Einstaklingurinn sem sat á barnum Klaustri þann 20. nóvember síðastliðinn, varð vitni að samræðum sex þingmanna og ákvað að hljóðrita þær, stígur fram undir sínu rétta nafni og mynd í viðtali í prentútgáfu Stundarinnar á morgun.
Hingað til hefur uppljóstrarinn verið þekktur undir dulnefninu Marvin sem hann notaði þegar hann sendi fjölmiðlum upptökurnar.
Ýmsar kenningar hafa verið settar fram um hver uppljóstrarinn Marvin sé. Hver er bakgrunnur hans? Hvers vegna var hann staddur á Klaustri á sama tíma og þingmennirnir og hvað varð til þess að hann byrjaði að taka upp það sem hann heyrði?
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hélt því meðal annars fram að brotist hefði verið inn í síma þingmannanna. Þá hefur því verið velt upp, meðal annars af Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni stjórnmálafræðiprófessor og Arnþrúði Karlsdóttur útvarpsstjóra, hvort Marvin sé útsendari Stundarinnar.
En uppljóstrarinn hafði sínar ástæður til þess að taka samtalið upp og mun útskýra þær skilmerkilega og segja frá sjálfum sér í forsíðuviðtali sem birtist í Stundinni á morgun.
Athugasemdir