 5000. Fyrir liggur að tæplega 5000 færri eldislaxar voru í kvínni þegar slátrað var úr henni en átu að vera.
Tjá sig ekki vegna málaferla
Í svari við fyrirspurn Stundarinnar í tölvupósti segir Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax, að hann vilji ekki tjá sig um málið þar sem þeir „hagsmunaðilar sem um ræðir“ eigi í málaferlum við Arnarlax. „Þar sem þeir hagsmunaaðilar sem þarna um ræðir eru aðilar að málaferlum gegn Arnarlaxi munum við ekki tjá okkur frekar um þetta atvik. Vísa því góðfúslega á þá opinberu aðila sem hafa það hlutverk að sinna óhlutlægu eftirliti og greiningum á vísindalegum forsendum við aðstæður sem þessar,“ segir Kjartan.
„Þar sem þeir hagsmunaaðilar sem þarna um ræðir eru aðilar að málaferlum gegn Arnarlaxi munum við ekki tjá okkur frekar um þetta atvik“
Kjartan vill ekki svara nánar eða útskýra hvað hann á við með þessum orðum þegar honum er bent á að þetta sé niðurstaða Matís, opinberrar stofnunar, í kjölfar DNA-rannsókna á umræddum löxum. Það sem Kjartan á hins vegar líklega við er að yfir standa nú málaferli fjölda veiðifélaga og veiðiréttarhafa við íslensk laxeldisfyrirtæki út af sjókvíaeldi þeirra á Íslandi. Spurningin sem eftir stendur er hins vegar hvernig DNA-greining ríkisstofnunar á tveimur eldislöxum úr einni á tengist þessum málaferlum.
Ómögulegt er að komast að því með 100 prósenta vissu hvaðan umræddir eldislaxar sluppu og hver ber ábyrgð á því þar sem eftirlit með sjókavíaeldi á Íslandi er ekki nógu þróað til að hægt sé að rekja uppruna einstakra fiska. Því verður væntanlega aldrei hægt að slá því föstu hvaðan eldislaxarnir sluppu.
Athugasemdir