Lýsingar þingmannanna Bergþórs Ólasonar og Gunnars Braga Sveinssonar á meintum samskiptum sínum við Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur gætu verið brot á ærumeiðingahluta almennra hegningarlaga að mati hæstaréttarlögmanns. Þeir Gunnar Bragi og Bergþór héldu því fram að Albertína hefði áreitt þá kynferðislega og Gunnar Bragi lýsti því svo að hún hefði reynt að nauðga sér. Gunnar Bragi hefur lýst því yfir að ásakanir hans um að Albertína hafi reynt að nauðga sér hafi verið „alltof sterkt orð“ og hann dregið það til baka.
Sökuðu Albertínu um að hafa reynt að nauðga sér
Á hljóðupptökum af barferð þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins á Klaustur Bar frá 20. nóvember síðastliðinn má heyra þá Bergþór og Gunnar Braga lýsa því að Albertína hefði gengið á þá varðandi kynlíf í tveimur aðskildum skiptum. Lýsingar Bergþórs voru þannig að Albertína hafi gengið mjög langt gangvart honum en hún hefur neitað því fullkomlega að svo hafi verið. Síðar á upptökunum má heyra Bergþór segja: „Ég mun segja, ertu búin að gleyma því þegar þú reyndir að nauðga mér í alvöru?“
Gunnar Bragi gekk ekki skemmra í sínum lýsingum á samskiptum við Albertínu. Lýsti Gunnar Bragi því að hann hefði verið staddur á skemmtun í samkomuhúsinu í Hnífsdal í kringum og meðal annars dansað þar við Albertínu. „Ég sagði bara nei […] en það var bara suðað. Þá var bara eins og einhver hefði verið líflátinn. Hún var brjáluð, hún trylltist, hún grenjaði og öskraði. Ég bara hugsaði, hvað, á ég að ríða henni? Það var algjörlega kreisí,“ sagði Gunnar Bragi. Skömmu síðar bætti hann við: „Það getur vel verið að við ákveðnar aðstæður, ég ætla ekki að segja hvað aðstæður, að ég þurfi að labba að henni og segja: Ertu búin að gleyma því þegar þú reyndir að nauðga mér?“
Gunnar Bragi hafði samband við Albertínu, bað hana afsökunar og hann hefur einnig lýst því að hann hafi notað allt of sterkt orðalag um samskipti sín við hana. Bergþór hefur ekki, svo Stundinni sé kunnugt um, dregið sín orð um Albertínu sérstaklega til baka en hann hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann biður alla sem hann móðgaði með orðum sínum afsökunar.
Brot varða við fangelsisvist
Oddgeir Einarsson hæstaréttarlögmaður segir að það sé sitt mat að ummæli þeirra Gunnars Braga og Bergþórs, þar sem þeir brigsla Albertínu um glæp gegn sér, geti mjög líklega fallið undir 25. kafla almennra hegningarlaga þar sem fjallað er um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Ummælin gætu verið brot gegn að minnsta kosti 234., 235. og 236. grein almennra hegningarlaga. Í þeim er fjallað um ærumeiðingar, aðdróttanir og útbreiðslu þeirra í garð fólks sem valdið gætu virðingu þess hnekki og að slíkar aðdróttanir séu bornar út gegn betri vitund. Brot á umræddum greinum geta varðað fangelsisvist, frá 1 til 2 árum.
„Þetta mundi falla undir ærumeiðingarkafla almennra hegningarlaga“
Oddgeir segir að hann telji að um ærumeiðandi ummæli sé að ræða í garð Albertínu. „Þetta mundi falla undir ærumeiðingarkafla almennra hegningarlaga. Það getur skipt máli varðandi refsinæmi í þessu tilviki er hvort ummælin séu sönn eða ekki og það er því þess sem að heldur þessu fram að færa sönnur á það.“ Eins og greint er frá hér að framan hefur Gunnar Bragi viðurkennt að ummæli hans séu ekki sönn.
Albertína gæti því, að mati Oddgeirs, annað hvort kært ummæli Gunnars Braga og Bergþórs til lögreglu eða stefnt þeim fyrir dóm í einkamáli, krafist miskabóta og að ummæli þeirra yrðu dæmd dauð og ómerk.
Oddgeir bendir þó einnig á að í 49. grein stjórnarskrárinnar segi að á meðan Alþingi sé að störfum má ekki setja neinn alþingismann í gæsluvarðhald eða höfða mál á móti honum án samþykkis þingsins nema hann sé staðinn að glæp.“ Hvort sú grein geti átt við í þessu tilviki sé erfitt að segja til um að mati Oddgeirs.
Athugasemdir