Stjórn Flokks fólksins hefur skorað á Ólaf Ísleifsson og Karl Gauta Hjaltason, þingmenn flokksins, að segja af sér þingmennsku ásamt öðrum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Inga Sæland sendi út.
„Stjórn Flokks fólksins samþykkir einróma að skora á alþingismennina Ólaf Ísleifsson og Karl Gauta Hjaltason að segja af sér þingmennsku ásamt öðrum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Stjórn flokksins kemur saman á ný á morgun, 30. nóvember klukkan 14:00, þar sem næstu skref verða tekin.
Fyrir hönd stjórnar flokksins,
Inga Sæland formaður Flokks fólksins.“
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, kallaði Ingu Sæland, formann Flokks fólksins „húrrandi klikkaða kuntu“ á hljóðupptöku af setu þingmanna á Klaustur bar 20. nóvember sem Stundin hefur undir höndum. Orðaskiptin voru mjög hávær, áttu sér stað í vitna viðurvist og náðust að hluta á upptökuna.
„Hún er fokking tryllt,“ sagði Bergþór við Karl Gauta Hjaltason og Ólaf Ísleifsson, þingmenn Flokks fólksins, í viðurvist flokksfélaga sinna, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Önnu Kolbrúnar Árnadóttur og Gunnars Braga Sveinssonar. Reyndu þingmenn Miðflokksins að fá Ólaf og Karl Gauta til að skipta um flokk.
„Hún getur þetta ekki. Hún getur talað um þetta, hún getur grenjað um þetta, en hún getur ekki stjórnað,“ sagði Karl Gauti.
Athygli vekur að Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti komu Ingu Sæland nær ekkert til varnar en hlustuðu þöglir á þingmenn Miðflokksins úthúða henni. „Hún vill vel,“ sagði Ólafur Ísleifsson í eitt skiptið en að öðru leyti tók hann undir með Karli Gauta um að hún væri ófær um að gegna formennsku í Flokki fólksins.
Karl Gauti brást við í yfirlýsingu sem hann sendi fjölmiðlum „Ég harma ummæli sem ég lét falla á veitingastað fyrir stuttu síðan og hafa birst í nokkrum fjölmiðlum. Af því tilefni vil ég taka fram að ég er ekki á förum úr Flokki fólksins, styð stefnu flokksins og ber traust til formanns hans, Ingu Sæland.“
Athugasemdir