Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Öryrkjar enn og aftur látnir sitja á hakanum

„Það er ver­ið að svelta fólk þang­að til það tek­ur til­boði stjórn­valda,“ seg­ir formað­ur Ör­yrkja­banda­lags­ins. Hver rík­is­stjórn­in á fæt­ur ann­arri hef­ur frest­að því að fylgja eft­ir um­deild­um breyt­ing­um á kerf­inu og ör­yrkj­ar drag­ast aft­ur úr í lífs­kjör­um.

Í velferðarkafla sáttmála ríkisstjórnarinnar kemur skýrt fram að breytingar á bótakerfinu muni fara fram í samráði við forsvarsmenn örorkulífeyrisþega til að einfalda kerfið og efla lífeyrisþega til samfélagsþátttöku. Formaður Öryrkjabandalags Íslands segir að raunin sé að það sé verið að reyna að neyða öryrkja og bandalagið til að samþykkja nýtt kerfi með því að halda aftur kjarabótum þeirra.

Tveir starfshópar vinna að endurbótum á almannatryggingakerfinu, annar faghópur úr velferðarráðuneytinu, og svo samráðshópur skipaður af stjórnmálamönnum og fulltrúum hagsmunafélaga sem hafa aðild að málinu. Eitt af verkefnum þessa starfshópa er að vinna að innleiðingu á starfsgetumati í stað örorkumats, en það felur í sér að örorkulífeyrisþegar eru metnir út frá hæfni sinni en ekki skerðingu. Búist er við tillögum starfshópanna á fyrri hluta næsta árs.

Hugmyndir um upptöku á starfsgetumati komu fyrst fram árið 2007 í skýrslu svokallaðrar Bollanefndar. Málið var á lygnum sjó í næstu tveimur ríkisstjórnum þangað til Eygló Harðardóttir varð félags- og húsnæðismálaráðherra og skipaði Pétursnefnd til að leggja fram tillögur til lagabreytinga. Reynt var án árangurs að ýta málinu í gegn fyrir stjórnarslit 2016 þrátt fyrir að það hafi ekki tekist að fullþróa tillögurnar.

Takmörkuð atvinnutækifæri fatlaðs fólks

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar setti málið í stjórnarsáttmála sinn, en Þorsteinn Víglundsson, þáverandi félags- og jafnréttismálaráðherra, sagði í viðtali við Stundina að frumvarp um upptöku starfsgetumats yrði að liggja fyrir í síðasta lagi haustið 2018. Ekki varð úr því sökum stjórnarslita, en núverandi ríkisstjórn hefur unnið að upptöku matsins í gegnum áðurnefnda starfshópa.

Á málþingi Öryrkjabandalagsins í september síðastliðnum kynnti áðurnefndi samráðshópur hugmyndir sínar, en mikill munur var á framsögum nefndarmanna. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og talsmaður hans í hópnum, talaði um mikilvægi þess að nýja kerfið yrði einfaldara og skilvirkara og sagði að „lykillinn í því að gera kerfið mannsæmandi er að króna á móti krónu verði afnumið“, en þar vísaði hann í flókið kerfi um frítekjumörk öryrkja sem lækka bætur einstaklinga sem fá skattskyld laun eða bætur.

Lykilatriði að afnema krónu á móti krónuÁsmundur Friðriksson sagði á málþingi Öryrkjabandalagsins að það væri nauðsynlegt að afnema krónu á móti krónu skerðingu öryrkja til að gera kerfið mannsæmandi, en hefur ekki lagt fram frumvarp þess efnis.

„Um áramótin vil ég sjá stórt skref gerast,“ sagði Ásmundur. „Samhliða þess að við tökum starfsgetumatið þarf að vinna að aukinni atvinnuþátttöku þeirra sem eiga möguleika á því. [...] Þar verðum við að vinna saman og gefa atvinnulífinu tækifæri eða möguleika til að hafa vilja og áhuga á því að ráða þetta fólk í vinnu.“

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands og meðlimur í samráðshópnum, segir að þessari óskhyggju sem bandalagið deilir hafi ekki fylgt neinar aðgerðir stjórnvalda. „Fatlað fólk á ekki sömu möguleika á því að fá vinnu á almennum markaði og ófötluðu fólki,“ segir hún. „Jafnvel ef þú ert með rétta menntun og réttindi þá eru ekki til nein lög um viðeigandi aðlögun á vinnustað og atvinnulífið hefur ekki ennþá ávarpað eða horft á hvernig hægt væri að innleiða slíkt.“

Það getur kostað vinnustaði miklar fjárhæðir að bæta úr aðgengismálum sínum eða breyta vinnuferlum til að fólk sem fellur ekki í normið geti tekið þátt. „Við erum ekki búin að sjá hvernig atvinnulífið ætlar að bregðast við,“ segir Þuríður.

Brotið gegn stjórnarsáttmála

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar stendur að: „Fyrsta skref af hálfu stjórnvalda verður að skipuleggja framboð hlutastarfa hjá hinu opinbera fyrir fólk með skerta starfsgetu en á síðari stigum er mikilvægt að atvinnulífið taki virkan þátt í því verkefni.“ Þetta hljómar keimlíkt tillögum sem Ellen Calmon, þáverandi formaður Öryrkjabandalagsins, lagði til við Stundina þegar blaðið fjallaði um starfsgetumatið fyrir ári.

Brýtur stjórnarsáttmála ríkisstjórnar sinnarÁsmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttisráðherra, segir að ekki hafi enn hafist vinna við það sem stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar kallar „fyrsta skref“ stjórnvalda í að breyta núverandi bótakerfi.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, fékk fyrir stuttu fyrirspurn um hvernig miðaði að vinnu þessa fyrsta skrefs stjórnvalda, en svar hans var að hún væri ekki enn hafin. „Þegar niðurstöður um skipulag kerfisins liggja fyrir verður hafist handa við að skipuleggja hvernig framboð starfa hjá hinu opinbera, sem ætluð eru fólki með skerta starfsgetu, verður aukið“, svaraði hann skriflega.

Þuríður segir þetta til marks um öfuga forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og dæmi um hvernig kjarabótum öryrkja er haldið frá þeim þangað til þeir samþykkja nýtt kerfi. „Við erum tilneydd til að fylgja þessu þrátt fyrir að við höfum bent á að það sé hægt að gera ýmsa bragarbót á kerfinu án þess að kollvarpa öllu. Ef króna á móti krónu skerðing er tekin út þá myndi það eitt og sér skapa mikinn hvata fyrir þá sem geta unnið til að vinna.“

„Ef króna á móti krónu skerðing er tekin út þá myndi það eitt og sér skapa mikinn hvata fyrir þá sem geta unnið til að vinna.“

Þuríður nefnir þróun atvinnuleysisbóta í ár sem annað dæmi um hvernig öryrkjar hafa verið skildir eftir. Í ár hækkuðu þær bæturnar úr 227.417 krónum í 270.000 á mánuði á meðan að örorkulífeyrinn hækkaði aðeins um 4,7 prósent. „Mér finnst ekki slæmt að atvinnuleysisbætur fari upp í 270.000 krónur, mér finnst það, ef eitthvað, of lágt, en örorkulífeyrir hefur sögulega alltaf verið aðeins hærri en bæturnar, en hann helst strípaður í 204.352 krónum eftir skatt. Það eru margir sem þurfa að lifa á honum.“

Andi laganna ekki virtur

Sú hækkun sem verður á örorkulífeyrinum 2019 samkvæmt fjárlagafrumvarpi er mun lægri en lög um almannatryggingar gera ráð fyrir. Þau voru endurskoðuð 1997 og tekið fram í 69. grein að bætur skulu breytast árlega og: „taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs“. Ef rýnt er í umsagnir um lagafrumvarpið kemur fram að þessi tenging við vísitölu neysluverðs er aðeins til staðar til að vernda lífeyrisþega gegn því ef neysluverð hækkar meira en almenn laun.

Laun hækka hlutfallslega meira en lífeyriEf skoðaðar eru árlegar prósentuhækkanir meðallauna og örorkulífeyris sést að lífeyrinn hefur aðeins hækkað hlutfallslega meira en meðallaun fimm sinnum síðustu 20 ár: 1998, 2002, 2009, 2012, og 2017. Ef örorkulífeyri myndi haldast við launaþróun væri hann að minnsta kosti 51,7% hærri.

Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, sagði í ræðu 9. desember 1997 að tenging lífeyris við „almenna launataxta hafi ekki alltaf skilað bótaþegum sanngjarnri niðurstöðu í ljósi þeirra launahækkana sem orðið hafa á almennum vinnumarkaði“. En ef launaþróun og þróun örorkulífeyris er borin saman síðustu 20 ár sést bersýnilega að kjaragliðnun upp á 51,7 prósent hefur átt sér stað. Af þessum 20 árum hafa laun hækkað hlutfallslega meira á milli ára en örorkulífeyrir 15 sinnum.

Því er ekki hægt að segja að andi laganna frá 1997 hafi fylgt útfærslu þeirra.

Starfsgetumat hefur leitt til dauðsfalla

Þuríður nefnir að þótt ýmislegt gott sé að sjá í tillögum starfshópsins, að þá búi margir einstaklingar við núverandi kerfi og séu í mjög viðkvæmri stöðu; ekki þarf að raska miklu í lífi þeirra til að skapa hættuástand fyrir það og afkomendur þeirra. Reynsla nágrannalanda okkar af upptöku starfsgetumats hefur líka verið mjög neikvæð og á tímum hættuleg.

Hefur ekki séð neinar alvöru kjarabæturÞuríður Harpa segir að ÖBÍ sé af öllum vilja gert til að vinna með stjórnvöldum en að samráð um kjarabætur sé aðeins til að nafni til og að bandalaginu hafi ekki borist neinar raunverulegar tillögur um kjarabætur síðasta áratuginn.

Rannsóknir benda til þess að starfsgetumatið í Bretlandi og víðar hafi ekki leitt til þess markmiðs að koma bótaþegum í vinnu, heldur hafi þeir sem eru metnir hæfir til vinnu færst yfir á aðra bótaflokka eins og atvinnuleysisbætur eða fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sinna. Alls 2.380 manns létust á þriggja ára tímabili skömmu eftir að hafa verið metnir hæfir til vinnu í Bretlandi. Mannréttindastofa Sameinuðu þjóðanna hefur gagnrýnt þessa útfærslu á starfsgetumati fyrir að brjóta gegn mannréttindum fatlaðra.

Öryrkjabandalagið er ekki eitt í að leggjast gegn upptöku starfsgetumatsins, en með þeim í hópi eru stærstu stéttarfélög landsins, VR og Efling, auk Alþýðusambands Íslands

„Það er verið að svelta fólk“

„Stjórnvöld vilja hampa okkur sem mannréttindaþjóð og eru að reyna að taka mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en hér er ekkert samráð,“ segir Þuríður. „Það er einfaldlega verið að taka skref til að fækka öryrkjum og neyða þá til að samþykkja nýtt kerfi. Það er verið að svelta fólk þangað til það tekur tilboði þeirra. Mér finnst þetta beinlínis vera ofbeldi, að vera beittur svona þrýstingi af stjórnvöldum og að það hafi ekki verið stigin nein alvöru skref til að bæta kjör þessa viðkvæma hóps síðasta áratug. Það er klárt að það á ekki að hækka grunnlífeyri eða minnka skerðingar fyrr en við sættum okkur við þetta kerfi.“

Kjósa
2
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

BDV-ríkisstjórnin

Taugin milli Katrínar og Bjarna og límið í ríkisstjórninni
SkýringBDV-ríkisstjórnin

Taug­in milli Katrín­ar og Bjarna og lím­ið í rík­is­stjórn­inni

Ein af þeim spurn­ing­um sem vakn­að hafa á þessu kjör­tíma­bili er hvort traust og eða vin­ar­þel Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur og Bjarna Bene­dikts­son­ar sé lím­ið sem held­ur rík­is­stjórn­inni sam­an í gegn­um súrt og sætt. Sögu­legt for­dæmi er fyr­ir því að rík­is­stjórn Sjálf­stæð­is­flokks­ins og stjórn­mála­afls­ins lengst til vinstri á Al­þingi hafi ver­ið hald­ið sam­an af með­al ann­ars trausti milli formanna flokk­anna.
Nýtt úrræði fyrir eldri borgara nýtist helst vel stæðum körlum
ÚttektBDV-ríkisstjórnin

Nýtt úr­ræði fyr­ir eldri borg­ara nýt­ist helst vel stæð­um körl­um

Tæp­lega 30% ein­stak­linga sem fá elli­líf­eyri í dag frá Trygg­inga­stofn­un rík­is­ins mæta skil­yrð­um um sveigj­an­lega töku elli­líf­eyr­is sem fé­lags- og jafn­rétt­is­ráð­herra sam­þykkti á síð­ustu dög­um síð­asta árs. Hags­muna­að­ill­ar eru ósátt­ir við kjör aldr­aðra og að ráð­ist sé í svona sér­tæk­ar að­gerð­ir á með­an að al­menn­ir elli­líf­eyr­is­þeg­ar geta ekki þeg­ið mik­il laun.
Kjarabætur örorkulífeyrisþega standa á sér
FréttirBDV-ríkisstjórnin

Kjara­bæt­ur ör­orku­líf­eyr­is­þega standa á sér

Í fjár­laga­frum­varpi nýrr­ar rík­is­stjórn­ar er sama stefna í mál­efn­um ör­yrkja og nú­ver­andi for­sæt­is­ráð­herra gagn­rýndi harka­lega á sín­um tíma. Formað­ur Ör­yrkja­banda­lags­ins seg­ir að þing­menn úr öll­um flokk­um hafi lof­að kjara­bót­um ör­orku­líf­eyr­is­þega strax og það séu mik­il von­brigði að þau orð hafi reynst inni­halds­laus.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár