Eftir að hafa verið staðinn að umræðum þar sem þingkonur voru kallaðar „kunta“, „helvítis tík“, „galin kerlingarklessa“ og mælst til þess að „ríða“ kvenkyns ráðherra, í hefndarskyni, segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, að slíkar umræður séu alsiða meðal þingmanna á Íslandi.
Sigmundur svaraði spurningum fréttamanna RÚV og Stöðvar 2 í kvöld með staðhæfingu um að samtal hans og fimm annarra þingmanna á barnum Klaustri væri í raun aðeins merkilegt fyrir þær sakir að það var tekið upp.
„Er ekki eðlilegt að þið biðjið þjóðina afsökunar?“ spurði Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður RÚV, Sigmund.
„Ja, við höfum beðið þjóðina afsökunar nú þegar. En það sem er auðvitað alsorglegast í þessu máli er að það sé verið að draga inn í þetta eitthvert fólk úti í bæ, án þess að í því sé nokkurt sérstakt fréttagildi. Eitthvað fólk sem menn hafa verið að ræða um á ákveðinn hátt og þann hátt, sem því miður alltof oft tíðkast þegar menn ræða við vini sína og enginn heyrir til.“
Honum þykir það alvarlegasta vera, ekki samtal hans, heldur að þetta skuli tíðkast, samkvæmt fullyrðingu hans. „Alvarleiki málsins er sá, að menn skuli í stjórnmálunum, frá því ég byrjaði, hafa, og ég undanskilinn svo sannarlega ekki, setið undir svona umræðum, hlustað á þær, ýtt undir þær.“
Sigmundur var spurður af Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur fréttakonu hvort hann þyrfti ekki að vísa í hvaða umræður hann væri að tala um, og nafngreina fólkið. „Ég velti því fyrir mér. Ég verð að segja alveg eins og er, hvort það er núna orðin skylda mín, að rekja það, hvað tilteknir þingmenn hafa sagt um aðra þingmenn, sem sumt hvert, því miður er jafnvel ennþá og töluvert grófara en það sem við höfum heyrt á þessum upptökum. Er staðan orðin sú að okkur ber núna skylda til þess að rekja það sem menn hafa haft að segja, hversu óviðeigandi sem það kann að vera.“
Í samtalinu játaði einn nánasti samstastarfsmaður Sigmundar, Gunnar Bragi Sveinsson, að hafa skipað Geir H. Haarde, fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins, sem sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, gegn því að eiga sjálfur persónulega inni greiða hjá Sjálfstæðisflokknum, þegar á þyrfti að halda.
„En það er alveg rétt hjá þér, henni er ekki treystandi og hún spilar á karlmenn eins og kvenfólk kann.“
„Hún notar kynþokkann,“ segir Sigmundur um Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra og beinir síðan orðum sínum til samflokksmanns síns, Bergþórs Ólasonar: „Beggi, ég ætla að vona að konan mín heyri aldrei af þessu, en ég hefði alveg verið til í þetta dæmi,“ segir hann. „En það er alveg rétt hjá þér, henni er ekki treystandi og hún spilar á karlmenn eins og kvenfólk kann.“
Þá kallar Gunnar Bragi, þingflokksformaður Miðflokksins, Lilju Alfreðsdóttur „helvítis tík“, með hrópum inni á barnum, og hvetur til þess að „hjólað“ sé „í hana“. Í kjölfarið er hvatt til þess að henni sé „riðið“. „Þarna loksins kom skrokkur sem typpið á mér dugði í,“ segir Bergþór, þingmaður Miðflokksins.
„Þarna loksins kom skrokkur sem typpið á mér dugði í“
Sigmundur Davíð hlær í gegnum umræðuna og bætir við í kjölfarið: „Ég er mjög ánægður að heyra að þið séuð komnir að sameiginlegri niðurstöðu með þetta.“
„Maður skammast sín ekki bara fyrir þetta, maður skammast sín fyrir að hafa í öll þessi ár tekið þátt í þessu,“ sagði Sigmundur í samtali við RÚV.
Sigmundur Davíð hafnar því enn að hljóð sem kom fram í samtalinu, þegar Freyja Haraldsdóttir var nefnd, hafi verið eftirherma af sel. Í símtali við Freyju í gær sagði hann að líklega hafi stóll verið færður til. Í viðtali við Stöð 2 í kvöld hafði hann enn aðrar skýringar: „Þetta gat verið reiðhjól að bremsa fyrir utan gluggann,“ sagði Sigmundur.
Athugasemdir