Máli þingmannanna sex sem voru viðstaddir umræðurnar á Klaustri Bar 20. nóvember síðastliðinn verður vísað til siðanefndar Alþingis. Þetta var samþykkt samhljóða á fundi forsætisnefndar þingsins fyrr í dag.
Hópur þingmanna sendi fyrir helgi forsætisnefnd erindi þar sem þess var farið á leit að nefndin vísaði málinu til siðanefndar Alþingis. Var þar tiltekið að ummæli og háttsemi þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins á Klaustri Bar stönguðust á við 5. og 7. greinar siðareglna þingmanna. Þar segir meðal annars að „alþingismenn skuli ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni“, að þeir skuli „leggja sig fram um að skapa í störfum sínum heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan og hvarvetna þar sem þeir sinna störfum sínum þar sem hafnað er hvers konar kynferðislegri eða kynbundinni áreitni, einelti eða annarri vanvirðandi framkomu“ og að „þingmenn skulu í öllu hátterni sínu sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virðingu.“
Siðanefnd Alþingis var skipuð á síðasta ári, til fimm ára, og sitja í henni Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, fyrrverandi forseti Alþingis, formaður; Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, og Salvör Nordal, sérfræðingur við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Þetta mun verða í fyrsta skipti sem máli er vísað til siðanefndarinnar.
Athugasemdir