Tveimur fötluðum einstaklingum hefur verið meinað að fara ásamt aðstoðarmönnum í líkamræktarstöðina Reebok Fitness sem er staðsett í húsi Ásvallalaugar í Hafnarfirði. Ástæðan er sú að aðstoðarmenn hinna fötluðu eru ekki korthafar í líkamsræktinni.
Uppfært: Vegna fréttaflutnings Stundarinnar af málinu hefur Reebok Fitness sent frá sér yfirlýsingu. Þar biðjast þau afsökunar og segjast munu læra af málinu. Jafnframt hefur verið búið svo um hnútana að aðstoðarfólk einstaklinga með fötlun fái frían aðgang að líkamsræktarstöðvum Reebok Fitness.
Starfsmaður á sambýli í Hafnarfirði, þar sem einstaklingarnir búa, segist í samtali við Stundina afar hneykslaður á fyrirkomulaginu. „Við höfum alltaf verið með fólkið okkar í líkamsrækt og höfum aldrei þurft að greiða fyrir aðstoðarmennina. Þegar okkur var tilkynnt að fyrirkomulagið væri þannig buðumst við til að kaupa kort sem starfsmenn sambýlisins gætu samnýtt þegar við fylgdum heimilismanni í líkamsrækt. Því var hafnað líka.“
Guðrún Erla Torfadóttir, framkvæmdastjóri Reebok Fitness, segir ástæðuna þá að tölvukerfið bjóði ekki upp á það. „Það verður að vera ein kennitala og hún verður að stemma við augnmyndir,“ segir Guðrún Erla.
Níu starfsmenn vinna á sambýlinu og veltur á vaktaskipan hver þeirra fylgir skjólstæðingum í líkamsræktina. „Það er ótrúlega lélegt að krefjast þess að við kaupum níu áskriftir að stöðinni svo við getum sinnt starfi okkar. Árskort fyrir einn starfsmann kostar rúmar 70 þúsund krónur. Það gengur auðvitað ekki upp og við neyðumst til að færa okkar fólk í aðra stöð,” segir starfsmaðurinn.
Guðrún Erla segist í samtali við Stundina ekki þekkja til þessa máls. „Við erum samt alveg tilbúin að skoða þetta og hjá okkur hafa verið gestir með fylgdarmenn, við erum til dæmis með samning við Batastöðina. Gestir þaðan geta farið inn með tvo fylgdarmenn án þess að greitt sé sérstaklega fyrir,” segir Guðrún Erla.
Fyrirkomulag svokallaðra „öryrkjakorta“ er einnig gagnrýnivert að mati starfsmanns sambýlisins. Einvörðungu sé hægt að nota slík kort í þeirri stöð þar sem það er keypt og aðeins sé hægt að fá þau í þremur stöðvum; Ásvallalaug, Kópavogslaug og Salalaug. „Það er ætlast til þess að fólk með fötlun stundi líkamskrækt í sérstökum stöðvum en því miður verður að segjast að aðbúnaðurinn er mun verri í sundlaugastöðvunum þremur en í stóru stöðvunum. Þetta fyrirkomulag hentar oft ekki okkar fólki sem þarf að komast í sérstök líkamsþjálfunartæki,“ segir starfsmaðurinn. Þetta hefur leitt af sér að í sumum tilvikum hefur þurft að kaupa kort fullu verði fyrir fatlaða einstaklinga, þótt sérstök öryrkjakort séu ætluð þeim.
Guðrún Erla segist ekki geta svarað fyrir af hverju fyrirkomulagið sé svona og vísaði á eiganda Reebok Fitness, Guðmund Ágúst Pétursson. Hann svaraði því til að sala og útgáfa öryrkjakortsins sé til komin vegna útboðs Hafnarfjarðarbæjar og Kópavogs – og grundvallist á samningi við fyrrnefnd tvö bæjarfélög. Þá sagði Guðmundur Ágúst að það væri framkvæmdastjórans, Guðrúnar Erlu, að svara fyrir fyrirkomulag öryrkjakortanna.
Athugasemdir