Kvenréttindafélag Íslands krefst tafarlausrar afsagnar þingmannanna sex sem náðust á upptöku á Klaustri bar 20. nóvember síðastliðinn.
„Í samtali þingmannanna kom fram djúp kvenfyrirlitning, fatlað og hinsegin fólk var smánað og niðurlægt og kynþáttafordómar afhjúpaðir,“ segir í yfirlýsingu frá stjórn félagsins. „Þó voru þarna á meðal einstaklingar sem í trúnaðarstörfum sínum hafa staðið í fylkingarbrjósti sem kyndilberar jafnréttis á landsvísu og á heimsvísu.“
Í yfirlýsingunni er bent á að í siðareglum alþingismanna er sagt að þingmenn skuli „ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni“. Auk þess skuli þeir „leggja sig fram um að skapa í störfum sínum heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan og hvarvetna þar sem þeir sinna störfum sínum þar sem hafnað er hvers konar kynferðislegri eða kynbundinni áreitni, einelti eða annarri vanvirðandi framkomu.“
Þá skuli þeir „í öllu hátterni sínu sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virðingu“ og „ekki sýna öðrum þingmönnum, starfsmönnum þingsins eða gestum kynferðislega eða kynbundna áreitni, leggja þá í einelti eða koma fram við þá á vanvirðandi hátt.“
Kvenréttindafélagið segist ekki líða að fólk sé smánað með þeim hætti sem heyra má á upptökunni. „Ljóst er að þingmennirnir sex hafa brotið gegn öllu þessu og við blasir að málefni þeirra hljóta að fara í þann farveg sem kveðið er á um í siðareglunum. Stjórn Kvenréttindafélagsins krefst þess að þingmennirnir axli ábyrgð, horfist í augu við að þeir eru rúnir trausti og segi tafarlaust af sér þingmennsku.“
Yfirlýsing Stjórnar Kvenréttindafélags Íslands í heild sinni
Á morgun fögnum við 100 ára fullveldi þjóðarinnar. Í vikunni voru birtar glefsur úr upptökum á samtali hóps alþingismanna sem staddir voru á veitingastað. Upptökurnar opinbera fyrirlitningu og fordóma sem fylgt hafa fullveldissögu þjóðarinnar, þrátt fyrir baráttu ótal kvenna og karla fyrir betra samfélagi.
Í samtali þingmannanna kom fram djúp kvenfyrirlitning, fatlað og hinsegin fólk var smánað og niðurlægt og kynþáttafordómar afhjúpaðir. Þó voru þarna á meðal einstaklingar sem í trúnaðarstörfum sínum hafa staðið í fylkingarbrjósti sem kyndilberar jafnréttis á landsvísu og á heimsvísu.
Það er ekki nóg að á Íslandi ríki lagalegt og (næstum því) tölfræðilegt jafnrétti sem mælist efst á alþjóðlegum listum. Jafnrétti felst ekki síst í því að fólk beri virðingu hvert fyrir öðru, óháð kyni, kynhneigð, fötlun og öðrum þeim breytum sem hafa áhrif á fólk, hvort sem það er í opinberum störfum eða í einkalífinu.
Við búum í samfélagi sem breytist ört í átt til jafnréttis. #MeToo byltingin hefur eflt kraft okkar til að takast á við ójafnrétti á öllum sviðum samfélagsins og í kjölfar hennar hafa öll viðmið um samþykkta hegðun færst til. Við líðum ekki lengur að konur, og raunar allt fólk, sé smánað í skjóli valdamismunar.
Siðareglur alþingismanna kveða skýrt á um að þingmenn skuli „ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni“. Auk þess skulu þeir „leggja sig fram um að skapa í störfum sínum heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan og hvarvetna þar sem þeir sinna störfum sínum þar sem hafnað er hvers konar kynferðislegri eða kynbundinni áreitni, einelti eða annarri vanvirðandi framkomu.“ Þá skulu þeir „í öllu hátterni sínu sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virðingu“ og „ekki sýna öðrum þingmönnum, starfsmönnum þingsins eða gestum kynferðislega eða kynbundna áreitni, leggja þá í einelti eða koma fram við þá á vanvirðandi hátt.“
Ljóst er að þingmennirnir sex hafa brotið gegn öllu þessu og við blasir að málefni þeirra hljóta að fara í þann farveg sem kveðið er á um í siðareglunum. Stjórn Kvenréttindafélagsins krefst þess að þingmennirnir axli ábyrgð, horfist í augu við að þeir eru rúnir trausti og segi tafarlaust af sér þingmennsku.
Í upphafi annarar aldar fullveldisins brýnir Kvenréttindafélag Íslands Alþingi og önnur stjórnvöld, kjósendur og þjóðina alla að kvika ekki frá baráttunni fyrir jafnara og sanngjarnara þjóðfélagi þar sem ekki hallar á neinn. Sköpum saman Ísland þar sem jafnrétti ríkir, fyrir okkur öll.
Athugasemdir